30.10.1952
Efri deild: 18. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

12. mál, gengisskráning o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. frsm. fjhn., 1. þm. Eyf., fann nokkuð að formi frv., og ég verð að viðurkenna, að hann hafði í sjálfu sér rétt fyrir sér í því efni. Það er ákaflega óviðkunnanlegt, að þannig skuli vera komið, að fram komi fleiri en eitt frv. á sama þingi frá stjórninni um breytingar á sömu löggjöfinni eða, eins og hv. þm. orðaði það, með sömu fyrirsögn. En stjórninni er ekki einni um þetta að kenna, heldur má segja, að hér sé um sam- eiginlega sök að ræða, stjórnarinnar og hv. Alþ. Þannig er nefnilega í pottinn búið, að á síðari árum hefur tíðkazt að setja í lög bálka mikla, og í þeim bálkum hefur verið haft mjög mismunandi efni, sundurleitt efni, sem um hefur verið fjallað af mörgum ráðh. Þannig fór nú, þegar gengislækkunin var samþ., þá var settur um það lagabálkur, og í honum voru lögfestar ýmsar ráðstafanir, sem snertu starfssvið fleiri en eins ráðh. og fleiri en eins rn. Af þessu hefur svo leitt, að þegar átt hefur að breyta þessum l., þá hefur ekki ætíð sami ráðh. fjallað um þær breyt., sem átti að gera, og úr orðið það ósamræmi, sem hv. þm. benti á. Ég hygg, að það mætti viðhafa þá aðferð, sem hann stakk upp á, að sameina hér í eitt frv. í þessari deild þau tvö frv., sem hingað eru nú komin og hann gat um og bæði eru breyt. á þessum sömu l., en ég vildi mjög eindregið óska eftir því, að það yrði ekki til þess að tefja málið, þó að sá háttur yrði á hafður, og að ekki væri farið að biða hér með málið til þess að tína inn í þetta frv. allar þær breyt., sem hafa verið gerðar á gengislögunum.

Þá eru það nokkur orð um efni málsins og þær brtt., sem fram hafa komið. Ég ætla ekki að gefa tilefni til langra umr. um málið, en ég vildi þó segja út af brtt. frá hv. landsk. þm., Magnúsi Kjartanssyni, að þar eru mjög veigamiklar breyt. á ferðinni, eins og hann dró enga dul á í sinni ræðu, og þrjú höfuðatriði. Eitt er að ákveða nú í hv. Alþ. löggjöf um verðlagsuppbætur til allra launþega eða allra þeirra, sem taka kaup, annað það, að uppbætur fylgi framfærsluvísitölunni, en ekki kauplagsvísitölunni, og hið þriðja að breyta uppbótinni mánaðarlega eftir því, sem vísitalan gefur tilefni til, en ekki ársfjórðungslega.

Um þessar ráðstafanir allar, sem hv. þm. leggur til, er það að segja, að ég hlýt að óska eftir því, að hv. d. felli þessa brtt. hv. þm. Fyrir því er í fyrsta lagi sú ástæða, að þessi brtt., ef hún væri samþ., mundi verða til þess, að verðbólgu áhrif verðlagsuppbótarinnar hlytu að vaxa stór kostlega frá því, sem þau eru nú, og valda mjög hröðum vexti dýrtíðarinnar. Auk þess er um þetta að segja, að það hefur ekki verið hér undanfarið ákveðin verðlagsuppbót til annarra, en starfsmanna ríkisins með l., og verkafólk yfirleitt vill ekki láta setja sér kaupgjald með löggjöf. Það hefur verið stefna verkalýðssamtakanna, og upp á síðkastið hefur hún verið tekin til greina hér á Alþ. Þess vegna finnst mér dálítið einkennilegt, að hv. þm. skuli nú stinga upp á því að lögfesta þennan mikilsverða þátt í kaupgjaldsgreiðslunni.

Þá vil ég benda á í þessu sambandi, að það væri ekki mikill vandi að lifa, ef hægt væri að leysa allan vanda manna með því að hækka kaup- ið. Ef hægt væri í hvert skipti, sem mönnum finnst þeir hafa of lítið fyrir vinnu sína, að leysa þann vanda með því að hækka kaupið og það þyrfti ekki að hafa neitt annað sjónarmið, þá væri létt að leysa sáran vanda. Sannleikurinn er hins vegar sá, að þessu er nú ekki þannig háttað, því miður. Allir óbrjálaðir menn ættu að geta gert sér grein fyrir því. Sumarið 1950 settu launasamtökin í landinu, Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, nefnd til þess að íhuga þetta mál. N. átti að íhuga, að hve miklu leyti m.a. kauphækkanir gætu bætt kjör launastéttanna, og n. skilaði um þetta mjög greinilegu áliti sumarið 1950. Það er í stuttu máli niðurstaðan í þessu nál. trúnaðarmanna verkalýðssamtakanna sjálfra, að ef þannig sé ástatt í landinu, að ekki sé gróði á atvinnurekstrinum og gróði og aukin framleiðsla geti staðið undir hækkun kaups, þá sé ekki hægt að vænta kjarabóta af því að hækka kaup- ið. Þessi niðurstaða er útfærð þannig, að sé svo ástatt í þjóðfélaginu, að kauphækkanir, sem gerðar eru, hafi í för með sér, að verðlag þurfi að hækka og verð á þjónustu, og ef einnig þurfi að gera ráðstafanir fyrir útflutningsframleiðsluna, til þess að hún geti borið kauphækkanirnar og þær verðlagshækkanir, sem af þeim leiðir innanlands, þá sé ekki hags að vænta af kauphækkunum. Þetta er niðurstaða n. Og niður- staða þessi hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar þannig er komið, er hætt við því, að óhjákvæmilegt verði talið að rétta við hlut útflutningsframleiðslunnar, þ.e.a.s., vinnuafl að öðrum kosti mundi flytjast þaðan, sú framleiðsla dragast saman, innflutningurinn og þjóðartekjurnar minnka. Ef þessi yrði afleiðing launahækkunarinnar, mundu kjör launþega ekki batna um þau 1.9%, sem talað var um hér að framan, þar sem magn innfluttrar vöru mundi minnka. Meira að segja ekki ólíklegt, að um kjaraskerðingu yrði að ræða fyrir launþega í stað kjarabóta.“ En n. er áður búin að reikna, hvernig 10% kauphækkun mundi verka, og segir, að af 10% hækkun mundi fyrst étast upp meginhlutinn vegna hækkana, sem leiddi af kauphækkun á mörgum sviðum, en er síðan að reyna að gera sér grein fyrir því, hvort það, sem þá yrði eftir, sem verður 1,9%, mundi verða hreinn ávinningur. Hún kemst svo að þeirri niðurstöðu, að ef til viðbótar þessum verðhækkunum innanlands þyrfti svo að gera ráðstafanir vegna útflutningsframleiðslunnar, þá mundi ekki hafast neitt upp úr kauphækkuninni fyrir launþegasamtökin og jafnvel geta orðið um tjón að ræða, eins og ég las áðan úr nál. Á þessu sjáum við, að þó að um það megi deila oft, hvort ástandið í þjóðfélaginu sé þannig, að hægt sé að hafa eitthvað upp úr launahækkun, þá er það alveg augljóst, og um það má ekki deila og á ekki að deila, að það er ekki hægt að hafa hagnað af almennri kauphækkun, hvernig sem á stendur. Það er ekki alltaf þannig ástatt í þjóðfélaginu, að hægt sé að hafa hagnað af kauphækkunum. Þvert á móti komast þessir sérfræðingar verkalýðssamtakanna að þeirri niðurstöðu, að það geti verið þannig ástatt, að það verði jafnvel óhagur að kauphækkunum fyrir launastéttirnar. Þess vegna er þetta ekki svo einfalt mál, og það er ekki ætið ávinningur að því að samþ. yfirboð, sem kunna að koma fram í sambandi við þessi mál, fremur en önnur.

Eitt mesta vandamál verkalýðssamtakanna í öðrum löndum, þar sem þau starfa með ábyrgu móti, er að ákveða, hvenær muni vera hagur af því fyrir verkalýðsstéttina að knýja fram kaup- hækkanir. Það er þetta atriði, sem forráðamenn verkalýðsstéttanna í öðrum löndum sífellt reyna að gera sér grein fyrir: Hvenær er þjóðfélagsástandið þannig, að búast megi við því, að ávinningur sé að kauphækkunum? Ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, að þjóðfélagsástandið sé þannig, að ávinningur sé að kauphækkunum, þá reyna þeir að knýja þær fram. Ef þeir komast hins vegar að þeirri niðurstöðu, að ástandið sé þannig, að ekki sé gróði á framleiðslunni, sem geti staðið undir kauphækkunum, og þær muni þess vegna koma fram aftur með fullum þunga, þá reyna þeir ekki að knýja fram kauphækkanir. Ég leyfi mér að efast um, að nógu mikil áherzla sé lögð á það hér innan þessara voldugu og þýðingarmiklu samtaka að kryfja þetta atriði fullkomlega til mergjar. Ein af helztu þjóðfélagsskyldum þessara samtaka er þó vitanlega sú að reyna að gera sér sem fyllsta grein fyrir þessu. Séu knúnar fram kauphækkanir, sem geta ekki skilað neinum nettóhagnaði til launastéttanna, þá er verr farið, en heima setið. Það verður allt- af mikið tjón í öllum þeim stimpingum, sem verða í sambandi við þessi mál — það þekkjum við, og slíkar launahækkanir auka ætíð verðbólguna til stórtjóns fyrir heildina og þar með verkalýðsstéttina. Kaupið á vitanlega að vera eins hátt og mögulegt er að fá út úr atvinnurekstrinum á hverjum tíma, þegar á heildina er litið. Það er sjónarmiðið, sem hafa á. Vandinn er svo að finna, hvenær þjóðfélagsástæður eru þannig, að hægt sé að knýja fram kauphækkanir, sem gera gagn, sem skila sér heim, en tapast ekki á leiðinni.

Þessar athugasemdir vildi ég gera til skýringar því, að ég mæli gegn brtt. þeirri, sem hv. landsk. þm., Magnús Kjartansson, hefur lagt fram. Það er nær ómögulegt, að nokkur maður geti haft þá skoðun, að það muni verða ávinningur fyrir verkalýðinn, eins og núna er ástatt, að knýja fram, þótt hann gæti, efni þessarar till. Það er nokkurn veginn augljóst, að nú er þannig ástatt fyrir atvinnurekstri hér, að þar er ekki um hreinan gróða að ræða, sem staðið gæti undir slíkum greiðslum, og þær hækkanir mundu því ekki skila sér heim til launþega, þegar öll kurl væru til grafar komin.

Ég vildi líka mæla gegn því, að till. hv. 4. þm. Reykv. yrði samþ. Sú regla, sem ákveðin er í lögunum um greiðslu verðlagsuppbótarinnar, er alveg nákvæmlega eins og sú regla, sem verkalýðsfélögin og atvinnurekendur komu sér saman um, og það er ætlunin að lögfesta þá reglu áfram, en ekki að taka upp nýja reglu um greiðslu verðlagsuppbótarinnar, eins og hv. þm. stingur upp á. Niðurstaða þeirra samninga, sem gerðir voru í fyrra, varð einmitt sú að breyta kaupgjaldinu aðeins fjórum sinnum á ári, og átti það að verða til þess að draga úr víxlverkunum eða réttara sagt draga úr áhrifum þeirrar verðskrúfu, sem ætið er samfara upp- bótargreiðslum eins og þeim, sem hér er gert ráð fyrir. Átti að draga úr þeirri hættu með þessu ákvæði. Ég held því fram, að eðlilegast sé, að málið verði afgr. óbreytt og áfram verði lögfest sú sama regla, sem verið hefur í gildi um sinn.