29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af því, sem hv. 3. landsk. þm. sagði nú viðvíkjandi ákvörðuninni um hlutabréf áburðarverksmiðjunnar. Ég fylgdist nú ekki með því, hvort honum var alveg ljóst, að það væri nú þegar raunverulega ákveðið, að þetta ákvæði yrði tekið út. Meiri hl. n. hefur nú fallizt á þá till.

En ég vildi leyfa mér að spyrja hv. 3. landsk., sem á sæti í bankamálan.: Til hvers átti bankinn að fá þessi hlutabréf sem stofnfé, ef það var ekki meiningin, að hann fyrr eða síðar seldi þau? Að hvaða gagni áttu þessi hlutabréf að koma bankanum sem stofnfé, svo framarlega sem það var ekki meiningin, að hann fyrr eða síðar seldi þau? Það hefur margoft verið spurt að þessum hlut, og því hefur aldrei fengizt svarað nema af einum manni, og það er sá maður, sem veit gerst um þessa hluti. Formaður bankamálan., dr. Benjamín Eiríksson, var spurður að því á fundi fjhn. Ed., þegar hann var kallaður á þann fund, hvað hann hugsaði sér með þessi bréf og hver væri tilgangur þess að setja þetta ákvæði þarna inn í. Og form. bankamálan., dr. Benjamín Eiríksson, svaraði því, að hann hugsaði sér, að þessi hlutabréf yrðu seld síðar. Þessi yfirlýsing hans stendur, hún er bókuð, og hún er staðfest í þskj. og staðfest af allri þeirri fjhn., sem á hann hlustaði, enda hefur hann ekki sjálfur reynt að bera neinar brigður á það. Dr. Benjamín Eiríksson er að því leyti í annarri aðstöðu en bæði hv. 3. landsk. þm. og aðrir þm. hér og hæstv. ríkisstj., að hann hefur víst ekki hugsað sér að bjóða sig fram hér á Íslandi. Hann álítur ekki vinsældir sínar það miklar, að hann búist við því að leita eftir því að verða kosinn á þing. Hann skoðar sig hins vegar sem góðan fulltrúa fyrir þá aðila, sem sendu hann hingað til lands með gengislækkunarl. Og hann segir þess vegna hreint út það, sem er tilgangurinn með þessum ákvæðum, tilgangur, sem hins vegar ríkisstj. finnst praktískt að leyna sem stendur. Það er engrar undankomu auðið með það, að það, sem hlaut að vaka fyrir þeim aðilum, sem réðu því, að hlutabréf áburðarverksmiðjunnar voru upphaflega seld eða ætluð sem stofnfé í Framkvæmdabankanum, var, að þessi hlutabréf yrðu seld síðar, eins og dr. Benjamín Eiríksson lýsti yfir við fjhn. Ed. Það stendur þess vegna alveg fast, hver tilgangurinn var með þessu, en það, sem síðan hefur gerzt, er þetta, að menn hafa hrokkið við og ekki sízt hæstv. ríkisstj., hopað á hæl og álitið praktískt að fresta því, að alþjóð manna yrði þessi tilgangur ljós fyrir kosningar. Við þekkjum svona dæmi fyrr. Ég þarf ekki nema að minna hv. þm. á kröfu amerísku ríkisstj. til þriggja herstöðva hér á Íslandi, sem flutt var 1. okt. 1945 og vakti reiði alþjóðar og var þess vegna dregin til baka, til þess að það væri svo komið fram með hana eftir kosningar og hún á næstu árum þar á eftir framkvæmd hér á Íslandi. Alveg sami tilgangurinn er með þessu ákvæði hér. Það er hins vegar bara sá munurinn, að dr. Benjamín Eiríksson er þarna alveg hreinskilinn, segir, hvað ameríska auðmagnið hugsar sér með það. Svo er það ríkisstjórnarinnar að taka hin pólitísku tillit til almenningsálitsins, sem þarna koma fram.

Ég held, að bankamálan. hafi verið hlunnfarin með flutningi þessa frv., og mér þykir það satt að segja undarlegt um slíka n., sem áður er búin að semja heilt frv. um seðlabanka, búin að senda það frv. um seðlabanka sem sínar till. til athugunar til bankanna hér á Íslandi og ýmissa annarra stofnana, og þar sem vitanlegt var, að m.a. til dæmis Alþfl. hefur löngum verið því fylgjandi og Sósfl. líka stungið upp á því, að seðlabankinn yrði aðgreindur frá sparisjóðsdeild Landsbankans, enda svo í landsbankalögunum. Finnst mér það undarlegt, að bankafróð nefnd skuli aldrei hafa látið sitt álit sem sjálfstæðrar n. koma fram um þessa hluti fyrir Alþ., sem ég hélt að væri sú stofnun, sem bankamálan. ætti að tala við. Hins vegar er nú þessu áliti skellt hér inn. En hvernig er þessu áliti skellt inn? Í grg. ríkisstj. er það stutt með tvennu. Fyrst er sagt: Þetta frv. er útbúið af bankamálan. — Svo er sagt í næstu setningu á eftir: Þetta frv. er útbúið af sendimönnum Alþjóðabankans. M.ö.o., það er alveg auðséð, hvernig þetta er. Fulltrúar Alþjóðabankans leggja þetta frv. fyrir bankamálan., bankamálan. er látin acceptera það, gleypa það með húð og hári og gera það að sinu, og svo óar mönnum við því á eftir — sumum hverjum — að hafa gleypt þetta svona hrátt.

Ég spurði hv. 3. landsk. sem eina manninn úr þessari d., sem á sæti í bankamálan., hvernig hann hugsaði sér 10. gr. þar, hvernig hann sem bankamálanefndarmaður hefði hugsað sér, að það væri framkvæmt í íslenzku atvinnulífi, að ákveðnir íslenzkir lántakendur tækju á sig þær skuldbindingar að greiða sama sem í útlendum gjaldeyri eða a.m.k. með tilliti til gengis útlends gjaldmiðils þær íslenzkar krónur, sem þeir fengju að láni, og hvers vegna bankamálan. hefði fundizt rétt að setja þessa grein inn nú, 10. gr., þvert ofan í 8. gr. í gengislækkunarl., sem bannaði þess háttar útlán, og hvort það hefði verið ein aðalniðurstaðan í bankamálan., að það væri heppilegt að skapa þannig raunverulega eins og tvö peningakerfi hér á Íslandi. Ég hef ekki getað fengið skýringu á þessu, hvað bankamálan. hefur gengið alveg sérstaklega til með þessa 10. gr. og hvernig hún hugsar sér framkvæmdirnar á því hér á Íslandi, og um það hefði verið ákaflega gaman að fá skýringar lærðra manna.