15.01.1953
Neðri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

181. mál, ríkisreikningar

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Hv. 3. landsk. kvaðst muna eftir ræðu, sem ég hefði flutt um ríkisreikninga fyrir nokkrum árum, og taldi hana góða, skilst mér. Ég man nú ekki, hvernig orð féllu hjá mér þá, en það mætti nú athuga, hvað þingtíðindin segja um það. Ég gat þess líka í framsöguræðu minni nú um ríkisreikninginn, að ef vel ætti að vera, þá hefði átt að vera búið að endurskoða ríkisreikninginn fyrir árið 1951 og leggja hann fyrir þingið til afgreiðslu. Hitt er annað mál, að það er náttúrlega ekki eins mikil ástæða til gagnrýni á þessu nú eins og var áður fyrr, vegna þess að málið hefur á síðustu árum færzt í betra horf, en áður var.

Ég sé, að hv. þm. A-Húnv. er nú farinn af fundi, svo að ég þarf ekki að eyða mörgum orðum til að svara honum. Hann sagði, að ég væri með dylgjur um það, að einhver fyrirtæki hefðu eytt- meira fé umfram fjárlagaheimildir heldur en ríkisútvarpið, og að ég hefði ekki fært nein rök fyrir því. Ég hef áður sagt frá því, að ég hef orðið var við það, að nokkur fyrirtæki hafa notað hlutfallslega meira fé umfram fjárlagaheimild árið 1950, heldur en ríkisútvarpið. Ég vildi hins vegar ekki fara að þylja hér nöfn, því að ég er ekki viss um, að upptalningin yrði tæmandi hjá mér. Ég get þó sagt hv. þm. það, að á 3. gr., sem hann var að tala um, eru a.m.k. þrjú ríkisfyrirtæki, sem í launagreiðslum hafa farið meira fram úr áætlun fjárlaga heldur en útvarpið. Auk þess hef ég orðið var við ríkisfyrirtæki á öðrum greinum fjárl., og af því að ég veit, að yfirskoðunarmenn eiga að athuga fleira en 3. gr., þá tel ég, að það skipti ekki miklu máli, hvort þessi fyrirtæki eru færð á þá grein eða aðrar greinar fjárlaganna.