22.01.1953
Neðri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að ég er einn af þeim, sem ekki hafa áttað sig fyllilega á því, hvaða nauðsyn er á því, að þessi banki verði stofnaður, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv. Að því leyti til get ég fyllilega tekið undir orð eins af bankastjórum Landsbankans, Jóns Árnasonar, í hans grg., að mér sýnist, eftir að hafa athugað þau gögn, sem hér hafa komið fram, að með öllu sé þarflaust að stofna þennan banka. En í tilefni af því, sem hér hefur verið sagt, þá hefði ég gjarnan viljað koma hér fram með nokkrar fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. og gera þar með tilraun til þess að fá svolítið frekari upplýsingar um það, hvað raunverulega vakir hér fyrir.

Áður en ég set mínar spurningar fram, í von um það, að hæstv. fjmrh. muni koma, þá ætla ég aðeins að segja svolítið um málið almennt.

Það liggur fyrir, að í landinu eru starfandi þrír bankar, sem allir hafa að meira eða minna leyti með stofnfjárlán til atvinnulífsins í landinu að gera, og nýlega hafa verið sett lög um að stofna fjórða bankann, Iðnaðarbankann, svo að þá verða starfandi hér fjórir bankar, sem allir eiga samkv. starfsreglum sínum að láta sig að verulegu leyti skipta stofnfjárlán til atvinnuveganna. Auk þessara banka eru svo, eins og okkur er kunnugt, fjöldamargir sjóðir starfandi, sumir allöflugir, sem er ætlað það sérstaka hlutverk að annast lánveitingar sem stofnlán til hinna ýmsu atvinnugreina. Þannig er t.d. ástatt með stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem starfar við Landsbanka Íslands, allöfluga deild, sem lagðar voru á sínum tíma 100 millj. kr. til og var ætlað það hlutverk að veita stofnlán til nokkuð langs tíma til sjávarútvegsins. Sama er að segja um fiskveiðasjóðinn, sem starfar við Útvegsbankann. Honum er ætlað þetta hlutverk. Þá þekkjum við sjóðina við Búnaðarbankann, bæði ræktunarsjóð og byggingarsjóð. Og það má einnig nefna sjóð eins og byggingarsjóð verkamanna, sem lánar mjög löng lán til þar til greindra framkvæmda, svo að eitthvað talsvert sýnist nú vera til af bæði sjóðum og bönkum í landinu, sem raunverulega er ætlað þetta hlutverk.

En þá hefði ég gjarnan viljað mega spyrja hæstv. ráðh. um það, að hvaða leyti eða hvernig sé hugsuð verkaskipting í rauninni á milli þessara aðila, milli þessara fjögurra annarra banka, sem hér verða starfandi í landinu, þeirra þriggja, sem nú eru, og þess eina, sem ákveðið hefur nú verið að stofna, Iðnaðarbankans, og svo þessara sjóða allra, sem ég minntist á og samkv. sérstökum lögum er ætlað þetta hlutverk, hvernig sé ætlað að haga verkaskiptingu á milli þessara aðila og hins nýja Framkvæmdabanka. Er Framkvæmdabankanum ætlað að yfirtaka eitthvað verulegt af verkefnum þessara aðila og taka að sér þá stofnlán t.d. í sambandi við sjávarútveginn eða í sambandi við landbúnað? Eða eru þessum nýja Framkvæmdabanka ætluð enn önnur hlutverk í sambandi við stofnlán, og hvaða málefni eru það þá alveg sérstaklega, sem eiga að flokkast undir hans verksvið? Eða er það jafnvel hugsanlegt, að þessi nýi Framkvæmdabanki eigi ásamt hinum sjóðunum eða bönkunum að lána til sömu framkvæmdanna?

Ég segi fyrir mig, að ég óttast það að nokkru, að með því að stofnaður yrði nýr banki, sem er ætlað þetta almenna hlutverk, að hafa með lán að gera til fjárfestingar eða til meiri háttar atvinnuframkvæmda, þá kunni ýmsir aðrir sjóðir, sem þetta hlutverk hafa nú, og bankarnir, sem þetta hlutverk hafa nú, að draga sig út úr og það geti orðið nokkuð vafasamt í framkvæmdinni, hversu gott atvinnulífið hefur í rauninni af þessu.

Þá hlýtur í rauninni að vakna sú spurning, sem snýr sérstaklega að mótvirðissjóðnum. Það er kunnugt, að Alþ. er þegar búið að gera þá ráðstöfun, að helmingur af fé mótvirðissjóðs, þegar þetta fé er komið inn aftur, á að renna til landbúnaðarins og hinn helmingurinn á að fara í lán til kaupstaða og kauptúna. Var ekki í rauninni alltaf hugsunin, að þessi helmingur t.d., sem átti að renna til landbúnaðarins, yrði í rauninni afhentur þeim stofnlánasjóðum, sem landbúnaðurinn nú á? Var ekki meiningin, að þetta fé rynni hreinlega t.d. til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, sem í Búnaðarbankanum eru, og þessir sjóðir héldu áfram með eðlileg stofnlán til landbúnaðarins? Og ef svo hefur verið, eins og ég hafði álitið, og ég hygg, að margir fleiri hafi litið þannig á, að þetta hafi í rauninni vakað fyrir Alþ., til hvers þá að vera að ákveða það, að þetta fé skuli renna í enn nýjan banka og vera hans eign og hann skuli eiga að lána þetta út? Eða á þessi nýi Framkvæmdabanki einnig að fara að veita stofnlán til landbúnaðarins samhliða þessum tveim sjóðum, sem starfandi eru í Búnaðarbankanum? Ég hef ekki áttað mig á þessu. Ég verð líka að segja það, að ég hafði litið svo á þessa samþykkt Alþ., sem ákvað svo, að helmingur mótvirðissjóðs skyldi á sínum tíma ganga til lánveitinga til kaupstaða og kauptúna, að ætlunin væri, að það yrði verksvið Alþ. að ákveða nánar um þessar lánveitingar, en að það ætti ekki að taka þessa miklu fjárfúlgu út með einni samþykkt hér frá Alþ., afhenda upphæðina þessum Framkvæmdabanka og hann hefði síðan að öllu leyti með ráðstöfun fjárins að gera og Alþ. gæti ekki komið þar neinum orðum að. Það er anzi fróðlegt að fá að vita það, hvort þetta hefur verið hugsað á þessa leið.

Þá er hitt atriðið líka, sem ég tel mjög mikils virði og ég vildi eindregið óska eftir, að hæstv. fjmrh. svaraði hér, því að það væri, af því að það hefur dregizt hér nokkuð inn í umr., mjög fróðlegt að fá úr því skorið. Hvernig er því varið með mótvirðissjóð, sem nú hefur verið raunverulega lánaður allur, eða verið ákveðið af Alþ., hvernig skuli varið öllum saman, og í rauninni búið að ákveða það í stórum dráttum, hvernig skuli endurverja þessum mótvirðissjóði, þegar hann er kominn inn í annað sinn? Ber að skilja það svo, að erlend íhlutun nái einnig til ráðstöfunar á þessu fé í hið síðara skiptið, eftir að það hefur komið inn eftir fyrstu lánveitingu og þegar á að fara að lána það út í annað sinn? Ræður þá óskorað vald Íslendinga sjálfra og þá bankaráð þessa Framkvæmdabanka, ef hann fær þetta til ráðstöfunar, yfir þessu fé, eða þarf að leita eftir samþykki erlendra aðila til þess að ráðstafa því enn á ný? Ég vil eindregið óska eftir því, að hæstv. ráðh. gefi skýlaus svör við þessu, því að það skiptir vitanlega alveg höfuðmáli í sambandi við ráðstöfun á þessari miklu fjárfúlgu, mótvirðissjóði, hvort erlendir aðilar eiga að hafa þar íhlutun um ráðstöfun á því fé um alla framtíð.

Þá er hér enn atriði, sem komið hefur fram í þessum umr. og ég hefði gjarnan viljað gera hér fyrirspurn út af, en það er það atriðið, þar sem gert er ráð fyrir í frv., að Framkvæmdabankinn geti tekið lán erlendis með ríkisábyrgð, allt að 80 millj. kr., án þess að samþykki Alþ. þurfi að koma þar til. Eins og hér hefur verið bent á, þá brýtur þetta algerlega í bága við þær reglur, sem gilt hafa. Og mér er aðeins spurn, hvernig stendur á því, að fram á þetta er farið. Hvað er það, sem rekur á eftir því, að það þarf að setja slíka heimild í lögin um Framkvæmdabankann, að það sé leyfilegt að taka lán á ábyrgð ríkissjóðs, allt að 80 millj. kr., án þess að samþykki Alþ. komi til? Hvað er það, sem gerir þetta aðkallandi? Af hverju má ekki viðhafa hina gömlu reglu og leita til Alþ. eftir staðfestingu á slíkri lántöku? Mér finnst ekki nema eðlilegt, að þm. fái upplýst, þegar leitað er eftir slíku samþykki einu sinni fyrir allt, hvað það er, sem gerir það aðkallandi, að bankinn hafi heimild til þess að taka allt að 80 millj. kr. að láni með ríkisábyrgð, án þess að samþykki Alþ. komi til, hvað það er, sem raunverulega geri þetta aðkallandi.

Þá sýnist mér líka, að samkv. frv. geti bankinn raunverulega tekið t.d. allt að 80 millj. kr. lán með ábyrgð ríkissjóðs og hann hafi síðan heimild til þess að lána þetta einstaklingum eða fyrirtækjum hér innanlands með þeim kjörum, sem bankinn ákveður. Og á þann hátt hefur þessi banki fengið það vald, að hann raunverulega getur veitt einstaklingum eða fyrirtækjum hér í landinu erlend lán, án þess að samþykki Alþ. þurfi að koma þar sérstaklega til: Þetta sýnist mér svo mikið vald og ná svo langt út yfir þann ramma, sem hingað til hefur verið settur, að það er ekki nema eðlilegt, að þm. spyrji um, hvaða nauður rekur til þessa. Hvers vegna þarf að hafa þetta ákvæði í frv., sem gefur bankanum svona riflegt vald? Af hverju má ekki fara hina gömlu leið og leita eftir samþykki Alþ. fyrir slíkum erlendum lántökum?

Ég vildi nú fyrir mitt leyti óska eftir því, að hæstv. ráðh. svaraði þessum spurningum mínum, og gæti þá verið, að málið upplýstist nokkru frekar. En ég vil svo að lokum segja það, að ég sé ekki, að neitt af því, sem talið er heyra undir verkefni þessa banka, sé ekki annaðhvort beinlínis verkefni þeirra banka, sem nú starfa í landinu, eða mjög auðvelt fyrir þá að framkvæma allt það, sem virðist vera til einhvers gagns í sambandi við þetta frv.

Hér kom fram í upphafi þessa máls frá hæstv. fjmrh. t.d., að öflun á innlendu fjármagni til lengri tíma samrýmist illa starfsemi þeirra banka, sem hér starfa nú. Ekki get ég nú séð það á neinn hátt. Við þekkjum dæmi þess, að einstakar deildir við bankana hafa áður þurft að leita til almennings í landinu eftir fjármagni, og ég sé ekki, að það hafi komið fram í sambandi við það neitt, sem bendir sérstaklega á það, að þeir geti ekki haft allt það lið í sinni þjónustu, sem til þess þarf að reka það vel og með góðum árangri, alveg eins og nýr banki mundi geta, að leita eftir því sem sagt, að Íslendingar legðu sjálfir fram aukið fé, ef það er til, til þess að setja í hinar nýju framkvæmdir.

Ég skal svo ekki að þessu sinni orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að hæstv. fjmrh. svari þessum spurningum, sem ég hef beint hér til hans.