31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

42. mál, verðlag

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Frv. þetta er til staðfestingar á brbl. frá 6. maí 1952. Hefur allshn. haft frv. þetta til athugunar og leggur til, að það verði samþ., en eins og kemur fram í nál. og fram kominni till., þá áskildi einn nm. sér rétt til þess að bera fram brtt., og hefur hann gert það.

N. ræddi frv. þetta við verðlagsstjóra, og skýrði hann frá því, að þær skýrslur um verðlag, sem nýskeð hafa verið gefnar út, næðu sem næst til þess tíma, er brbl. voru gefin út, þ.e.a.s., þessar skýrslur ná svona til miðs maí, aðeins lengra en til þess tíma, er l. voru gefin út. En hann gat þess einnig, að í undirbúningi væru skýrslur frá þeim tíma, sem hin nýju brbl. ná til. Jafnframt fékk n. þær upplýsingar frá verðgæzlustjóra, að þau heimildarákvæði, sem í l. felast, hefðu ekki komið til framkvæmda og að ekki hefðu verið gefin út þau fyrirmæli, sem gert er ráð fyrir í 2. gr. um framkvæmd heimildarinnar. Og þá kom það fram í n., að æskilegt væri að fá að heyra, hvað liði framkvæmd þessara l. um það, að birt yrðu nöfn þeirra, sem uppvísir verða að óhóflegri álagningu á vöru eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á. Og vil ég segja það fyrir mig, að ég vænti þess að fá um það upplýsingar, hvað framkvæmd þessa ákvæðis líður, og tel, að maður eigi heimtingu á því, að nöfn þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli og hafa gert sig seka um óhóflega álagningu á vörur og þjónustu, verði birt sem allra fyrst.

Varðandi þá brtt., sem hér liggur fyrir frá hv. 6. landsk. þm., þá hefur hún ekki komið fyrir n. í heild. En ég vil lýsa því yfir, að ég lít svo á, að þessi till. sé til bóta. Ég tel, að það sé til bóta, að það sé skylt að birta nöfn í vissum tilfellum, þó að ég vilji ekki segja um, hvort álagningarmarkið, sem hér er talað um, 50%, sé það nákvæmlega rétta. En þetta segi ég aðeins fyrir mig, en ekki fyrir hönd n. — Nefndin leggur til, að frv. verði samþ., og gerir það í trausti þess, að það komi til framkvæmda sem allra fyrst.