02.12.1952
Neðri deild: 33. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

32. mál, ættleiðing

Frsm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af hæstv. ríkisstj. Allshn. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ. með lítils háttar breytingum.

Eins og tekið er fram í grg. fyrir frv., hefur til þessa verið farið eftir konungsúrskurðum frá 13. des. 1815 og 23. des. 1864, sem þó voru aldrei birtir hér á landi, við veitingu ættleiðingarleyfa. Í þessum úrskurðum eru fáar reglur settar um skilyrði og verkanir ættleiðingar. Hafa því ýmsar reglur skapazt í þessu efni, venjur í stjórnvaldsmeðferð. Eins og vænta má, eru hinar ólögbundnu reglur um margt á reiki.

Lagabálkur um ættleiðingu var lögfestur hjá hinum Norðurlandaþjóðunum árið 1920, en fram að þessu hefur hér á landi ekki verið gengið frá nýrri löggjöf um þetta efni. Frv. þetta miðar að því að setja skýrari ákvæði um skilyrði og verkanir ættleiðingar, en verið hafa. Er nú sérstök þörf á því, þar sem ættleiðingarbeiðnum hefur mjög fjölgað hin síðari árin.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða í heild efni þessa frv., þar sem gerð var grein fyrir því við 1. umr., enda fylgir því allýtarleg grg. og skýringar við hverja grein frv. fyrir sig.

Nefndin leitaði umsagnar barnaverndarráðs Íslands. Benti ráðið á það, að ekki væri nægilegt að ákveða aldurslágmark ættleiðanda, eins og gert er í frv., heldur þyrfti engu síður að setja ákvæði, sem bönnuðu gömlu fólki að ættleiða yngri börn en 16 ára. Féllst n. á að mæla með þeirri breyt. á frv., að eldri manni en 65 ára væri óheimilt að ættleiða yngra barn en 16 ára. Ef um hjón væri að ræða, mætti þó annað vera eldra en 65 ára. Þá taldi n. og sjálfsagt að gera þá breyt. á frv., að einnig yrði leitað umsagnar sóknarprests, áður en veitt yrði leyfi til ættleiðingar, eins og verið hefur til þessa. N. leggur og til að fella niður 19. gr., sem fjallar um það, að ættleiðing falli niður, ef kjörforeldri og kjörbarn eigast. Í áliti barnaverndarráðs var lagt til, að sett yrðu ákvæði í frv., sem bönnuðu hjúskap á milli kjörbarns og kjörforeldris. N. telur, að slíkt ákvæði, ef sett yrði, eigi heima í hjúskaparlögunum. Með því að fella niður 19. gr. vill n. benda á það, að þetta atriði verði athugað nánar og þá gerð breyt. á hjúskaparskilyrðunum, ef ástæða þætti til. Nefndin hefur orðið sammála um afgreiðslu málsins.