28.01.1953
Neðri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls sagði ég nokkur orð, sem eru í samræmi við það sérnál., sem ég hef nú gefið út á þskj. 615. Fyrir þær sakir get ég verið mjög fáorður við þessa umr. málsins, en vísa einnig til þeirra fáu orða, sem standa í sjálfu nál., svo og ræðu minnar við 1. umr. málsins. Þar að auki hefur hv. frsm. meiri hl. n. lýst yfir því fyrir hönd meiri hl., að hann geti fallizt á fyrri brtt. mína, sem er á þskj. 615, og sé ég því ekki ástæðu til þess að ræða það atriði frekar.

Um síðari brtt., varðandi niðurfellingu 8. gr., vil ég segja það eitt til viðbótar því, sem ég hef áður um það sagt, að ég hefði frekast kosið það, að ekki hefði verið slegið föstu, eins og gert er í þessari grein, skiptingu jafnvirðissjóðsins, og teldi, að það þyrfti að athuga það mál nánar. Fyrir þær sakir legg ég til, að 8. gr. falli niður.

Þó að ég sem sagt hefði talið það langæskilegast, að frv. um Framkvæmdabanka Íslands, ef fram hefði komið, hefði verið einn þáttur í allsherjar bankamálalöggjöf, sem væntanlega kemur þegar mþn. hefur lokið störfum sínum, þá sé ég samt ekki ástæðu til þess að leggjast gegn þessu frv., og þá enn þá síður þegar liggur fyrir yfirlýsing meiri hl. allshn. um, að hún geti mælt með fyrri brtt. minni.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta mál frekar, að minnsta kosti ekki að sinni.