28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið til athugunar hjá fjhn. d. Meiri hl. n. hefur skilað áliti á þskj. 604. Er þar lagt til, að frv. verði samþ. með einni breytingu. Þessi brtt. n. er við 7. gr. frv., en sú grein er um hlutverk bankans. Eru þar talin upp í 10 tölul. þau verkefni, sem bankanum er ætlað að sinna, og meiri hl. fjhn. leggur til, að einum tölul. verði bætt við, svo hljóðandi: „Að greiða fyrir atvinnuframkvæmdum á þeim stöðum, er skortir framleiðslutæki, en hafa skilyrði til framleiðslu.“

Eins og segir í nál. meiri hl., þá voru nm. ósammála um afgreiðslu málsins. Hv. 2. þm. Reykv. lýsti því yfir, að hann væri á móti málinu og mundi skila sérstöku áliti, en nál. hans hefur enn ekki verið útbýtt hér í d. Annar nm., hv. 8. landsk. þm. (StJSt), hefur skilað minnihlutaáliti á þskj. 615, og flytur hann þar tvær brtt. við frv. Þessar till. frá hv. 8. landsk. þm. voru ekki til athugunar í fjhn., vegna þess að hann var ekki mættur á fundi hjá n., þegar frv. var afgreitt. Ég átti hins vegar tal við hann, eftir að n. hafði afgreitt frv., til að vita um afstöðu hans til málsins, og lét hann þess þá getið, að hann mundi skila séráliti.

Nú höfum við, sem stöndum að meirihlutaálitinu á þskj. 604, athugað þessar brtt. frá hv. 8. landsk., og getum við fallizt á fyrri brtt. hans við 3. gr., en sú till. er um það að fella niður úr greininni það ákvæði, að bankinn skuli fá hlutabréf í Áburðarverksmiðjunni h/f. Þegar frv. var upphaflega lagt fyrir í hv. Ed., var gert ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn fengi einnig hlutabréf ríkisins í Eimskipafélagi Íslands og raftækjaverksmiðjunni, en það var fellt úr frv. í Ed. Við litum svo á, að það muni skipta mjög litlu máli, hvort hlutabréfin í áburðarverksmiðjunni verða áfram í eign ríkissjóðs eða afhent Framkvæmdabankanum, sem er ríkiseign, og því getum við vel fallizt á þessa brtt. Hins vegar gegnir öðru máli um aðra brtt. frá minni hl. fjhn. á þskj. 615, sem er um það að fella niður 8. gr. frv. Meiri hl. fjhn. getur ekki á hana fallizt og leggur til, að sú brtt. verði felld.

Ég sé ekki ástæðu til, nema tilefni gefist, að fara fleiri orðum um þetta mál.