05.12.1952
Efri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

131. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þegar var verið að ræða hér um breytta skipun á prestaköllum landsins í fyrra, þá var sett inn í það frv. sem 7. gr. grein, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Andvirði prestssetra þeirra, sem lögð verða niður samkv. lögum þessum, skal verja til húsbygginga og annarra endurbóta á prestssetrum í viðkomandi prestaköllum.“

Þegar n., sem skipuð var í þetta mál, mþn., hafði það til meðferðar, þá lagði hún til, að breytt yrði til um prestssetur á nokkrum stöðum á landinu og prestar færðir úr fámennari stöðum og í fjölmennari, eins og hún líka lagði til, að sameinuð yrðu nokkur prestaköll og tilfærsla prestssetra af þeim sökum. Hún hafði það ákveðið í huga, að þær jarðir, sem þannig hyrfu sem prestssetur, og þar sem sú breyt. hefði í för með sér, að nauðsyn krefði, að byggð væru upp ný prestssetur, yrðu seldar og andvirði þeirra varið til þess að byggja upp hin nýju prestsseturshús, og sem vilji n., sem hafði lagt þetta til á ýmsum stöðum, kemur þetta allt fram í 7. gr. frv., sem Alþingi samþykkti og enginn hafði neitt við að athuga. Þess vegna lít ég nú svo á, að í sjálfu sér þurfi engin sérstök lög til þess að selja þau prestssetur, sem hér er um að ræða; það orkar ekki tvímælis, að það á að flytja prestana frá þeim, orkar ekki tvímælis, að prestur á að sitja á Hólmavík og þarf að hafa húsnæði þar. Og þá hef ég skilið, að það væri ákveðinn vilji Alþingis, sem samþykkti þessa 7. gr. mótatkvæðalaust, að andvirði þessara jarða yrði varið til þess að byggja yfir prestinn á Hólmavík. Hins vegar líta lögfræðingar svo á, — sumir að minnsta kosti, — að það sé ekki beint sagt, að það eigi að selja prestssetrin, heldur sé ákveðið í 7. gr., að ef þau séu seld, þá skuli verja andvirðinu til húsbyggingar á nýjum prestssetrum. Því var það, að hæstv. landbrh. lagði fyrir þessa d. frv. það, sem hér liggur fyrir.

Ég er nú einn af þeim mönnum, sem telja, að yfirleitt eigi ekki að selja þær jarðir, sem eru í eign hins opinbera, heldur koma ábúðinni á þeim allt öðruvísi fyrir. En ég viðurkenni það, að stundum liggja atvikin þannig, að það getur verið réttmætt, og þó að ég sé ekki fýsandi, að þessar jarðir séu seldar, þá legg ég það samt til og tel mig gera það í samræmi við almennan vilja allra þm. í fyrra, þar sem enginn greiddi atkvæði á móti 7. gr. Ég hef þess vegna reynt að kynna mér og einnig nefndin sem heild, hvernig það liggi með þessar jarðir, sem þarna er um að ræða. Þær eru nú taldar í frv. tvær, og prestssetrin eru ekki í raun og veru nema tvö, en fasteignirnar eru þrjár og í þremur hreppum.

Það er fyrst og fremst Kollafjarðarnes, þar sem setið hefur prestur nokkuð lengi, og ætlazt er til, að það prestakall leggist niður og sóknirnar skiptist milli Prestsbakka, önnur, og Hólmavíkur hin. Í nál. hef ég gefið eins tæmandi upplýsingar eins og ég hef getað fengið upp viðvíkjandi jörðinni. Þetta er dálítil hlunnindajörð. Það er á henni bæði reki, dúnn og selur, en ekki mikið af neinu, dálítið af því öllu, tiltölulega mest af reka, og geri ég ráð fyrir, að þessi jörð mundi seljast fyrir í kringum 60 þús., þótt ég þori ekki að segja það.

Það kemur náttúrlega til álita, hvort það ætti að selja þessa jörð eins og aðrar opinberar jarðir á fasteignamati og með þeirri kvöð, að hún verði gerð að ættaróðali. Eins og málið liggur, þar sem beint er ætlazt til, að andvirði þessara jarða renni til byggingar prestsseturshúss og spari þar með ríkissjóði peninga og það fáist upp úr þeim byggingum, sem ríkið á á jörðinni, það, sem það raunverulega er virði, og með tilliti til þess, að ekki hefur farið fram mat lengi á fasteignum, þá sá n. sér ekki fært að leggja til, að þær yrðu seldar með þeirri kvöð, að þær yrðu gerðar að ættaróðali og eftir fasteignamati, en það tvennt heyrir saman að lögum. Þess vegna leggur hún til, að þessi jörð sé seld frjálsri sölu og matsmenn meti hana, ábúandi fái að sitja fyrir og svo náttúrlega hreppurinn, að lögum, en ef hvorugur þeirra vill, þá sé ekki endilega bundið við matsverðið, heldur komi þá til það verð, sem hægt er að selja hana hæst á, jafnvel þótt það verði hærra en matsverðið.

Kollafjarðarnesinu fylgir sjóður, sem er fyrningarsjóður prestsseturshússins, sem þar er. Hann er ekki hár, liðlega 5 þús. kr., en vitanlega telur n., að hann eigi ekki að fylgja með í sölunni. Húsið verður selt í því ástandi, sem það er, en ekki eins og þegar það var nýtt, en sjóðurinn er ætlaður til þess að geta endurnýjað húsið, þegar það er gengið úr sér, og hann fær sá bóndi eðlilega ekki til afnota, sem jörðina kaupir.

Staður í Steingrímsfirði er prestssetur, en það verður flutt að Hólmavík eftir lögunum. Ég hef líka reynt að afla mér upplýsinga um það. Það fylgir því önnur fasteign, sem hefur fylgt staðnum lengi, Ásmundareyjar, sem heima fyrir eru kallaðar Ásmundarneseyjar, varpeyjar, sem liggja í Bjarnarfirði; rétt undan landi Ásmundarness. Bóndinn í Ásmundarnesi eða eigandi Ásmundarness á hólma innan um þessar varpeyjar, og hann hefur oftast séð um þær fyrir prestinn á Stað, — fyrir bóndann núna seinni árin, af því að presturinn hefur ekki setið þar, — af því að þær liggja svo langt frá, að það er útilokað, að hægt sé að sinna þeim frá Stað. Já, ég segi nú, að það sé útilokað. Það er nú kannske ekki alveg rétt núna eftir svona tvö ár, þá verður líklega kominn bílvegur á milli, og þá er það ekki orðið nema svona 11/2–2 tíma keyrsla á bíl, og úr því væri náttúrlega hugsanlegt að nytja þær frá Stað. En eins og aðstæðurnar hafa verið, þá hefur það verið óhugsanlegt að nytja þær frá Stað, enda aldrei gert, heldur hefur Staðarprestur alltaf látið annan nytja þær annaðhvort fyrir sig eða borgað honum sérstaklega fyrir eða þá leigt honum þær alveg. Það hefur verið sitt á hvað.

Þessar þrjár fasteignir lítur n. svo á að verði að seljast hver í sínu lagi. Við höfum samþ. hér annað frv. um ítök, þar sem við ætlumst til, að ítökin fylgi yfirleitt eða a.m.k. geti yfirleitt fylgt þeim jörðum, sem hægast eiga með að nytja þau. Þá er náttúrlega í hæsta máta óeðlilegt að fara að selja Ásmundareyjarnar með staðnum, til þess svo rétt á eftir að láta eiganda Ásmundarness, sem á þar land að, aftur kaupa þær undan staðnum. Þess vegna leggjum við til, að þetta sé selt í þrennu lagi og frv. breytt eftir því.

Ég sagði, að ég gerði ráð fyrir, að Kollafjarðarnes mundi seljast fyrir 50–60 þús. Ég geri ekki ráð fyrir, að Staðurinn eyjalaus seljist fyrir nærri svo mikið. Ég gæti hugsað, að hann seldist fyrir 30–40 þús. og eyjarnar fyrir annað eins, svo að upp úr þessu öllu hefðist eitthvað dálítið á annað hundrað þús. kr., kannske upp undir 150 þús. kr., upp í það hús, sem þá þarf að byggja á Hólmavík yfir prestinn.

Við leggjum þess vegna til, að frvgr. sé breytt og hún orðist eins og stendur á þskj. 364, þar sem taldar eru upp þessar þrjár fasteignir, sem metnar eru hver um sig fasteignamati, og það sé heimilt að selja þær allar eftir matsverði dómkvaddra manna, og ef þeir, sem eiga forkaupsrétt á þeim fyrir það, vilja ekki sæta því, þá séu þær seldar þeim, sem hæst verð vill bjóða, og andvirðinu sé ráðstafað samkv. 7. gr. l. um prestaköll, og gerum við það af því, að það má deila um það, hvort allt andvirði Kollafjarðarness á að renna til prestsseturshúss á Hólmavík. Ef það þyrfti að byggja á Prestsbakka, þá væri eðlilegra, að Prestsbakki nyti einhvers af andvirðinu. Það kemur náttúrlega í sama stað niður, þar sem ríkissjóður kostar það, sem þetta ekki hrekkur til, á báðum stöðunum. Þess vegna skiptir það ekki máli, en til þess að vera vissir um að koma ekki þar með ágreining um það, hvernig andvirðinu er varið, þá settum við í gr., að því skyldi verja eftir 7. gr. l. um skipun prestakalla frá síðasta þingi. — Afleiðingin af því, ef þessi breyt. okkar yrði samþ., yrði sú, að fyrirsögn frv. þyrfti að breytast, Ásmundareyjarnar bætast við.

Annað held ég ekki að ég þurfi að taka fram um málið. Það eru ýmis atriði í raun og veru, sem komið hafa fram við athugun þessa máls, þ. á m. það, að þessi tvö prestssetur hafa ekki verið endurmetin til afgjalds síðan 1920, og þó mæla l. svo fyrir, að það skuli endurmeta heimatekjur presta, þ.e. afgjald þeirra eftír jarðirnar, sem þeir nytja, á 10 ára fresti. Sýnir það, að þeir ráðherrar, sem setið hafa í kirkjumrn. síðan 1920, hafa ekki hugsað um að láta þetta fara fram. — Það kom líka annað í ljós við þessa athugun. Það er það, að prestarnir eru einu embættismennirnir, sem sitja við húsnæðiskjör, sem eru sérstök í lögum, þar sem ákveðið er, að presturinn skuli greiða 320 kr. á ári fyrir húsnæði. Á það hefur að vísu núna alveg nýlega verið lögð vísitala, svo að þeir greiða 3 sinnum það, 960 kr. Það er svipað og við í ríkisskattanefndinni metum ýmsum sýslumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum á mánuði fyrir það húsnæði, sem þeir nota, meðan prestarnir eru látnir greiða þetta á ári. Í sömu l. er ákveðið, að ríkið skuli leggja til 12.000 kr. til að byggja prestsseturshús. Nú hafa allir fundið, að sú upphæð var orðin of lítil, og svo hefur verið lagt í prestsseturshúsin miklu meira, líklega nokkurn veginn eins og þau hafa þurft oft og einatt. En hin talan, 320 kr., afgjaldið, sem 12.000 kr. voru miðaðar við á sínum tíma, hefur alltaf verið látin halda sér og aldrei rukkuð af þeim hærri húsaleiga, en 320 kr. á ári, með vísitölunni nú síðustu tvö árin, áður vísitölulaust, svo að ríkissjóður hefur leikið sér að því að fleygja frá sér tekjum þarna, bæði í afgjaldinu eftir húsin og eins afgjaldinu eftir jarðirnar, sem þeir búa á, þar sem þeir búa enn þá í sömu leigu og var 1920, þegar brauðamatið fór fram, þótt það sé í l. ákveðið, að það skuli endurnýjast og endurskoðast á 10 ára fresti. Þetta komumst við að raun um í n., þegar við fórum að athuga frv., og þar sem nú einn ráðh. er hér við, — það er að vísu ekki ráðh., sem þetta heyrir undir, — þá vildi ég gjarnan beina því til hæstv. ríkisstj. að athuga þessi mál. Þarfir ríkissjóðs eru vafalaust alveg nógar fyrir féð, þótt það sé ekki leikið sér að því að sleppa tekjum, sem ríkissjóði ber eftir lögum, eins og eftirgjaldi eftir prestssetrin, sem vafalaust mundi verða annað núna, en það var 1920.