29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég var í gær í ræðu minni kominn að 10. gr., og ég vildi leyfa mér í sambandi við hana að vekja eftirtekt hv. alþm. á því, að í þeirri grein er brotið algerlega í bága við öll þau prinsip, sem hingað til hafa gilt viðvíkjandi útlánum á Íslandi.

Þegar gengislækkunarl. voru samþ., þá var ákveðið í sérstökum l., í 8. gr. þeirra l., svo hljóðandi:

„Nú skuldar lántakandi ákveðna upphæð í íslenzkum krónum vegna kaupa á fasteign eða af öðrum ástæðum, og skal honum þá þrátt fyrir gengisbreytinguna eigi skylt að greiða skuldina með hærri upphæð, en skuldabréf tilskilur, jafnvel þótt þar sé ákveðið, að skuldin sé háð skráðu gengi erlends gjaldeyris.“

Nú er hins vegar í 10. gr. ákveðið, að ef Framkvæmdabankinn láni út fé, þá skuli hann geta samið þannig við lántakendur, að þeir beri hallann eða njóti hagnaðarins, sem kann að verða vegna gengisbreytinga. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, hvað þetta þýðir. Þetta þýðir það að koma á tvenns konar peningakerfi í landinu. Ef hægt er að fara að lána út íslenzka peninga með skuldbindingu gagnvart lántakanda um það, að hann verði að greiða þessa skuld til baka eftir gengi erlends gjaldeyris, þá er þar með verið að skapa annað gildi og annað mat á öllum þeim skuldum og þar með á allri þeirri fjárupphæð, sem skulduð er til þessa banka, heldur en á öllu því, sem aðrir bankar lána út. Og ég veit satt að segja ekki, hvernig menn hugsa sér þetta peningakerfi framkvæmt, og mér þætti sérstaklega vænt um, af því að við eigum nú hér einn fulltrúa í hv. bankamálan., hv. 3. landsk. þm., — þá þætti mér ákaflega vænt um að fá að heyra skýringu frá mönnum, sem telja sig hagfræðinga, á því, hvernig þeir ætli að koma þessu atriði fyrir, að láta tvenns konar lán vera í gangi hér hjá þjóðinni, önnur lánin séu þannig, að það skuli greiða þau í íslenzkum krónum, eftir því, hvernig íslenzk króna standi á þessu og þessu ári í hlutfalli við dollar, en að önnur lán skuli aftur á móti greidd með tilliti til þess, hvernig þau voru upphaflega tekin. Hingað til hefur Alþ. séð ástæðu til þess að banna svona lánsaðferðir. Þó að t.d. einhver sparisjóður hafi lánað út fé til húsbygginga með þeim skilyrðum, að það yrði greitt til baka í hlutfalli við gengi sterlingspunds, þá hefur Alþ. með gengislækkunarl. bannað að láta svona skuldbindingar koma til framkvæmda. Hér aftur á móti er lagt til með 10. gr., að þessi banki, Framkvæmdabankinn einn, skuli geta lánað upp á þessi býti. Og nú ætla ég bara að spyrja hv. þm.: Hvernig hugsa þeir sér, að aðrir bankar starfi þá, svo framarlega sem einn bankinn getur lánað út upp á svona máta? Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa tekið eftir, hvað þessi 10. gr. þýðir, hvort þeir hugsa nokkurn skapaðan hlut út í það. En þetta þýðir bara að innleiða tvö peningakerfi í landinu.

Og þá vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvaða aðilar eru það, sem eru í þeirri aðstöðu að geta lánað upp á þessa skilmála?

Ef Framkvæmdabankinn ætti að vinna með íslenzku fé, þá væri það nú dálítið undarlegur hlutur, að sumt af lánum hans, það sem hann væri með í íslenzku fé, ætti hann að lána út upp á þá skilmála, að það ætti að borgast aftur án tillits til þess, hvernig gengið stendur. Annað aftur á móti, sem hann lánar út af sínum peningum, á hann að lána út með tilliti til þess, hvernig íslenzk króna er skráð gagnvart dollar.

Nú ætla ég bara að biðja menn að athuga, svo að maður taki dæmið einfalt. Við skulum hugsa okkur: Framkvæmdabankinn hefur fengið í alls konar íslenzku fé 100 millj. kr. og hefur það í sinni vernd. Hann hefur fengið 100 millj. kr. að láni erlendis, við skulum segja í Ameríku. Hann hefur þannig, við skulum segja, 200 millj. kr., sem hann hefur í höfuðstól til þess að lána út. Svo setur hann það sem skilmála með sumum af lánunum, sem hann veitir: Þessi lán skulu greiðast eftir því, hvernig íslenzk króna stendur gagnvart dollar. — Svo setur hann það hins vegar að skilyrði við önnur lán: Þessi lán skulu greiðast í sömu mynt eins og þau voru tekin upphaflega, þ.e. í íslenzkum krónum, eins og gengi er á hverjum tíma. — Ég vil athuga við hv. þm., hvort þeir taka eftir, hvað þetta þýðir. Að Framkvæmdabankinn eigi að lána út upp á tvenns konar skilmála eftir því, hvort féð er fengið að láni erlendis eða innanlands, þýðir það, að það er fyrir fram hugsað í þessu sambandi, að allt það fé, sem hann fær að láni erlendis, t.d. í dollurum, skuli lánað út hér innanlands í alveg ákveðið fyrirtæki. Það væri sem sé ómögulegt að blanda þessu tvennu saman, þið skiljið það. Það væri ekki hægt, ef bankinn bara tæki lán upp á 100 millj. kr. erlendis, fengi innlagnir hér innanlands upp á 100 millj. kr. og lánaði þetta út holt og bolt. Þá lenti þetta allt í vitleysu, og þessi 10. gr. þýddi ekki neitt. Þá væri ekki hægt að aðskilja, hvað af peningum, sem bankinn lánar út, væru lán erlendis frá og hvað væru raunverulega sparisjóðsinneignir innanlands frá. Þetta þýðir, að hugsunin, sem liggur á bak við þetta, er: Það eru alveg ákveðnar upphæðir, sem eru lánaðar í dolíurum, og þær sömu upphæðir eru lánaðar út hér innanlands með þessum skilmálum. — Öðruvísi væri það óhugsandi. M.ö.o., það framlag, sem amerískir auðhringar lána út, einhverjar ákveðnar upphæðir, á einmitt að ganga með sérstökum skilmálum í íslenzkt atvinnulíf. Þetta er alveg greinilegt. M.ö.o., það á að skapa sérréttindi þarna fyrir erlenda lántakendur, fyrir peninga, sem þeir setja beint út í atvinnulífið á Íslandi. Þetta tvennt mætti nú ekki blandast saman. Hingað til hefur þetta verið bannað. Nú á að innleiða það. Nú á að koma á tveimur peningakerfum.

Einu sinni var Framsfl. að tala ofur lítið um, að sumir menn á Íslandi ættu dollarainneignir erlendis, það mætti nú ekki láta slíka menn vera að stórgræða á því. Og ef ég man rétt, þá minnir mig nú, að Framsókn hafi við síðustu kosningar frekar hampað þessu heldur en þagað yfir því. Ég veit ekki, hvort þetta er sett með sérstöku tilliti til þeirra, til að vernda þeirra hagsmuni um alla framtíð. Máske.

Ég vildi sem sé aðeins vekja athygli hv. alþm. á þessu, hvað það er, sem þarna býr á bak við, hvernig þetta rekst á við allt, sem við höfum hugsað okkur fram að þessu.

Og svo í sambandi við 11. gr., þar sem Framkvæmdabankanum er falið, svo framarlega sem fjmrh. óskar þess, að sjá um þau viðskipti fyrir hönd ríkisins út á við, sem Landsbankinn eða seðlabankinn hefur annazt fram að þessu, þá vil ég bara vekja athygli hv. þm. á, hvert verið er að fara með þessu. Með þessu móti á Framkvæmdabankinn að taka við því verkefni, sem talið hefur verið sjálfsagt að aðalþjóðbankinn, að Landsbanki Íslands annaðist fram að þessu. Landsbanki Íslands hefur verið fulltrúi landsins út á við. Hann hefur verið sá aðili, sem hefur annazt lántökurnar og séð um þetta fé og lánað þetta út hér innanlands fyrir hönd ríkisstj., með hennar samþykki og annað slíkt. Hann hefur séð um að greiða lánin erlendis. Nú á sem sé þessi Framkvæmdabanki að fá þetta.

Það er alveg auðséð, hvað það er, sem þarna býr á bak við. Alþjóðabankanum finnst Landsbanki Íslands ekki nógu góður, ekki nógu öruggt verkfæri sér til handa. Hann heimtar sérstakan banka skapaðan, sem rækir þessi verkefni ríkisstj. í sambandi við Alþjóðabankann.

Í bankamálum Íslands er þess vegna alveg greinilegt, eins og ég kom inn á í fyrri hluta minnar ræðu, einmitt í sambandi við 10. og 11. gr., að það er algerlega brotið í blað. Og það er eiginlega rétt mátulegt á Framsfl., að hann skuli verða til þess sérstaklega að beita sér fyrir þessu frv.

Íslandsbanki, þegar hann var myndaður hér á Íslandi, var banki hins danska auðvalds til þess að hafa tök í íslenzku atvinnulífi og til þess að hafa áhrif á íslenzk stjórnmál, vera fjárhagslegur bakhjarl þess flokks á Íslandi, sem var fulltrúi fyrir dönsk áhrif. Þegar Framsfl. kom til valda á Íslandi, þá áleit hann það eitt aðalatriðið í sinni pólitík að gera Landsbankann sterkan og að draga úr valdi Íslandsbanka, sem honum reyndist líka mjög auðvelt vegna þeirrar kreppu, sem þá skall á og Íslandsbanki varð sérstaklega fyrir barðinu á. Landsbankinn var fyrst raunverulega gerður að höfuðbanka Íslands, að sterkasta bankanum, eftir að Framsókn kom til valda 1927, með Landsbankal. 1928, fékk svo að segja einkaréttindi hvað seðlaútgáfuna snerti og annað slíkt. Og Landsbankinn sem ríkisbanki og þjóðbanki fyrst og fremst hefur þess vegna síðan, alveg sérstaklega í augum Framsfl., verið sá banki, sem hefur út á við átt að vera fulltrúi fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands.

Nú er það Framsfl., sem beitir sér fyrir þessum l. hérna, sem þýða það að setja meira eða minna Landsbankann út úr sniðum sem þann banka, sem hefur sérstök hlutverk að rækja fyrir hönd ríkisstj. gagnvart útlöndum, sem þann banka, sem hefur leyfi til þess einn saman að taka lán erlendis án þess að spyrja ríkisstj. að, sem sé að lítillækka Landsbankann til þess að hefja upp í staðinn með sérstökum sérréttindum, m.a. teknum frá Landsbankanum, Framkvæmdabanka, sem myndaður er eftir kröfu amerísks auðvalds, fram kominni í gegnum Alþjóðabankann. Þannig á nú að skapa hér sérstakan sterkan banka sem tákn hins ameríska auðvalds á Íslandi, margfalt sterkari og miklu, miklu hættulegri, heldur en Íslandsbanki var nokkurn tíma fyrir Íslendinga sem fulltrúi dansks auðvalds á Íslandi. Ég rakti þessi mál að öðru leyti í gær og ætla ekki að fara ýtarlega út í þau.

En það er þess vegna heldur engin tilviljun, að einmitt Landsbankinn og alveg sérstaklega bankastjóri Framsóknar, einn af miðstjórnarmeðlimum Framsfl., skuli mótmæla og það harðvítuglega og í nafni almennra innlendra hagsmuna þeim ágangi, ekki aðeins á Landsbankann, heldur líka á þann almenna rétt Alþ., sem sýndur er með þessum l. Ég vildi hins vegar aðeins benda á þetta og undirstrika þetta til frekari áréttingar og vekja athygli hv. þm. á þessu. Ég sé að vísu, að það þýðir ekkert sérstaklega mikið, svona almennt séð.

Það kemur ekki fram í umræðum hérna á þinginn, þó að hæstv. ríkisstj. reki sig á í þessum málum og neyðist máske stundum í verki til þess að láta undan, eins og hún nú þegar hefur gert með tilliti til kosninganna, viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni og ráðstöfuninni á þeim hlutabréfum. En ég hefði haft gaman af því, ef hæstv. fjmrh. fengi málið, að hann skýrði það fyrir þingheimi, hvernig hann hugsar sér 10. gr. framkvæmda hérna heima og hvernig hann hugsar sér þá aðstöðu í íslenzku fjármálalífi, þegar sum lán eru veitt með þeim skilyrðum, sem þar eru, og önnur með venjulegum skilyrðum, og hvernig á að aðgreina peningana, íslenzku seðlana og íslenzku lánin, þegar þau eru veitt úr íslenzkum bönkum, eftir því, hvernig þau kunna að vera upprunnin að einhverju leyti. Það er alveg auðséð, að það verður aðeins einn einasti aðili, sem getur notið þessara sérréttinda á Íslandi, að geta látið lána sér fé út á svona gengisklásúlu, þ.e. eigendur dollara í Ameríku. Það eru einu mennirnir, sem þessi klásúla er sett fyrir. Dollarinn skal þannig gilda sem verðmiðill í íslenzku atvinnulífi fyrir alla þá ameríska menn sem láta fé í atvinnulíf á Íslandi. 10. gr. þýðir sérréttindi fyrir eigendur dollara á Íslandi.

Ég veit ekki, hvort hæstv. ríkisstj. er nokkuð ljóst í þessu sambandi. Maður er orðinn svo vanur því, að ríkisstj. yfirleitt hugsi ekki um þau lagafrv., sem hún leggur hér fram fyrir Alþ., hún tekur við þessum hlutum ómeltum, eins og henni er fengið það frá einhverjum amerískum skrifstofum, sem senda þetta hingað til lands, hendir þessu fyrir þingið, pískar þetta í gegn, þó að það sé meira eða minna tóm vitleysa eða byggt á röngum útreikningum, eins og var með gengislækkunarlögin. Og því aðeins að hún hafi sérstaklega óttazt hlutina, eins og núna í sambandi við áburðarverksmiðjuna, þá áttar hún sig eitthvað á því, að það muni ekki vera hentugt að framkvæma allar skipanir yfirboðara hennar fyrir kosningar, en stundum heppilegt að bíða með að framkvæma eitthvað af þeim skipunum þangað til eftir kosningar.

Ég hef nú rakið þær greinar í þessu frv., sem ég álit alveg sérstaklega varhugaverðar, til þess, ef vera mætti, að annaðhvort hæstv. ríkisstj. eða einstakir þm. áttuðu sig nokkuð á, hvað í þessu frv. fælist, ef þeir mættu eitthvað um það hugsa. Ég hef hins vegar ekki hugsað mér við þessa umræðu málsins að gera neinar einstakar brtt. við hinar einstöku greinar, því að mín höfuðtill. er, að þetta frv. sé fellt. Ég álít frv. í heild skaðlegt. Ég álít frv. í heild skapað til þess að tryggja ítök amerísks auðmagns á Íslandi og yfirráð þess og sérréttindi þess í íslenzku fjármála- og atvinnulífi. Og það álít ég skaðlegt. Þess vegna er það mín till. við þessa umr., að hv. deild felli þetta frv.