29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

211. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins lýsa yfir því, að ég tel eðlilegt og sjálfsagt, að áður en þessu þingi lýkur séu afgreidd slík lög eins og hér er farið fram á.

Í raun og veru er það orðið svo fjöldamörg síðustu árin, að þetta ákvæði stjskr. um samanköllun Alþingis um miðjan febrúar er ekki framkvæmt, þar sem því er líka heimilt að breyta með lögum. Hefur raunin orðið sú, sem er mjög eðlilegt, að þing sé kallað saman miðað við það, að það geti a.m.k. lokið fjárl., ef unnt er, rétt áður en nýtt fjárlagaár byrjar. Það er eitt, sem er vissulega til endurskoðunar í nýrri stjskr., annað tveggja að breyta fjárlagaárinu frá því, sem núna er, og binda það ekki við almanaksárið eða þá að ákveða, ef ákvæði eru um það í stjskr. á annað borð, að Alþ. komi saman í þann mund, sem ætla mætti að væri nægilegur starfstími fyrir það til þess að ljúka fjárl., áður en nýtt fjárlagatímabil byrjar.

Ég mun þess vegna lýsa yfir fylgi við þetta frv., eins og eðlilegt er, þegar það er í samræmi við það, sem hefur verið gert fjöldamörg undanfarin ár. En ég vildi þó aðeins bæta því við, að þó að fáir dagar séu eftir af störfum núverandi Alþ., eftir því sem manni skilst, þá hygg ég þó, að eitt eða fleira vanti verulega á, sem eðlilegt væri að þm. vissu, áður en störfum Alþ. er lokið, — ekki sízt fyrir þá sök, að nú standa fyrir dyrum alþingiskosningar innan 4–5 mánaða. Það er yfirleitt siður í þingræðis- og lýðræðislöndum, að ríkisstj. — ekki hvað sízt, ef kosningar standa fyrir dyrum — geri þingheimi sem allra ljósast það ástand, sem fyrir höndum er í efnahagsmálum þjóðarinnar, og það útlit, sem ætla má að sé fram undan um þau efni. Mér hefur mikið fundizt á það skorta hvað snertir hæstv. ríkisstj., að hún hafi séð ástæðu til þess að gefa alþm. kost á því að fá sem gleggstar skýrslur um þessi efni, þrátt fyrir það þó að oft sé minnzt á ýmisleg mál, sem þessi efni snerta, og verður það þá hæstv. ríkisstj. sök, ef t.d. í alþingiskosningum er ekki hægt fyrir — við skulum segja andstæðinga ríkisstj. og venjulega alþm. — að gefa kjósendunum þær upplýsingar, sem þeir eiga rétt á að fá að vita, áður en þeir velja sér fulltrúa fyrir næsta kjörtímabil.

Eins og ég sagði áðan, hefur það verið og er viða talin sjálfsögð skylda í lýðræðis- og þingræðislöndum, að ríkisstj. gefi löggjafarþingunum sem allra gleggsta hugmynd um það, hvernig sakir standa í fjárhags- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Nú er talið, eftir því sem almenningur veit og við óbreyttir og almennir þm., sem ekki fáum neinar sérstakar upplýsingar frá hæstv. ríkisstj., að útlit sé mjög uggvænlegt í þessum efnum, að svo standi t.d. sakir, að óvenjumikið af saltfiski hrúgist upp í markaðslöndum okkar, að óvenjumikið af hraðfrystum fiski frá íshúsunum hrúgist einnig upp í sumum markaðslöndunum og að mjög sé uggvænlegt útlit um sölu þessara okkar höfuðafurða á næstu tímum. Okkur, sem höfum verið valdir til þess að fara með umboð ákveðinna kjósenda í landinn og munum fleiri eða færri taka þátt í næstu alþingiskosningum, væri mikil nauðsyn á því að fá sem allra gleggsta vitneskju um þessi efni. Það hefur verið siður merkra stjórnmálamanna hér í Vestur- Evrópu, sem halda um stjórnvölinn, að gefa þjóð sinni og löggjafarþingi sem allra gleggstar skýrslur um þessi efni, en mér hefur mjög fundizt á skorta hjá hæstv. ríkisstj. varðandi þessi mál. Þegar ekki eru fyrir hendi glöggar skýrslur um ástand og horfur, er erfiðara um vík fyrir okkur þm. að leggja til alveg sérstök úrræði, og í kosningum er það líka erfiðara, og verðum við kannske að geta einhvers til, þar sem upplýsingar hefur skort af hálfu ríkisstj., — og endurtek ég það þá, að það er hennar sök, ef okkur skortir vitneskju um þessi efni og getum ekki nákvæmlega skýrt kjósendum landsins frá því, hvernig sakir standa. Enn þá er tími til, þó að fáir dagar séu fram undan, eftir því sem ætla má, af núverandi Alþ.,hæstv. ríkisstj. gefi þingheimi skýrslu um ástand og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, áður en þinginu lýkur, ekki sízt þegar nú er gengið til nýrra kosninga.

Þetta vildi ég benda hæstv. ríkisstj. á í sambandi við þetta mál. Mér hefur líka skilizt, að á döfinni sé t.d. eitt nokkuð stórt mál og nokkuð mikið umrætt mál, þó að ekki hafi það valdið ákveðnum flokkadeilum, og það liggi fyrir alþm. einkaupplýsingar um þessi efni frá fræðimönnum, en svo er ekki meira að gert. Á ég þar við Grænlandsmálið. Ég tel ekki heppilegt, að það sé lokið þingi nú og gengið til nýrra kosninga, áður en alþm. vita um, hvað hæstv. ríkisstj. hefði í huga t.d. varðandi þetta mál.

Eins og ég sagði í upphafi þessara orða minna, fylgi ég frv., geri enga kröfu til þess, að það fari til n.; það er svo sjálfsagt, að slíkt frv. verði afgreitt og gert að lögum. En ég vildi aðeins benda hæstv. ríkisstj. á það, eins og ég hef stundum gert líka í tilefni af öðrum málefnum, að mér finnst allmikið skorta á þær upplýsingar, að stjórnin hafi orðið við því að inna af höndum — ég vil segja — þá upplýsingaskyldu, sem hvílir á herðum hverrar ríkisstj. til Alþ., og að það sé næsta nauðsynlegt, að svo sé gert, ekki hvað sízt þegar kosningar standa fyrir dyrum. En enn þá er hægt að bæta úr þessu, á hvern veg sem gert væri, og vil ég nota tilefnið við þessa umr. til þess að benda hæstv. ríkisstj. á þetta atriði.