30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

131. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Við höfum reynt í nál., þeir þrír nm., sem saman náðu, eftir að málið kom aftur frá Nd., að gera svo greinilega grein fyrir þeim breyt., sem á frv. urðu í Nd., að ég þarf litlu við að bæta. Það voru aðallega þrjár breytingar, sem á því voru gerðar þar.

Fyrsta breyt. var sú, að Kollafjarðarnes og Staður eiga að seljast með því skilyrði, að þær séu gerðar að ættaróðulum. Við höfum velt þessu fyrir okkur hér í nefndinni og settum þetta nú ekki inn í lögin, og það var af því, að það er ætlazt til, að andvirði þessara jarða renni til kirkjubygginga, eins og mælt er fyrir í lögunum um prestaköll, prestakallalögunum frá í fyrra, og þess vegna vildum við ekki láta verðið fyrir þær verða eins lágt og viðbúið er að það verði, þegar þær eru seldar með þeirri kvöð. Þó höfum við nú gengið inn á þetta og leggjum ekki til, að þessu sé breytt aftur og frv. þess vegna sent á milli deilda.

Þá hefur verið bætt inn í nýrri jörð, jörðinni Kolgrafarseli í Eyrarsveit. Þetta er ósköp lítil jörð, sem búin er að vera í eyði lengi. Hún hefur verið notuð af bóndanum á Grund í Eyrarsveit, sem Kristján heitir Þorleifsson. Hann er hættur að búa þar nú, en hefur jörðina enn þá í sinni umsjá gagnvart því opinbera, sem á jörðina. Hins vegar hefur hann leigt hana manni, sem býr á Kolgröfum, og það er hann, sem vill kaupa hana. Mér er tjáð, að þessi Kristján, sem að lögum á forkaupsréttinn, þar sem hann er ábúandi gagnvart því opinbera, vilji ekki nota forkaupsréttinn og mæli með því, að ábúandinn á Kolgröfum fái jörðina. Þess vegna mælir n. með því, að þessi breyt., sem þarna hefur verið sett inn, verði staðfest hér í d., en vill þó láta þess getið, að hún telur, að áður en hún verði seld bóndanum á Kolgröfum, sem heitir Ingvar, ef ég man rétt, sé gengið úr skugga um það, að þeir, sem eiga að lögum forkaupsrétt að jörðinni, vilji ekki nota hann.

Loks hefur svo verið bætt hér inn í Grísará í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði. Ég held, að það sé byggt á misskilningi, og eftir því sem mér hefur skilist í samtali við þann mann, sem hefur mælzt til þess við n. í Nd., að þessi jörð væri tekin inn í frv., þá sættir hann sig mjög vel við, að hún falli hér út aftur. Það er þannig ástatt um Grísará, að það er jörð, sem er búin að vera í eyði mjög lengi og engin hús eru uppistandandi á. Hún liggur upp að Kroppi í Hrafnagilshreppi og hefur verið leigð bóndanum á Kroppi lengi. Davíð sálaði hafði hana, meðan hann bjó á Kroppi. Bæði Kropp og Grísará á ríkissjóður.

Nú hefur fengið Grísará leigða maður, sem ég ætla að heiti Hreiðar og ekki býr þar, því að hún er húsalaus, heldur mun hann búa í húsi, sem hann hefur byggt út undir Reykhúsum. Hann hefur fengið jörðina leigða til 7 ára, og hans leigutími rennur út vorið 1956. Samhliða því, sem hann hefur fengið jörðina leigða, þá hefur hann líka fengið leigðan part af Kroppsengjum. Bæði hann og bóndinn á Kroppi hafa sótt um að fá jarðirnar keyptar. Nú er það alveg ljóst, að til þess að þarna geti orðið tvö sómasamlega góð býli, þá þarf að skipta Kroppsengjunum og láta hluta af þeim fylgja Grísaránni og annan hlutann áfram Kroppi. Við leggjum þess vegna til, að þessi heimild til sölu á jörðinni Grísará sé tekin út úr frv. núna, en það verði af ríkisstj. lagt fyrir landnámsstjóra að athuga, hvernig Kroppsengjarnar eigi að skiptast á milli þessara jarða, og þá hafa þessir menn báðir, sem eru ábúendur á jörðunum, möguleika til að kaupa þær á eftir með fasteignamatsverði, sem þó þarf að koma á þann hart sérstaklega, sem metinn verður frá Kroppi og undir Grísarána. N. leggur því til, að það séu samþ. breyt. við frv., sem ganga út á það að fella niður heimildina til þess að selja Grísará, en láta frv. að öðru leyti standa. Og ég held, að það sé óhætt að fullyrða það alveg hiklaust, að 2. þm. Eyf., sem mun hafa komið þessu inn í Nd., af því að hann áttaði sig ekki til fulls á því, hvernig málið lá, sé hæstánægður með það.