13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

42. mál, verðlag

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég á hér till. á þskj. 165, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. Greinin orðist svo: Skylt skal verðgæzlustjóra að birta nöfn þeirra, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu á vöru eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á, og skal þá jafnframt birta til samanburðar nöfn þeirra, sem vitað er að lægsta hafa álagningu á sams konar vöru eða þjónustu á sama tíma. Ráðherra setur nánari fyrirmæli um framkvæmd þessarar skyldu.“

Sú breyt., sem kemur fram á löggjöfinni, ef þessi till. er samþ., er sú fyrst og fremst, að það skal skylt að birta nöfn þeirra manna, sem verða uppvísir að óhóflegri álagningu, í staðinn fyrir að í frv. nú er þetta heimilt. Er þetta sama brtt. eins og kemur fram hjá bæði hv. 6. landsk. og hjá hv. 8. þm. Reykv. og hv. 1. þm. N-M. Þessir aðilar virðast allir vera sammála um það, að það sé eðlilegra að fyrirskipa þetta, en gefa það í heimildarformi.

Ég vil nú taka það fram út af orðum hv. 6. landsk., að þetta er ekki af neinn vantrausti á hæstv. viðskmrh., hvorki um það, sem hann hefur gert í þessu máli, né það, sem hann kann að gera framvegis í málinu. Mér finnst hins vegar, að það sé eðlilegt, að hann viti um vilja hæstv. Alþ. í þessu máli. Og ef það er vilji hæstv. Alþ., að þetta skuli gert, þá þarf ekki að felast í því frá mínu sjónarmiði neitt vantraust á ráðh., heldur aðeins ákvæði Alþ. um það, að svona skuli það vera og engan veginn öðruvísi. Þá er M.ö.o. tekin af hæstv. ráðh. sú kvöð, að hann skuli sjálfur velja um þetta eða nota þetta eins og honum sýnist. Er miklu heppilegra frá mínu sjónarmiði fyrir ráðh., að þetta sé fyrirskipað, heldur en að hann hafi þessa heimild. Þess vegna hygg ég, að hann mundi ekki hafa neitt á móti því, að því orði út af fyrir síg yrði breytt. Og ég vil endurtaka það, að það felst ekki í þessu frá minni hálfu neitt vantraust á hæstv. ráðh. í sambandi við þetta eða nein árás á hans gerðir í þessu máli.

Hin breyt. er innifalin í því, að hér skuli hafa sama rétt þeir menn, sem eru sterkustu aðilarnir til þess að þvinga verðlagið niður. Þess vegna undrar það mig alveg sérstaklega frá hv. 6. landsk., sem hefur með mjög miklum bægslagangi hér rætt um þessi mál, sem hann er nú annars ekki vanur að gera, jafnprúður sem hann er í sínum málflutningi, að hann skuli nú ekki vilja fylgja þessari sjálfsögðu brtt., því að það er þó vitað, að ef farið er að birta nöfn ýmissa manna, sem mest leggja á, og samhliða eru birt til samanburðar og til viðvörunar fyrir fólkið nöfn fjölda annarra manna, sem halda verðlaginu niðri, þá fá þessir menn samúð, en hinir andúð. Þá kemur hér verðlagseftirlit frá fólkinu sjálfu, samkeppni um að halda verðlaginu niðri í landinu, en hylja ekki kostina, en opinbera ókostina. Ég á því ákaflega erfitt með að skilja, hvers vegna þessir hv. þm. vilja ekki fallast á mína till. Hv. 8. þm. Reykv., frsm. meiri hl., skýrði að vísu að nokkru þessa ástæðu, sagði, að það væri af því, að það væri ekki útilokað, að mestu okrararnir gætu fengið ódýra auglýsingu með því að lækka eina vörutegund. Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig hv. frsm. leyfir sér að túlka þetta mál þannig, því að ef till. er lesin, þá er það alveg skýrt, að hér er átt við sams konar vöru eða þjónustu á sama tíma, þ.e. þá vöru og þá þjónustu, sem frjálst verðiag er á, en ekki eina ákveðna tegund. Og það mundi að sjálfsögðu enginn hæstv. ráðh., enginn verðgæzlustjóri, jafnvel ekki þótt hann væri úr Alþfl., leyfa sér að reka þannig embættið, að hann færi að auglýsa lágt verð á einni vörutegund hjá einu verzlunarfyrirtæki eða hjá einum aðila án þess að grennslast eftir því, hvernig hans almenna verðlag væri á þeirri vöru, sem hann er að selja. Það er frámunalegur skilningur, sem hv. frsm. hefur lagt í till., og ég vil nú vænta þess, þegar hann fær þessa skýringu á því og aðrir hv. nm. fá þá skýringu á því, að þessi útlistun þeirra er algerlega röng, þá falli þeir frá villu sins vegar og samþ. till.

Hv. frsm. sagði einnig, að það yrði mjög viðurhlutamikið og erfitt verk að framkvæma till. Ég veit ekki, hvað hv. frsm. á við. Ég skal benda hv. frsm. og hv. n. á það, að nú er tekið á ákveðnum tíma, — ég hygg, að það sé einu sinni í mánuði, ég held af hagstofunni, ef ekki af hagstofunni, þá a.m.k. af einhverjum öðrum þar til kvöddum aðilum, — verðlag á öllum vörum í Reykjavík, sem eiga að ganga inn í vísitöluna. Þetta mætti þá nota í sambandi við það að upplýsa, hverjir selji ódýrast og hverjir selji dýrast. Nú veit ég að sjálfsögðu ekki um, hvað mikið af þessari vöru gengur inn í verðlagsvísitölu, — það er mér ekki kunnugt, — en jafnvel þótt ekkert af þessari vöru gangi inn í verðlagsvísitöluna, þá er það sannarlega ekkert aukið verk fyrir þessa sömu aðila að grennslast eftir á sama tíma um verðlag á þeim vörum og þeirri þjónustu, sem hér um ræðir. Það er síður en svo, að það sé nokkurt voðalegt verk. Ég vil enn fremur leyfa mér að benda á, að hér er heil stofnun, sem hefur það að atvinnu að ganga í allar matvörubúðir til þess að líta eftir matvælum. Ég sé ekki, að það væri neinn ókostur eða það sé neinum erfiðleikum bundið, þótt þessir menn á sama tíma grennslist eftir því, hvaða verð sé á vörum hér í landinu. Í þriðja lagi er vel hægt að taka upp eina aðferð enn, sem í rauninni er alveg óskiljanlegt að skuli ekki hafa fyrir löngu verið tekin upp hér í sambandi við verðlag, það er að skylda allar búðir yfirleitt til að hafa verðmiða á vörum sínum í gluggunum. Í öllum þeim löndum og borgum, sem ég hef farið um á ævinni, hef ég alls staðar séð, að svo að segja hver vara, sem sett er út til auglýsingar í búðum, er merkt með verðlagi, svo að maður þarf ekki annað en ganga frá búð til búðar í sömu götu til þess að sjá, hvort sams konar vara er með sambærilegu verðlagi. Þá mun koma fljótt í ljós, að það er mjög auðvelt að framkvæma þetta ákvæði brtt. minnar.

Því verður ekki með nokkru móti mótmælt, að mín till. sé einmitt langstærsta skrefið til þess að fá menn til að lækka vöruna, ef hún yrði samþ. Það þurfa alltaf að vera einhverjir aðilar, sem hvekkjast á því að vera teknir þeim tökum, sem hér er ætlazt til með till. hv. n., þ.e., að þeirra nöfn séu birt, því að þeir munu eins og hverjir aðrir sökudólgar reyna aðra leið til þess að framkvæma áfram sitt verð án þess að verða uppvísir að því, alveg eins og skattsvikarar eða aðrir lögbrotsmenn. En áreiðanlega mun hinn flokkur mannanna, sem á von á því, að hans verk sé viðurkennt ekki einasta af yfirvöldunum, heldur og af öllum almenningi, ekki reyna undir neinum kringumstæðum að falsa þessar álagningartölur, nema síður sé. Hann mun hafa lifandi sterkan áhuga á því, að það verði útbreitt meðal almennings, hve litið hann leggur á. Og mig undrar það sannarlega mjög, ef bæði hæstv. ráðh. og meiri hl. þessarar hv. d. fellir þessa till., svo sjálfsögð, réttlát og saklaus sem hún er. Og þá hlýtur það að vera af þeim mikla misskilningi, sem hefur komizt inn hjá þessum aðilum og ég er nú að reyna að gera tilraun til þess að leiðrétta. — Ég læt þetta nægja til að mæla fyrir minni tillögu.

Ég vil aðeins segja hér nokkur orð út af því, sem var rætt hér áður um hinar aðrar till. Hv. 6. landsk. hefur sett álagningartakmark í sína till., eins og hann skýrði frá áðan, og mætti fara upp að því takmarki, áður en nöfn manna yrðu birt. Ég er alveg sammála hv. frsm. um, að þetta væri mjög óheppilegt, því að það er enginn vafi á því, að allur almenningur, sem við verzlun vinnur, mundi telja sér heimilt að fara upp að þessu marki. Og þá er raunverulega þetta mark sama sem löggilding á álagningunni, og það vil ég ekki vera með að staðfesta. Hann spurði hins vegar: Hvað er hófleg álagning? — Ég hygg, að verzlunarmannastéttin, sem hefur árum saman starfað að þeim málum að kaupa inn fyrir þjóðina, selja henni vörur, hafi skapað sér alveg ákveðnar reglur um álagningu og þessar reglur hafi myndazt við margra ára reynslu og margra ára samkeppni. Nú er það vitað, að í þessari verzlunarstétt eru tveir aðilar. Annars vegar eru einstaklingar, sem við skulum segja að þurfi eins mikið að gæta sinna eigin hagsmuna eins og þjóðarinnar almennt. Þó fara þar alltaf saman hagsmunir þeirra einstaklinga, sem hafa þetta að atvinnu, og hagsmunir þjóðarinnar, að því leyti sem þeir eru útilokaðir frá viðskiptunum, ef þeir verða mun hærri í verzlunarálagningu en aðrir menn, sem geta verzlað á sömu stöðum. Hins vegar er svo heill hópur manna og sívaxandi, sem gerir þetta að þjónustustarfi fyrir aðra, fyrir heilar félagsheildir í landinu, eins og Sambandið og kaupfélögin. Maður skyldi ætla, að þegar þessir aðilar báðir hafa komið sér saman um einhverja eðlilega álagningu á vöru og hvorugur treystir sér til að fara niður fyrir hinn, þá sé mörkuð nokkuð föst regla um hóflega álagningu. Sé farið yfir þessa hóflegu álagningu, þá hlýtur það að vera af þeirri ástæðu, að það séu aðrir möguleikar, en hin frjálsa verzlun, sem koma til greina, þ.e.a.s., það er vöruþurrð í landinu, eins og heftu átt sér stað mörg undanfarin ár þar til nú síðast, og það er einmitt gegn því, sem á að vinna með lagafyrirmælunum, sem hér eru til umr. Ég held því, að það séu engin vandræði að fá það upplýst, hvað sé hófleg og venjuleg álagning á vörur. Og ég verð að segja það, að manni eins og hæstv. ráðh., sem sjálfur hefur staðið árum saman ekki einasta í beinu sambandi við verzlunarstéttina, heldur er og eigandi í verzlunarfyrirtækjum, ætti að vera vel kunnugt um það, hvað ætti að vera hófleg álagning á vörur. Hitt er svo annað atriði, að það getur verið óhófleg álagning á vöru undir vissum kringumstæðum, sem er hófleg undir öðrum kringumstæðum, jafnvel þótt prósentuálagningin sé sú sama. Það er undir mörgu öðru komið en innkaupsverðinu, hvað þarf að leggja á. Það er stundum, að það verður að vera hærri álagning, ef um hærri vaxtabyrði er að ræða, sem er að sjálfsögðu ekki ávallt sú sama. Þess utan þarf hærri álagningu, ef um er að ræða lengri fjárfestingu, m.a. ef það þarf að greiða fyrir fram mjög mikið af háum tollum o.s.frv. Það þarf einnig hærri álagningu á vörutegundir, sem einhver áhætta liggur í um skemmdir. Það er því alveg útilokað fyrir Alþ. að gefa nokkrar fastar ákveðnar reglur í einni stuttri grein um það, hvað mætti vera hámark álagningarinnar, eins og hv. 6. landsk. þm. gerir.

Ég vildi svo að síðustu leyfa mér að spyrja hv. 6. landsk. sérstaklega, vegna þess að hann dró þá ályktun, að þessi afstaða þeirra manna, sem nú vilja fyrirskipa þetta, sé mælikvarði á það traust, sem hæstv. ráðh. hefur nú, hvort þetta megi þá skilja svo, að í þessu hámarki, sem hann vill láta lögbinda hér, 50% hækkun frá því, sem var áður, á meðan fjárhagsráð eða viðskiptaráð ákvað hámarksálagninguna, felist viðurkenning fyrir því, að álagning fjárhagsráðs og viðskiptaráðs á sínum tíma hafi verið þetta of lág, að það hefði þá á þeim tíma þurft að hækka hana um 50%. Öðruvísi verður ekki skilin sú till., sem hér kemur fram nú. En ef því er slegið föstu hér, þá verð ég að segja það, að það hefur ekki lítil blóðtaka verið tekin frá þeim stéttum, sem falið hefur verið þetta verkefni meðal þjóðarinnar, hvort sem það eru kaupfélög eða kaupmenn, að Alþ. hefur verið látið þvinga þá til að lúta fyrirmælum fjárhagsráðs og viðskiptaráðs um að leggja það miklu minna á vöruna, en hefði verið sanngjarnt og eðlilegt til þess, að sá atvinnuvegur væri rekinn. En till. hv. 6. landsk. þm. nú verður ekki skilin undir neinum kringumstæðum á neinn annan veg en þann, að það hefði verið eðlilegt að hækka þá álagningu um 50% frá því, sem þá var.

Ég vil svo vænta þess, að mín till. á þskj. 165 verði samþ. Ég er alveg viss um, að það er langsamlega ódýrast fyrir ríkissjóð, langbezti árangurinn af því fyrir þjóðina, ef hægt er að fá með henni samúð þeirra, sem bezt gera í þessum málum, og samvinnu við þá til þess að þvinga verðlagið í landinu niður.