15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

181. mál, ríkisreikningar

Pétur Ottesen:

Hv. 3. landsk. hefur sagt, að það hafi nú ekki verið sín meining, að það hefði átt að fresta aðgerðum þarna. Ég vil þá spyrja: Hvaðan átti að taka féð til þess, ef það ekki var tekið úr ríkissjóði? Áttu þessir fátæku íbúar á Bíldudal að leggja fram féð? Við skulum segja, að það hefði ekki verið óeðlilegt í sjálfu sér, að þeir hefðu gert það. En hluturinn var bara sá, að þeir gátu ekki gert það. Þess vegna var ekki um annað að ræða, ef það átti að endurbyggja bryggjuna, en að ríkissjóður legði fram féð til þess að byrja með. Og hvað var þá eðlilegra en það væri gert með þeim hætti, sem gert var? Ríkissjóður leggur fram féð. Féð á að endurgreiðast af þeirri upphæð, sem dómur ákveður, og að því leyti sem hún kynni ekki að hrökkva til, þá kæmi viðbótin úr hafnarbótasjóði. Það var þess vegna ekki nema um tvennt að ræða. Annaðhvort var að láta Bíldudalsíbúa sitja við það ástand að geta ekki bjargað sér út á sjóinn — ellegar þá, að ríkissjóður legði fram féð í bili til þess að afstýra vandræðum.