22.01.1953
Neðri deild: 55. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. kom með nokkrum orðum inn á nokkuð af ádeilu minni í sambandi við þetta lagafrv., og skal ég nú fyrst taka það fyrir, sem hann minntist á.

Hann sagði, að það væri ekki sérstaklega meiningin að semja við einkaaðila í sambandi við lánveitingar, sem ætti að framkvæma af bankanum eftir þessum lögum, það væri jafnt meiningin að eiga þar við opinberar stofnanir og ekki breyta til með það, sem nú væri. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh. Þetta frv. hefur líklega að einhverju leyti verið búið til á ensku upphaflega. Það er enskur maður eða amerískur, sem kemur með þetta. Ákaflega þætti mér gaman að sjá orðið, sem þeir hafa notað yfir „einkaaðila“, þegar það hefur verið þýtt á íslenzku, hvað það væri, sem átt væri við með því. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. gerir það fyrir mig að lofa mér að sjá hinn upprunalega texta þessara laga, þ.e. hinn enska texta. Ég sé það á öllum lögunum, að þau hafa ekki verið hugsuð og samin eins og venjulegt hefur verið, þegar bankalög hafa verið samin á Íslandi. Ef hæstv. ráðh. lítur í lögin um Landsbankann, þá er byrjað þar að taka fram fyrst, hvað bankinn heitir, síðan hvað hann heiti á Norðurlandamálum, því næst hvað hann heiti á ensku. Hér er fyrst og fremst sagt, hvað bankinn heitir á íslenzku, — það er enn þá ekki komið það langt, að því sé sleppt, — því næst er tekið fram, hvað hann heitir á ensku. Það þarf ekki að vera að taka fram, hvað hann heitir á norrænum málum. Það er ekki gengið út frá því, að fjárfestingarbanki á Íslandi þurfi að hafa sérstök sambönd við Norðurlönd úr þessu. Ég tek það svona sem smádæmi, sem vísar ofur litið í áttina. En „einkaaðilar“ er orð, sem fer nú dálítið skrýtilega í íslenzku máli, en hæstv. ríkisstj. hefur notað, þegar hún þýddi fyrirmælin, sem hún fékk, á íslenzku. Þar með mun tvímælalaust af hálfu hinna amerísku yfirboðara vera átt við að semja við þá aðila, sem hafa yfir einkaauðmagninu að ráða, en ekki við þá aðila, sem eru fyrst og fremst opinber fyrirtæki, ríkis, bæja og önnur slík, eða hálfopinber, eins og samvinnufélög eða þess háttar. Ég fer þá mikið villur vegar, ef þetta er ekki rétt skilið hjá mér. — Svo þarf raunar ekki vitnanna við. Hvað er það, sem verið er að gera með áburðarverksmiðjuna? Er verið að koma henni í hendur einkaaðila svo kallaðra, eða er ekki verið að því?

Hæstv. ráðh. minntist hér á með ákaflega miklum ólíkindalátum, að þetta væri alveg hreint undarlegt, að nokkrum manni skyldi detta það í hug, að það væri meiningin að selja hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, sem ríkið nú ætti. Á ég að segja hæstv. ráðh., hvaða manni hefur dottið þetta í hug? Það er manninum, sem á að vera bankastjóri bankans og hefur viðurkennt það fyrir fjhn. Ed., að hann hugsi sér að selja þessi bréf. Og það er staðfest og haft eftir honum og stendur skrifað hér í þingskjölunum. Vill hæstv. ráðh. lýsa því yfir, að Benjamín Eiríksson sé ómerkur að því, sem hann hefur lýst yfir við fjhn. Ed.? Vill hæstv. fjmrh. lýsa því yfir, að Benjamín Eiríksson eigi ekki að verða bankastjóri þessa banka? Ég ætla að segja hæstv. fjmrh. það, að hann kemur ekki til með að hafa neitt sérstakt að segja í þessum banka og yfir honum og yfir því, hvað hann gerir, eftir að leynilegur fulltrúi fyrir amerískan stórbanka er orðinn bankastjóri yfir þessum banka. Ég efast um, að það verði sérstaklega mikið að því spurt, hvað hann geri í þessum efnum. Það fyrsta, sem menn spyrja, er þetta: Til hvers er verið að afhenda þessum banka hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni sem stofnfé, ef ekki er meiningin að selja þau? Enda er auðséð, að formaður bankamálanefndar, sá maður, sem annast milligönguna milli ríkisstj. hér heima og Alþjóðabankans erlendis, hann lýsir því yfir alveg ótvírætt, að það á að selja hlutabréfin og það á að selja þau án verulegs hagnaðar. Til hvers? Til þess að styðja að eflingu einkaauðvalds í landinu. Það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar fyrir hæstv. fjmrh. að stinga hausnum í sandinn viðvíkjandi þessu eða vera með einhver ólíkindalæti við okkur þingmennina. Hann gefur þessa yfirlýsingu hér áðan. Hann er rétt eins og þegar hann kom heim frá Washington, áður en samningurinn var gerður um Atlantshafsbandalagið, og hélt fram, að aldrei kæmi til neinna mála, að farið yrði fram á það við Íslendinga, að það yrðu herstöðvar hérna. Svo leið rúmt ár, og þá var bara hernámið sjálfsagt. Maður tekur ekki neitt mark á yfirlýsingum þessa hæstv. ráðh. Hann er búinn að sanna það áður, og það þýðir ekkert að vera með þessi ólíkindalæti núna. Ef hæstv. ríkisstj. ekki gengur inn á þá till. að fella þetta burt um hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni, þá ætlar hún seinna meir að láta framkvæma þessa sölu, leyfa það. Það er ekki til neins að koma með svona blekkingar hér gagnvart okkur hvað eftir annað. Við vitum ósköp vel, að þið eruð ekki einu sinni sjálfráðir gerða ykkar um þetta. Hver var annars meiningin með þessu? Var bara meiningin sú, að Benjamín Eiríksson ætti að fara með umboð fyrir 6 millj. kr. á hluthafafundum í Áburðarverksmiðjunni h/f? Var það bara meiningin? Var meiningin að afhenda hlutabréfin til Framkvæmdabankans til þess, að bankastjórinn færi einn með umboðið? Og má ég spyrja meira að segja hæstv. ríkisstj.: Hvað hefur hún hugsað sér í því sambandi? Hefur hún hugsað sér það, þegar bankastjóri Framkvæmdabankans færi einn með umboð fyrir hlutafé upp á 6 millj. kr. á hluthafafundum í áburðarverksmiðjunni, að stjórn áburðarverksmiðjunnar yrði kosin á slíkum hluthafafundi og breytt út frá þeim lögum, sem nú eru um, hvernig eigi að kjósa hana? Það fer að verða hálfeinkennilegt, hvernig Alþ. eigi að kjósa lengur, ef Alþ. hefur ekki einu sinni sem eigandi í sínum höndum, í höndum ríkissjóðs, hluthafabréfin í áburðarverksmiðjunni. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. hefur hugsað nokkuð út í það. En í öllu falli virðist augljóst, að meðan bankastjórinn er ekki búinn að selja bréfin, þá er það hann, sem ræður á hluthafafundunum, og þá er þannig verið að afhenda til hans þetta vald, sem Alþ. hefur nú þótzt vilja vera að reyna að halda í sínum höndum fram að þessu. Ég held, að það dugi engin ólíkindalæti með þetta. Það er tilgangurinn, yfirlýstur af manni, sem fyrst og fremst hefur samið frv., að koma þessum bréfum í hendurnar á einkaauðnum og hefur verið tilgangur í skollaleiknum frá upphafi.

Svo kom hæstv. fjmrh. með það, að það væri nú undarlegt, hvernig í ósköpunum nokkrum manni gæti dottið annað eins í hug eins og að það væri verið að fela jafnvel Ameríkumönnum að stjórna þessu, það væri nú aldeilis úr lausu lofti gripið. Má ég lesa ofur lítið fyrir hæstv. ráðh. af því, sem stendur í grg., ef hann hefur ekki kynnt sér hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er ráð fyrir, að erlend lán yrðu einkum tekin til framkvæmda. Mundu þau þá vera í verkahring þessa banka og hann því taka þau. Þess má geta, að á síðustu árum hafa í náinni samvinnu við Alþjóðabankann risið upp bankar svipaðs eðlis í öðrum löndum. Ástæða þessarar samvinnu er meðal annars sú, að óhægt er fyrir stofnun eins og Alþjóðabankann að lána fé í framkvæmdir, sem á hans mælikvarða eru smávaxnar, eins og t.d. flestar framkvæmdir í landbúnaði. Kýs hann því heldur að lána slíkt fé fyrir milligöngu stofnunar, sem getur rækt það hlutverk, sem Alþjóðabankinn annars telur sig eiga að rækja gagnvart lántakanda. Er hér einkum átt við það, að Alþjóðabankinn setur nokkur skilyrði fyrir lánum sínum til tryggingar því, að þau komi að sem beztum notum þeirri þjóð, sem lánin tekur.“

M.ö.o., Alþjóðabankinn heimtar í öllum þeim löndum, sem ameríska auðmagnið undirokar, að það séu skapaðir sérstakir bankar, sem Alþjóðabankinn geti haft sérstaka samvinnu við og sett sérstök skilyrði, vegna þess að skilyrðin, sem Alþjóðabankinn setur fyrir því að ráða efnahagslífi þessara þjóða, samrýmast dálítið illa lögum um þá þjóðbanka, sem fyrir eru í löndunum. Það var ekki gengið út frá því, þegar lögin voru sett um þjóðbanka hér á Íslandi og annars staðar, að það yrði hleypt inn erlendu auðmagni til að hafa yfirráðin yfir efnahagslífinu. Lögin eru þess vegna sniðin við það, sem passar fyrir íslenzkt efnahagslíf, og miðuð við, að það haldist sjálfstætt. Þetta passar ekki í kramið hjá Alþjóðabankanum. Þess vegna passar ekki seðlabankinn eða Landsbanki Íslands í kramið. Þess vegna mótmælir Landsbankinn afgerandi atriðum í þessum lögum, af því að þau þýði afskipti og yfirráð erlends aðila yfir okkar fjármálum. Þess vegna gengur jafnvel samflokksmaður hæstv. fjmrh., Jón Árnason bankastjóri, sem ég veit að hæstv. ráðh. mun varla gruna um kommúnisma eða eitthvað slíkt ljótt, svo langt að tala um það, að það geti orðið nauðsyn að semja við Bandaríkjastjórn um að endurgreiða mótvirðissjóðinn, til þess að verða laus við afskipti hennar í eitt skipti fyrir öll. Og svo segir ráðherrann nú, hvernig þetta frv. er til orðið. Frv. er í meginatriðum í samræmi við till., sem samdar voru af erlendum sérfræðingum, og hafði bankamálan. það til hliðsjónar í starfi sínu. Samkv. ósk ríkisstj. sendi Alþjóðabankinn hingað til lands einn gjaldkera sinn. M.ö.o., þessi banki er skapaður samkv. fyrirmælum Bandaríkjamanna, samkv. fyrirmælum Alþjóðabankans, til þess að Alþjóðabankinn hafi þægilegri aðstöðu viðvíkjandi þeim skilyrðum, sem hann kemur til með að setja fyrir sínum lánum, heldur en hann hefði, svo framarlega sem hann ætti að eiga við sjálfan þjóðbanka Íslands.

Ég skal upplýsa hæstv. ráðh. um það, að þið ráðið ekki einu sinni svo miklu sem hver verður bankastjóri fyrir þessum banka. Þið eruð fyrir fram búnir að ganga inn á, að maður, sem er fulltrúi Alþjóðabankans, verði bankastjóri þar. Og það verður áreiðanlega eitt af þeim skilyrðum, sem þeim mönnum verða sett, sem munu verða kosnir í stjórn, að þeir kjósi þennan mann, einmitt manninn, sem hefur lýst því yfir, að hann muni selja hlutabréf áburðarverksmiðjunnar, og auðvitað er það traustsyfirlýsing og viljayfirlýsing um, að svo skuli gert, þegar hann verður kosinn í þetta. Og hæstv, fjmrh. veit það miklu betur en ég, að það verður síðan stjórnað í þeim banka í samræmi við það, sem þeir amerísku auðbankar segja, og að Landsbankinn er settur út úr spilinu, af því að hann þykir ekki nógu þægur. Það þykir óþægilegt að eiga við menn, sem hugsa oft eins og gamlir íslenzkir stórbændur gerðu á sínum tíma, menn eins og Jón Árnason. Þess vegna þykir gott að fá vikaliðugan sendisvein Ameríkananna eins og Benjamín Eiríksson fyrir bankastjóra í svona banka.

Svo kom hæstv. ráðh. með það, að það væri alger misskilningur hjá mér þetta með lánin erlendu, það væri nú svo sem enginn sérstakur kanall, sem verið væri að opna, engin sérstök göng fyrir erlent fjármagn, sem verið væri að opna, þetta stæði nú öllum til boða. Það verða að vísu nokkrir aðilar undanskildir. Með l. einmitt um Bretton Woods eru undanskildir íslenzkir bankar, sparisjóðir, bæjar- og sveitarfélög og allar opinberar stofnanir. Og svo sagði hæstv. ráðh.: „Hins vegar er öllum íslenzkum mönnum heimilt að taka lán erlendis.“ Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er það misminni hjá mér, að fyrir rúmu ári hafi verið gefin út reglugerð, sem bannar þetta? Ég veit, að þetta var leyfilegt til skamms tíma, og ég gerði hér í lok, ég held síðasta Alþ. eða næstsíðasta, ég man það nú ekki vel, fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. um, hvort þetta væri leyft. Hann svaraði því játandi. Og rétt á eftir var gefin út auglýsing af ríkisstj., sem bannaði lántökur erlendis. Nú hef ég ekki haft tíma á eftir ræðu hæstv. ráðh. til að athuga Stjórnartíðindin, og ég þori sem sagt ekki fyllilega að treysta á mitt minni í þessu, það getur skolazt. En eitthvað rámar mig í þetta, og ef þetta skyldi nú ekki vera rangt hjá mér, þá vil ég mega lita á yfirlýsingu ráðherra sem yfirlýsingu um það, að þessi reglugerð sé úr gildi numin. Orð ráðherra standa sem skuldbindandi, þegar þau eru töluð, og ég tek þá þessi orð hans þannig, að öllum einstökum Íslendingum og einstökum hlutafélögum sé héðan í frá leyfilegt að taka lán erlendis. Ef þetta er ekki rétt hjá mér, þá vona ég, að hæstv. ráðh. leiðrétti það. En það er þá aðeins frá þessari stundu, sem þetta gildir, fyrir orð hæstv. fjmrh. nú, sem ég vil fyllilega taka gild. Þá þykir mér út af fyrir sig vænt um að hafa stuðlað að því að hafa opnað þennan möguleika. En það dregur ekki úr hinu, að meiningin er að veita í stórum stíl fjármagni inn í landið í gegnum þennan banka í alveg sérstökum. tilgangi. Landsbanki Íslands, aðalþjóðbankinn, stendur ekki í neinu sérstöku sambandi við erlenda banka, er ekki skapaður samkvæmt óskum neinna erlendra banka, nýtur ekki sérstakrar fyrirgreiðslu neinna sérstakra erlendra banka. En hér er banki, Framkvæmdabankinn, sem á að skapa samkv. sérstakri ósk eins erlends banka, til þess að viðkomandi erlendur banki láti allar sínar ráðstafanir til fjármagnsfestingar á Íslandi ganga í gegnum hann. Það er munurinn, þannig að þarna er ekkert dregið úr því með því, sem hæstv. ráðh. segir, sem ég hef áður sagt. Hins vegar er það ljóst, að sjálfur er þessi banki skapaður til þess að veita amerísku auðmagni hér inn í landið, og ef hæstv. ráðh. flettir upp í Marshallsamningnum, 5. kafla, þá sér hann þar ákvæðin um öflun efnivara frá Ameríku, að ameríska ríkisstj. áskilur sér það sérstaklega, að íslenzka ríkisstj. ryðji úr vegi öllum hindrunum fyrir því, að amerískt kapítal geti komizt að með framleiðslu á þeim hlutum hér heima, svo sem aluminium, sem þeir álíta að þeir þurfi á að halda fyrir sig. Og það er vitanlegt, að nú sem stendur reynir ameríska auðvaldið einmitt í krafti Marshallsamningsins að skapa sér þá aðstöðu um víða veröld að ná tökum á framleiðslu og auðlindum landa, sem eru að verða háð ameríska auðvaldinu, til þess að framleiða þar ódýrara, en hægt er í Ameríku þær vörur, sem Ameríku vantar. Það er vitað, að laun verkamanna t.d. í Suður-Ameríku eða á Íslandi eru frá því fimmti parturinn upp í helmingurinn af launum amerísks verkamanns. Það borgar sig þess vegna miklu betur fyrir amerískt auðvald að framleiða á stöðum eins og Íslandi, Suður-Ameríku eða slíkum þá hluti, sem er dýrara fyrir þá að framleiða í Bandaríkjunum. Þess vegna leitast þeir eftir að fá tök á löndum eins og okkar, fyrirskipa okkur að lækka hér lífskjörin og lækka launin, eins og þeir gerðu þegar með gengislækkunarákvörðununum, til þess að vinnuaflið íslenzka verði nógu ódýrt, til þess að amerískt auðvald geti grætt því meira á því, og hér eiga svo íslenzkir verkamenn að þræla fyrir helminginn eða 2/5 af þeim launum, sem amerískir verkamenn hafa. Þannig er verið með ráðstöfunum hæstv. ríkisstj. að gera íslenzka verkamenn að nýlenduþrælum á ný, og með þessum l. er verið að opna möguleikana fyrir ameríska auðvaldið til þess að geta rænt okkar auðlindir og notað þær fyrir sig.

Svo kom hæstv. ráðh. inn á, að þessi banki ætti bara að lána til opinberra aðila eins og banka og annarra slíkra. Þetta er alger misskilningur. Annaðhvort þekkir ekki fjmrh. lögin, sem hann er að mæla fyrir, eða þá að hann er visvitandi að segja þingheimi rangt. Ég skal lesa fyrir hann fyrirmæli 7. gr. laganna um, hvernig bankinn leysi sitt hlutverk af hendi. Þar stendur í 2. lið, með leyfi hæstv. forseta: „Að veita lán til langs tíma með því að kaupa ný skuldabréf fyrirtækja, sem gagnleg eru þjóðarbúskapnum og að dómi bankastjórnarinnar nægilega arðbær til þess að geta greitt af rekstrartekjum vexti og afborganir af skuldum sínum. Enn fremur að veita stofnlánadeildum annarra peningastofnana lán á sama hátt.“ M.ö.o., fyrst og fremst á að kaupa skuldabréf fyrirtækja, sem verið er að setja á stofn. Hvað þýðir að kaupa skuldabréf fyrirtækja? Það þýðir það sama sem að lána þeim peninga. M.ö.o., ef hér ætlar einhver maður að koma af stað stóru fyrirtæki með 10–20 millj. kr. kapítali og hann gefur út skuldabréf fyrir þessu upp á 10–20–30 millj., þá getur þessi banki keypt slík skuldabréf, og þetta er hans verkefni. Þetta þýðir, að hann á að lána einkafyrirtækjum. Ef hæstv. fjmrh. heldur, að þessi banki elgi ekki að lána einkafyrirtækjum, þá hefur hæstv. fjmrh. ekki hugmynd um, hvað í frv. stendur. Næst á eftir þessu kemur svo, að það eigi að veita stofnlánadeildum annarra peningastofnana lán á sama hátt. Jú, stofnlánadeild sjávarútvegsins eða einhver stofnlánadeild við Búnaðarbankann eiga að fá að draslast þarna á eftir, þegar arðbærari lán hafa verið veitt. Við skulum segja, að ef það þykir frekar óarðbært að lána íslenzka landbúnaðinum, þá koma stofnlánadeildir Búnaðarbankans fyrst í annarri röð, þegar búið er að kaupa skuldabréf fyrirtækja, sem að álíti bankastjórnarinnar eru nægilega arðbær. Það er verið að setja íslenzka bændur á þann stað, sem amerískt auðvald hugsar þeim að vera. Það er verið að veita einkaréttindin til þess auðvalds úr Reykjavík, sem Benjamín Eiríksson og ameríska auðvaldið álitur að eigi nægilega arðbær fyrirtæki, og það er bezt fyrir Framsfl. að taka eftir því. Ef hæstv. ráðh. hefur yfirsézt um þetta, þá er hægt að breyta þessu enn þá. Ef honum hefur ekki yfirsézt þar, þá verður að segja honum það. — Svo kemur 3. gr. Hvað stendur þar? „Að kaupa ný hlutabréf í fyrirtækjum, sem gagnleg eru þjóðarbúskapnum og arðvænleg að dómi bankastjórnarinnar.“ Kaupa hlutabréf í fyrirtækjum. Er hæstv. fjmrh. ekki ljóst, hvað það þýðir að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum, sem Landsbankanum er bannað fram að þessu? Það þýðir það að styðja að einstökum fyrirtækjum í landinu og lána þeim á þann hátt fé til rekstrar. Það er alveg gefið, að þessi banki getur farið út í það að lána eða styðja til framkvæmda hvaða fyrirtæki á Íslandi sem hann vill, hvaða aðila sem hann vill. Ef hæstv. fjmrh. ekki skilur þetta, þá er það ekki vegna þess, að hann hafi ekki gáfur til þess, heldur vegna þess, að það er búið að loka augum hans fyrir þessu eða segja honum að loka augum annarra fyrir því. Svo kemur í 8. þættinum í 7. gr.: „Að hafa samvinnu við einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir, og veita þeim fyrirgreiðslu.“ Það þýðir því ekkert að segja okkur hérna, að þessi banki eigi ekki að hafa bein sambönd við fyrirtæki, sem nú eru til eða stofnuð verða. Það þýðir ekkert að segja okkur það, að hann eigi bara að hafa samband við banka og aðrar slíkar stofnanir. Hann á að lána beint út. Það er bara sá munurinn, að það er einn einasti bankastjóri þar. Það er engrar undankomu auðið, þegar búið er að setja þennan banka á, ef það á að stofna ný fyrirtæki. Öllum hinum bönkunum verður bannað að lána til slíkra stofnana, og það er engrar undankomu auðið hvað það snertir, að það sé hægt að tala við tvo menn og annar bankastjórinn sé sæmilegur viðureignar, en hinn lakarl. Nei, það er einn einasti maður, sem á að hafa þetta. Og hæstv. fjmrh. kýs hér að fara með bein ósannindi frammi fyrir þm., í stað þess að þora að upplýsa okkur um, hvað hann hyggst fyrir með þessu. — Þá er þar með hrakið það, sem hæstv. fjmrh. talaði hér um áðan.

Svo eru nokkrar spurningar í viðbót, sem ég vildi leggja fyrir hæstv. fjmrh. og gera það alveg skýrt, hvernig þær eru. Eftir 7. gr., 3. atriði, má bankinn kaupa hlutabréf í fyrirtækjum. Það er auðvitað gefið, að bankastjórinn á að fara með slík hlutabréf á fundum í þeim hlutafélögum. Við skulum segja, að það er myndað hér hlutafélag með 10 millj. kr. kapítali til rekstrar ákveðinni verksmiðju útgerðarinnar. Þessi banki kýs að kaupa fyrir 3, 4 eða 5 millj. kr. hlutabréf í þessu fyrirtæki, og hann kaupir svona í fleiri fyrirtækjum. Það er bankastjóri bankans, sem fer með þessi hlutabréf á aðalfundum. Ég vil leyfa mér að benda á, að ef banki hefur þá aðferð að kaupa hlutabréf, eins og hv. þm. vita, er Landsbankanum og öðrum bönkum bannað að eiga hlutabréf, — þá er sá bankastjóri, sem fer sjálfur með atkvæðisréttinn fyrir slík hlutabréf, ef hann gerir mikið að slíkum kaupum, og það er mjög líklegt, að hann kunni að gera það, á mjög skömmum tíma orðinn langsamlega voldugasti maðurinn í íslenzku fjármálalífi. Ég skal svo taka sem dæmi: Við skulum hugsa okkur, að t.d. auðhringur Du Ponts, þess mikla framleiðanda á kemískum vörum og öðru slíku í Bandaríkjunum, kjósi að láta sína banka lána þessum Framkvæmdabanka eitthvað af fé til þess að setja upp fyrirtæki hér á Íslandi til rekstrar á stórum kemískum verksmiðjum í krafti okkar fossaafls og að hann lánaði þetta fé í gegnum Framkvæmdabankann, og Framkvæmdabankinn ræður því, hvers konar hlutafélag er stofnað hérna, hvaða menn það eru, sem eru eigendur í því. Hann ræður því með því, að hann segir við suma þeirra: Ég kaupi af þér skuldabréf — því að hann má samkv. 7. gr., 2. tölul., kaupa ný skuldabréf í fyrirtækjum. Hann segir við aðra: Ég skal kaupa hlutabréfin þín til þess að gera þér greiða. M.ö.o., hann setur á stofn heil stórfyrirtæki hér á Íslandi með lánsfé frá erlendum auðhringum og á sjálfur svona og svona mikið þarna í og kontrollerar og lætur aðra menn, sem lána fé til þess, eiga hlutabréf að öðru leyti, þannig að þeir séu þæg verkfæri fyrir viðkomandi ameríska auðhringa, hvort það er aluminium, hvort það er áburður eða annað slíkt. Erlendir auðhringar hafa fengið í gegnum þennan banka ótakmarkaða möguleika til þess að gera það, sem þeim finnst arðvænlegt, hér á Íslandi, og fulltrúi Alþjóðabankans, sem verður bankastjóri þessa banka, er, ef hann kærir sig um, samkvæmt því valdi, sem honum er gefið með þessum lögum, á örskömmum tíma orðinn persónulega langsamlega voldugastí maðurinn í fjármálalífi Íslendinga.

Ég hef undirstrikað svo sérstaklega þetta atriði vegna þess, að það felur í sér gerbreytingu á allri þeirri stefnu, sem ríkt hefur í íslenzkum fjármálum fram að þessu. Viðvíkjandi öllum okkar efnahag, öllu okkar atvinnulífi og öllum eignarrétti í því, þá hefur einn hlutur einkennt alla íslenzka löggjöf allan fyrri hluta þessarar aldar. Það eru áhrif bændastéttarinnar á löggjöfina í þá átt að vera hrædd við útlent auðmagn og setja þess vegna þröngar skorður í allri okkar löggjöf við útlendu auðmagni og sömuleiðis jafnvel myndun nokkurs verulegs stórauðmagns hér á Íslandi, svo að það hefur varla getað vaxið upp. Þessi tortryggni íslenzkrar bændastéttar hefur alveg sérstaklega markað afstöðuna í löggjafarstarfinu gagnvart myndun stórauðvalds á Íslandi.

Með þessari löggjöf, sem hér liggur fyrir, er algerlega breytt um stefnu hvað þetta snertir.

Það er hér farið inn á, að erlent auðmagn getur komið hér inn eins mikið og vill. Það hefur sérstakan banka, sem er skapaður eftir þess fyrirmælum, sem það getur veitt sínu fjármagni í gegnum. Það hefur bankastjóra, sem vinnur samkvæmt þess fyrirmælum og getur ráðið yfir eins miklu og hann vill, ráðið, hvers konar hlutafélög eru mynduð, ráðið, hvað stofnað er af fyrirtækjum hér á Íslandi, ráðið, hvernig eignahlutföllin eru í þeim fyrirtækjum, hverjir það eru,sem eiga þar, og hvað bankinn og hvað þeir útlendu aðilar raunverulega eiga mikið í því. Og honum eru meira að segja gefin fyrirmæli um að hafa samstarf fyrst og fremst við einkaaðila, ekki einhverja opinbera aðila, í þessu efni, og hann skilur þetta á þann hátt, og hann lýsir því yfir við Alþ., að eitt af því fyrsta, sem hann muni gera og sjá um að verði gert, sé að selja ríkishlutabréfin í áburðarverksmiðjunni í hendur einstaklingum. M.ö.o., það á að skipuleggja byltingu fyrir einkaauðvaldið í íslenzku efnahagslífi með þessum banka, harðvítuga valdatöku fyrir það auðvald í Reykjavík, sem amerísku bankarnir hefðu mesta velþóknun á, þannig að þeir gætu ráðið allri þróun í íslenzku efnahagslífi framvegis. Þetta vil ég segja og láta koma greinilega fram, til þess að enginn þeirra þm., sem kemur til með að greiða atkv. með þessu frv., seinna komi fram fyrir þjóðina og fari að segja: Ég vissi ekki, hvað ég gerði.

Svo ætla ég að síðustu aðeins að gera athugasemd viðvíkjandi 8. gr. um framkvæmdir úr mótvirðissjóðnum. Eins og 8. gr. er orðuð, þá er hún sama vitleysan eins og samþ. var með þál. Og ef hv. þm. hafa áhuga fyrir að setja þau ákvæði hér inn í 8. gr., hvernig verja skuli endurgreiðslunum á lánunum, sem veitt voru úr mótvirðissjóði, þá þurfum við að breyta þessari grein. Eins og þessi grein er orðuð núna, þá þýðir hún það sama og þál. þýddi. Það er aðeins mótvirðissjóðurinn sjálfur, þ.e. núverandi mótvirðissjóður, það sem óeytt er úr honum, sem þetta snertir. Þetta snertir ekkert af því fé, sem kemur inn þegar Sogsvirkjunin, Laxárvirkjunin og áburðarverksmiðjan borga lánin til baka. Það vil ég, að hv. þm. sé ljóst. Við skulum segja, að ef það eru 400 millj. í mótvirðissjóðnum og það er búið að ráðstafa 350 af því til kannske áburðarverksmiðjunnar og raforkuveranna, þá eru kannske 50 eftir, en ég efast um, að það sé svo mikið, og þá eru það þessar 50 millj., sem þarna er verið að ráðstafa. Það eru engin fyrirmæli í þessari grein um, að það eigi að ráðstafa því fé, sem kemur inn þegar lánin eru borguð til ríkissjóðs, engin ákvæði um það í þessari 8. gr. Það að greiða lán Sogsvirkjunarinnar, Laxárvirkjunarinnar og áburðarverksmiðjunnar, — sú endurgreiðsla er ekki mótvirðissjóður, hún er allt annað, hún er greiðsla til ríkissjóðs. Það vil ég vona að sé alveg skýrt. Ef meiningin með þessu er að gefa fyrirmæli um það, að þeim 300–400 millj. kr., sem þessi fyrirtæki hafa fengið lánaðar, skuli varið, þegar þær eru endurgreiddar, til þessara framkvæmda, helmingnum til landbúnaðar, helmingnum til framkvæmda fyrir kaupstaði og kauptún, þá þarf að breyta orðalaginu á þessari 8. gr. Eins og hún er núna, nær hún aðeins til mótvirðissjóðsins. Það vil ég benda þeim hv. þm. á, sem hefðu sérstakan áhuga fyrir því. En það er kannske, eins og nú á að fara að tíðkast, að það þyki öruggast að hafa slíkt hrákasmíði á öllum lögum, sem frá Alþ. koma, að enginn maður viti helzt, hvað lög eru, þegar Alþ. er búið að afgreiða lög. Og það hefur hins vegar komið fram þing eftir þing, að þeir geta yfirlýsingar um, að lögin þýði allt annað en þau séu og að ein grein laganna, eins og 13. gr. í áburðarverksmiðjulögunum, sé rétthærri en allar hinar tólf, þannig að það þurfi svo að koma fram, eins og nú liggur hér fyrir, þáltill. um að fara að endurskoða lögin.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að þetta mál verði alvarlega endurskoðað í fjhn., þegar það fer til hennar, og fái þá athugun, sem á við um eins stórt mál og þetta er.