29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 892 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nú aðeins örfá orð frá minni hálfu. — Ég gerði hér tilraun við fyrri umr. málsins til að fá nokkrar upplýsingar í sambandi við starfsemi þessa fyrirhugaða nýja banka, en hvort tveggja er nú, að ég hef fengið fá svör og mjög ófullnægjandi, og eins það, að það eru enn nokkur ný atriði, sem mig langaði í rauninni að spyrja a.m.k. frsm. meiri hl. n. um í sambandi við starfsemi þessa banka.

Eins og hér hefur nú komið fram, þá er ætlazt svo til, að mótvirðissjóður eigi að renna til þessa nýja banka og vera hans aðalstarfsfé. Hins vegar liggur það fyrir, svo að allir hv. alþm. vita, að raunverulega er búið að ráðstafa mótvirðissjóði, og ekki aðeins búið að ráðstafa honum einu sinni, heldur verður maður að ætla, að það sé búið að ráðstafa honum af Alþ. meira en einu sinni. Í fyrsta lagi er búið að gera hér samþykktir um það, hvernig fé mótvirðissjóðs skuli ráðstafað í fyrstu umferð. Þá á þetta fé aðallega að fara til hinnar nýju Sogsvirkjunar, til Laxárvirkjunarinnar og til áburðarverksmiðjunnar. En svo kemur þetta fé inn aftur, og þá er svo til ætlazt, að það gangi til þessa nýja banka og eigi að verða starfsfé hans, en þá hefur Alþ. þegar gert þá samþykkt, að helmingur mótvirðissjóðs, sem kemur inn í annað sinn, skuli ganga til landbúnaðarins og hinn helmingurinn skuli ganga til lánveitinga í bæi og kauptún.

Vegna þess að þetta kemur mér þannig fyrir augu, eins og eflaust mörgum fleirum, að það virðist nú ekki vera beint verkefni fyrir nýjan banka til þess að eiga að ráðstafa þessu fé, þar sem Alþ. hefur gert allar þessar ráðstafanir út af þessum sjóði, þá sem sagt vaknar sú spurning: Er það ætlunin, að hinn nýi Framkvæmdabanki taki að sér sjálfur beinar lánveitingar til framkvæmda í landbúnaðinum? Eða er virkilega ekki meiningin hjá Alþ. nú eins og áður, að þessi helmingur, sem á að renna til landbúnaðarins, verði afhentur stofnlánadeildum landbúnaðarins, sem nú þegar eru starfandi við Búnaðarbanka Íslands? Ef svo er, að það er ætlunin, að þessi helmingur af mótvirðissjóði, þegar hann kemur inn á nýjan leik, eigi að afhendast þessum stofnlánadeildum landbúnaðarins við Búnaðarbankann, þá er vitanlega með öllu óþarfi að tala um það, að þetta fé eigi að ganga til nýs banka og verða starfsfé hans. Ég vildi nú spyrja frsm. meiri hl., hvernig hann liti á þetta. Er það virkilega ekki ætlunin að standa við fyrri samþykktir um það, að helmingurinn af þessu fé, af mótvirðissjóði, verði látinn renna til stofnlánadeildar landbúnaðarins beint og milliliðalaust? Það er sannarlega og ekki sízt núna, með tilliti til þess, að það eru nú kosningar á næsta ári, fróðlegt, bæði fyrir alþm. og alla landsmenn að fá að vita um það, hvort það er meiningin að ráðstafa þessu fé eins og um það hefur verið skrifað og talað, hvort það er meiningin að ráðstafa því á þann hátt eða hvort nú á að fara að hafa hér annan hátt á. Ég vildi alveg eindregið óska eftir því, að þessu verði svarað svo skýrt, að ekki þurfi neitt um að villast.

Þá er það atriði í sambandi við starfsemi þessa nýja banka, að það hefur sérstaklega verið fært fram hér sem rök fyrir nauðsyn þess að setja á þennan nýja banka, að hann eigi að standa í stofnlánum til nýrra framkvæmda. Þá dettur mér nú fyrst til hugar: Hvað þá um stofnlán til nýrra framkvæmda í sambandi t.d. við sjávarútveginn? Ég hef nokkuð rætt þarna um landbúnaðinn áður. Margar nýjar framkvæmdir eru á döfinni í sambandi við sjávarútveginn, og margar nýjar munu þar bætast við. Er nú ætlunin, að þessi nýi banki taki að sér bein stofnlán til nýrra framkvæmda á vegum sjávarútvegsins? Á þessi nýi banki að taka að sér stofnlánaveitingar í sambandi t.d. við ný skipakaup, til byggingar nýrra verksmiðja eða annarra framkvæmda í þágu sjávarútvegsins? Eins og við vitum, þá eru þegar til allmargir sjóðir í landinu, sem eiga að hafa þetta hlutverk og hafa nokkrar tekjur í þessu sambandi. Ég óttast það fyrir mitt leyti, að komi nú nýr banki, sem eigi að hafa þetta verkefni að einhverju leyti með höndum, en þó mjög óljóst takmarkað, þá kunni svo að fara, að þeir aðrir stofnlánasjóðir, sem eru í gildi samkv. lögum og starfa að þessum verkefnum, kunni að draga að sér höndina með þessar lánveitingar og vitna aðeins til hins nýja banka, sem á að verða talsvert öflugur, en virðist þó hafa mjög svo ótakmarkað verksvið í sambandi við þessi mál. Það er nú spurning mín til frsm. meiri hl. n., hvernig þessu eigi fyrir að koma. Ef það er aðeins þannig, að þessum nýja banka er ætlað það verk að lána þeim stofnlánadeildum, sem eru nú fyrir, eins og stofnlánadeild sjávarútvegsins, fiskveiðasjóði, fiskimálasjóði og öðrum slíkum stofnlánasjóðum sjávarútvegsins, — ef það er ætlunin, að hinn nýi banki eigi aðeins að lána þessum sjóðum viðbótarfé til þeirra starfsemi, þá vitanlega breytir nú þessi nýi banki ákaflega mikið um svip, og sýnist nú ekki heldur vera nein nauðsyn á því þá að fara að setja þarna upp nýjan banka til þess að annast þá milligreiðslu, því að það verður vitanlega að gerast að meira eða minna leyti fyrir forgöngu ríkisvaldsins, fyrir forgöngu ríkissjóðs eða Alþingis, að útvega þessum stofnlánasjóðum aukið starfsfé, eftir því sem ríkisvaldið telur heppilegt á hverjum tíma að gera.

Þá verð ég líka að játa það, að ákvæði þau, sem er að finna í 7. gr. frv. í sambandi við verkefni þessa nýja banka og starfshætti hans, eru þannig orðuð, að mér þykir afar hæpið, að hægt sé, að minnsta kosti eins og nú háttar til, að láta þennan nýja banka veita nokkur ný lán t.d. til flestra greina sjávarútvegsins. Í 2. tölulið 7. gr. er greinilega tekið fram, að bankinn eigi einvörðungu að lána til gagnlegra framkvæmda, eins og þar segir, en þó því aðeins, að að dómi bankastjórnar séu þau fyrirtæki, sem um er að ræða, svo arðvænleg, að telja megi alveg öruggt, að þau geti skilað afborgunum og vöxtum á tilskildum tíma. Nú háttar því þannig til a.m.k. með flestar greinar sjávarútvegsins, eins og þm. er kunnugt, að það þykir ekki öruggt, að þau geti staðið við afborganagreiðslur sínar eða vaxtagreiðslur, og ef ætti að fara eftir þessu ákvæði, þá sýnist mér, að það væri mjög vafasamt, að hægt væri fyrir þennan banka að veita nokkur teljandi lán til sjávarútvegsins, þar sem þetta verður ekki talið öruggt og hefur ekki verið núna um langan tíma. En sem sagt, ég hefði gjarnan viljað fá þetta upplýst nokkru frekar, sem ég hef hér minnzt á.

Þá er einnig þetta atriði, sem hér hefur komið fram í umr., og það hefur verið fundið til réttlætingar því að setja þennan nýja banka á stofn, að hann eigi sérstaklega að hafa með höndum erlendar lántökur fyrir hönd ríkisins. En hefur nokkuð komið fram, sem bendir til þess, að það sé nauðsynlegt að stofna nýjan banka í þessu skyni? Hefur nokkuð komið fram í sambandi við þær lántökur, sem þjóðbankinn hefur annazt fyrir hönd ríkisins við erlenda aðila, að hann í rauninni geti ekki haldið því verkefni áfram? Hvað er það, sem hefur sérstaklega komið fram í sambandi við erlendar lántökur af hálfu ríkisvaldsins fram að þessum tíma, sem sé þess eðlis, að það kalli á það, að það verði settur á stofn nýr banki til þess að hafa þetta með höndum? Ég hef ekki heyrt það í þessum umr., að neinu hafi verið teflt fram í þeim efnum, sem virkilega réttlæti það að bæta nú við einum bankanum enn. Sem sagt, mér sýnist, að þetta mál liggi þannig fyrir, að allur rökstuðningur fyrir því, að það sé nauðsynlegt að bæta við þessum banka, sé vægast sagt mjög léttvægur, og þeir, sem helzt vilja mæla með þessu frv., draga sig í hlé í umr., svara ekki mjög eðlilegum spurningum þm. um starfstilhögun þessa nýja banka og virðast í rauninni helzt kjósa að fara í felur með málið allt.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en við 3. umr. málsins býst ég við því, að ég muni flytja hér brtt. Ef það er sýnt, að málið á hér fram að ganga, þá þykir mér þó nauðsynlegt að koma fram nokkrum breytingum á efni frv.