02.02.1953
Efri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og menn hafa sjálfsagt veitt eftirtekt, þá hefur frv. tekið þeirri breyt. í hv. Nd., að fellt er niður að afhenda bankanum sem stofnfé hlutabréf í áburðarverksmiðjunni, 6 millj. kr. Önnur breyt. var og gerð, en hún virðist nú ekki hafa mikla þýðingu og ekki geta valdið ágreiningi. Fjhn., sem hafði þetta mál til meðferðar hér í d., meðan frv. lá fyrir henni, hefur ekki haldið fund um málið eða tekið málið fyrir á fundi síðan það var endursent til þessarar hv. d. Ég get því ekki upplýst það, hvernig n. lítur á þetta. En mitt álit er það, að það sé tæplega hættandi á það að fara að endursenda frv. til hv. Nd. út af þessu, og ef ekki koma raddir frá öðrum hv. nm. í gagnstæða átt, þá verð ég að lita svo á, að n. mæli með því, að frv. sé nú samþykkt.