02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (891)

131. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Samkvæmt till. hv. landbn. í þessari d. og eftir tilmælum mínum var tekin inn í frv. þetta, þegar það var síðast hér til meðferðar, heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja, auk þessara jarða, sem hér eru tilgreindar, einnig jörðina Grísará í Hrafnagilshreppi í Eyjafjarðarsýslu núverandi ábúanda hennar. Orsök þess, að ég bar fram frv. hér í hv. d. um heimild til að selja þessa jörð, var sú, að á því virtist leika nokkur vafi, hvort heimilt væri eftir gildandi lögum að selja ábúanda þessarar jarðar jörð sína, þar eð hann bjó ekki á jörðinni sjálfur, þótt hann nytjaði hana, og þótti þess vegna öruggara að taka inn í l. sérstaka heimild til að selja þessa jörð.

Nú nefur hins vegar sú breyting verið gerð á þessu frv. í Ed., að jörðin Grísará hefur verið felld út úr frv. aftur. En því er jafnframt yfir lýst í nál. hv. landbn. í þeirri deild, að það sé nú í athugun að selja umrædda jörð, ásamt jörðinni Kroppi, sem á nokkuð af engjum þeim, sem nytjaðar eru frá Grísará, og talið er nauðsynlegt, að þeim engjum verði skipt milli jarðanna. Með hliðsjón af þessu hefur landbn. þeirrar d. lagt til, að heimildin yrði felld út úr frv. aftur.

Ég sé ekki beinlínis ástæðu til, að fengnum þeim upplýsingum, sem eru í nál. hv. landbn. í þeirri d., og vegna ummæla, sem þar komu fram af hálfu hv. 1. þm. N-M., þegar frv. var þar til umr., að taka þessa heimild aftur upp í frv. hér, en vildi aðeins láta það koma fram hér í þessari hv. d., að ég flyt ekki brtt., í fullkomnu trausti þess, að það sé svo háttað sem hv. landbn. Ed. upplýsir, að þessi sala muni verða heimil og muni verða framkvæmd núna alveg á næstunni eftir ákvæðum l. um erfðaábúð og óðalsrétt, án þess að sérstök lagaheimild komi til. Og þar sem það er beinlínis fram tekið í nál. hv. landbn. Ed., að niðurfelling heimildarinnar úr frv. byggist eingöngu á þessu, þá vildi ég mega líta svo á, að í því fælist einnig fullkomin yfirlýsing þeirrar hv. d., að hún sé samþykk því, að þessi sala fari fram.

Ég vildi láta þetta koma fram við meðferð málsins, lokameðferð þess hér í þessari hv. d., að ég sé ekki ástæðu til að óska eftir, að jörðin Grísará verði tekin aftur inn í frv., í trausti þess, að sala jarðarinnar verði engu að síður talin heimil, svo sem upplýst hefur verið í hv. Ed.