31.10.1952
Efri deild: 19. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

42. mál, verðlag

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var sammála öðrum nm. í allshn. um að leggja til, að þetta frv. yrði samþ., en hins vegar áskildi ég mér rétt til að bera fram brtt. við það, og þá till. hef ég borið hér fram á þskj. 154. Það var rétt, sem hv. frsm. n. sagði, að þessi till. mín hefur ekki komið fyrir allshn. til athugunar, enda hafði ég bana ekki tilbúna, þegar n. fjallaði um málið.

Það er öllum kunnugt, að eitt af höfuðstefnuskráratriðum hæstv. ríkisstj., þegar hún tók við völdum, var að afnema innflutningshöftin og verðlagseftirlitið. Ég ætla ekki að ræða hér sérstaklega, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur framfylgt því stefnuskráratriði sínu að fella niður innflutningshöftin. Allir vita, hvernig það loforð hefur verið vanefnt. Hins vegar er það staðreynd, að hæstv. ríkisstj. hefur staðið dyggilega við loforð sitt um að afnema verðlagseftirlitið.

Þegar Alþfl. vissi, að til stóð að afnema verðlagseftirlitið, benti hann á, að með slíkum aðgerðum væri stefnt í hið mesta óefni og að enginn vafi væri á, að verzlunarstéttin mundi nota frelsi sitt til óhæfilegrar álagningar. Hæstv. ríkisstj. vildi ekki á þetta fallast og hélt því fram, að hin frjálsa samkeppni mundi sjá fyrir því, að álagningin yrði ekki óhófleg, þar eð sá, sem óhóflega legði á vöruna, mundi ekki geta selt hana. Reynslan hefur nú ótvírætt skorið úr því, hvernig þessar fullyrðingar hæstv. ríkisstj. hafa staðizt. Verulegur hluti verzlunarstéttarinnar hefur notað frelsi sitt og aðstöðu til óhóflegri og ósvífnari álagningar, en dæmi eru til um áður. Af áhrifum hinnar frjálsu samkeppni fara engar sögur. Þeirra hefur enginn orðið var og sízt af öllu hæstv. ríkisstj. sjálf. Um þetta eru til ótal tölur. Hafa þær verið birtar hvað eftir annað, og sé ég ekki ástæðu til að fara að rifja þær upp hér.

Fram á það hefur verið farið af Alþfl. hvað eftir annað, að ríkisstj. birti nöfn þeirra aðila, sem gerzt hefðu sekir um óhæfilega álagningu. Var þessi krafa borin fram í þeirri von, að birtingin megnaði að knýja verzlunarstéttina til að stilla álagningu sinni meira í hóf, en reynslan hafði sýnt að gert var. Þessari kröfu var algerlega hafnað af hæstv. ríkisstj. þar til í maímánuði s.l., að hæstv. viðskmrh. neyddist til að gefa út brbl., sem heimiluðu honum að birta nöfn þeirra, sem gerzt höfðu sekir um óhóflega álagningu. Í setningu þessara l. fólst að sjálfsögðu viðurkenning af hálfu hæstv. ríkisstj. á því, að fullyrðing hennar um það, að hin frjálsa samkeppni mundi sjá fyrir álagningunni, hefði ekki reynzt haldgóð. Ástæða var til að ætla, að hæstv. viðskmrh. mundi nota birtingarheimildina þegar í stað og ekki hvað sízt vegna þess, að ekkert lát varð á hinni óhóflegu verzlunarálagningu, þótt lögin væru sett, á meðan nöfn voru ekki birt. En hæstv. viðskmrh. birti engin nöfn. Hann setti ekki einu sinni reglugerð þá, sem lögin heimiluðu honum að setja, og verzlunarokrið hélt áfram. Nú biður hæstv. ráðh. um staðfestingu laganna frá í maí án þess að hafa nokkru sinni notað þá heimild, sem þau gáfu honum, þrátt fyrir mikla þörf á framkvæmd þeirra. En til hvers er að samþ. slík lög? Mér virðist, að þó svo að þetta frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir, þá sé alls ekki hægt að treysta því, að hæstv. ríkisstj. og hæstv. viðskmrh. geri skyldu sína og birti nöfn þeirra aðila, sem reynast sekir um óhæfilega álagningu. Ég tel alveg óhjákvæmilegt, að tekið sé upp í frv. ákvæði, sem beinlínis skyldar ríkisstj. til birtingar nafna. Heimildin ein er gagnslaus, svo sem nú er á verzlunarmálunum haldið.

Það er að sjálfsögðu ekki vandalaust að ákveða, hvenær skylt skuli að birta nöfn. Ég hef lagt til, að skylt sé að birta nöfn, ef álagning fer 50% fram úr því, sem tíðkaðist þegar fjárhagsráð og viðskiptanefnd ákváðu hámarksálagninguna. Ég vil taka það skýrt fram, að ég hef ekki nefnt þetta mark vegna þess, að ég álíti þetta hóflega hækkun á álagningunni, öðru nær. Ég hef gengið svona langt í þeirri von, að það mætti verða til þess, að meiri hluti þessarar hv. d. og hæstv. viðskmrh. gæti fallizt á svo sanngjarna till. sem hér liggur fyrir. En hins vegar virðist mér alveg ljóst, að 50% hækkun á álagningu frá þeim reglum, sem giltu þegar fjárhagsráð og viðskiptanefnd fóru með þessi mál, sé allt of mikil og óhæfileg hækkun. Vel má vera, að á sumum sviðum hafi álagningu verið um of í hóf stillt, á meðan þessi mál voru í höndum fjárhagsráðs og viðskiptanefndar. En síðan hafa vörur hækkað mjög í verði, og hækkar það að sjálfsögðu ágóða seljandans, auk þess sem umsetning hefur stórum aukizt síðan verðlagseftirlitið var fellt niður, og eykur það auðvitað stórlega tekjur verzlunarinnar. Þær reglur, sem ef til vill voru nokkuð þröngar á sínum tíma, eru því orðnar miklu sanngjarnari nú, er umsetning hefur aukizt og grunnverð hækkað. Ég vil því skýrt undirstrika það, að í þessari 50% hækkun, sem ég nefni hér í till., felst engin viðurkenning af minni hálfu fyrir því, að þetta sé hófleg hækkun á álagningunni. Ég miða eingöngu við þessa tölu til þess að sýna fyllstu sanngirni í þeirri von, að hæstv. viðskmrh. og hv. þd. geti gengið inn á jafnsjálfsagðan hlut eins og þetta.