13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

32. mál, ættleiðing

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forsetl. Í íslenzk lög hefur vantað heilleg ákvæði um ættleiðingu. Að vísu er gert ráð fyrir henni í lögum, og í erfðalögunum nýju hafa ættleiddir menn fengið betri aðstöðu um erfðir, heldur en áður og þeir hafa víða annars staðar, en eins og ég segi, heildarákvæðin hefur vantað, og er það bagalegt, þar sem ættleiðingar fara mjög í vöxt. Það er ljóst, að til þess, að ættleiðing verði til góðs, fyrst og fremst fyrir barnið sjálft, sem ættleitt er, en einnig fyrir aðra aðila, sem hlut eiga að máli, verður að vera vel um hnúta búið, og það verður rækileg rannsókn að hafa átt sér stað, áður en ættleiðing er leyfð. Segja mætti, að úr þessu væri hægt að bæta með einfaldri stjórnvaldsákvörðun, svo að dómsmrn. þyrfti ekki að fá sérstaka lagaheimild til slíkrar athugunar eða rannsóknar, en þar sem heildarfyrirmæli vantaði um þetta og þar sem ljóst var, að of mikils handahófs hafði gætt í þessum efnum hingað til, þ. á m. ekki næg athugun átt sér stað um það, hvort rétt væri að leyfa ættleiðingu eða ekki í hverju einstöku tilfelli, sýnist mér réttara að setja slík heildarlög sem hér er lagt til og láta þá löggjöfina verða grundvöll að öruggari og betri framkvæmd, í þessum efnum, hér eftir en hingað til hefur verið.

Frv. þetta er samið í dómsmrn., með hliðsjón af norrænni löggjöf um þessi efni. Ég tel það til mikilla bóta, ef frv. næði samþykki. Þótt ekki sé hægt að segja, að þetta sé neitt verulegt stórmál, þá er það heldur engan veginn þýðingarlaust. Ég vil vænta þess, að frv. nái fram að ganga nú á þessu þingi. Ég vil leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og til hv. allshn.