07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

131. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Það leiðir nú af efni þessa frv., að það er eðlilegt, að það fari til landbn., það er ekki nema sjálfsagt. En viðkomandi sölu á þessum jörðum, þá er það að segja, eins og ég minntist á í þessum fáu orðum, sem ég talaði hér áðan, að í l. um prestssetur frá síðasta þingi er heimilað í hverju einstöku tilfelli, þar sem rætt er um að leggja niður prestssetur, að selja jarðirnar, þannig að það var stefnan, sem þingið tók, að selja jarðirnar, og ég geng út frá því, að það hafi verið ætlunin að selja þær fyrir það verð, sem væri eðlilegt gangverð. Það var sú stefna, sem greinilega kom fram í frv. og ekki virtist vera mikill ágreiningur um. Jafnframt kemur það af sjálfu sér, að um leið og selt er með slíkum hætti sem frv. um skipun prestakalla markaði á s.l. þingi, þá er selt kvaðalaust, því að kvaðirnar fylgja eðlilega því, að jarðirnar eru seldar fyrir fasteignamat, þ.e.a.s., kaupendunum eru afhentar jarðirnar fyrir gjafverð, og það fylgir því sú kvöð, að þeir mega ekki selja þær aftur. Undir þessum kringumstæðum er raunverulega um það að ræða, að ríkið er að flytja þarna til úr einni fasteign í aðra.

Það má náttúrlega lengi um það deila, hvort er betri eign að eiga prestssetur á Hólmavík, hús þar, embættisbústað, eða eiga þessa embættisbústaði á Stað í Steingrímsfirði og í Kollafjarðarnesi. En það er einnig rétt, að ég minntist ekki á það, a.m.k. ekki beinlínis, í þeim fáu orðum, sem ég sagði hér áðan, að andvirði þessara jarða ætti að ganga til þess að byggja upp prestssetrið á Hólmavík. Það er þó tilgangurinn beinlínis með frv. Ég tel nú, að þar sem hér er um sérlög að ræða og raunverulega staðfestingu á þeirri stefnu, sem var tekin á seinasta þingi, að selja ýmis prestssetur til þess að byggja upp önnur ný, þá leiðir það nú af hlutarins eðli, þegar verið er að afla skýrari heimildar til þess að fylgja þeirri stefnu, sem kom fram í frv. um prestaköll, að þá yrðu peningarnir notaðir til þess að byggja upp prestssetrið á Hólmavík, en ekkert hef ég á móti því, að það sé tekið sérstaklega fram í frv., því að það er beinlínis tilgangurinn með því. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að orðlengja um þetta. Frv. er ekkert annað en skýrari ákvæði um þau fyrirmæli, sem gefin voru í l. um prestssetur á seinasta þingi. Og ég verð nú að segja það, að ég tel meiri líkur til þess, að heimildin sé til staðar þar í l., þó að það sé auðvitað eðlilegt, að ráðh. vill ekki selja eftir vafasömum heimildum, heldur fá þingið til þess að segja um það alveg skýlaust, hvort það er þess vilji.