30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ber hér fram ásamt hv. 6. landsk. (GÍG) brtt. á þskj. 143. Þessar brtt. voru bornar fram í Nd. af hv. 2. þm. Reykv. og hv. 8. landsk. þm. (StJSt). Efni þeirra er í stuttu máli það, að frá áramótunum næstu skuli kaupgjald breytast, ekki ársfjórðungslega, heldur mánaðarlega skv. vísitölu næsta mánaðar á undan. Þótt undarlegt megi virðast, þá var þessi litla till. felld. í Nd., og af því að ég hygg, að þar hljóti að hafa verið um mis skilning að ræða, þá leyfi ég mér að sýna hana hér aftur í þessari hv. d., því að það virðist augljóst, að hún getur á engan hátt, hvaða sjónarmið sem á er lagt, orðið til þess að gera lögin lakari, en þau nú eru, heldur færa þau þó örlítið í réttlætisátt. Hv. frsm. drap í ræðu sinni á það kapphlaup, sem illu heilli væri nú milli stéttanna um að hækka tekjur sínar, laun og tekjur, á skrúfuganginn milli afurðaverðs og kaupgjalds. Ég veit, að hv. frsm. er svo greindur maður, að hann gerir sér ljóst, að það kapphlaup breytist á engan hátt, hvort sem kaupgjaldið breytist samkvæmt verðlagsvísitölu mánaðarlega eða á 3 mánaða fresti. Það breytir engu. Og það breytir í raun og veru heldur engu í því efni, hvort fylgt er kauplagsvísitölunni svonefndu eða framfærsluvísitölunni, að öðru leyti en því, að ef fylgt er kauplagsvísitölunni við ákvörðun verðlagsuppbótar, þá er tryggt, eins og reynslan hefur sýnt síðasta hálft annað árið, að hún er alltaf lægri og vaxandi mismunur verður á henni og framfærsluvísitölunni. En togstreitan, kapphlaupið, víxlverkunin er í báðum tilfellum sú sama, það er bara öðrum aðilanum með lögum haldið skör lægra, en hinum, nokkrum stigum lægra. Ég fæ því ekki annað séð, hvað sem menn annars um þessi ákvæði gengisbreytingarl. segja, en það sé svo eðlilegt og sjálfsagt réttlætismál að samþ. þessa litlu till. á þskj. 143, að ég trúi því ekki fyrr, en ég tek á, að hún nái ekki samþykki hv. d.

Eftir að þessi brtt. mín eða okkar hv. 6. landsk. þm. var lögð fram, hefur komið á þskj. 153 brtt. frá hv. 1. landsk. Þar er um veigamikið efnisatriði að ræða, sem sé það, að framvegis verði kaupgjaldið ekki miðað við kauplagsvísitöluna, eins og ákveðið er að hún skuli reiknuð út samkv. gengisbreytingarl., heldur skuli miða við framfærsluvísitöluna. Ég er ekki enn þá, — ég var einmitt að athuga þetta mál, áður en ég kom hingað á fundinn og sá þessa till. fyrst hér þá, — ég er ekki viss um það, að þó að þessi till. verði samþ., þá sé það nægilega tryggt vegna annarra ákvæða í l., sem verið er að breyta, að hún nái tilgangi sínum. Allt um það mun ég greiða þessari till. atkv. nú. Verði hún samþ., er nægur tími til þess við 3. umr. að ganga úr skugga um, hvort svo er, hvort af henni hljóti að leiða aðrar breytingar á l., sem mér er ekki kunnugt um. En til viðbótar því, sem hv. flm. till. sagði, þá vil ég benda á það, að sá mismunur, sem hér er gerður á framfærsluvísitölunni og kaupgjaldsvísitölunni, hefur farið mjög ört vaxandi, er nú kominn, ef ég man rétt, nokkuð yfir 10 stig, og veldur þar mestu um sú stórfellda verðlagshækkun, sem varð á landbúnaðarvörum á s.l. hausti. Kann að vera, að eitthvað sé til í því, sem hv. frsm. sagði, að það, að framfærsluvísitalan sé ekki í samræmi við kaup, ýti undir ábyrgðarlausa verð- skráningu. Þó fæ ég nú ekki látið vera að benda hv. flm. till. á það, að þær reglur, sem 6 manna n., — sem hans flokksmenn voru miklir stuðningsmenn að og ötulir forvígismenn fyrir, að sett yrði á stofn, — þær reglur, sem hún starfar eftir, ráða mestu um þennan mismun. Mér þykir vænt um, að þessi till. hv. þm. er fram komin. Það er eins konar yfirbót fyrir það, sem þeir hafa gert í þessum efnum. Ég mun greiða henni atkv., en áskil mér rétt til þess, ef hún verður samþykkt, að geta fyrir 3. umr. athugað nánar, hvort ekki leiði af henni fleiri breyt. á l., sem nauðsynlegt yrði að gera, til þess að hún kæmi að haldi.