13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

42. mál, verðlag

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það liggja hér fyrir þrjár brtt. í þessu máli, og n. sú, sem hefur haft það til athugunar og ég á í sæti, hefur rætt um þessar till. allar. Um þær hefur þó ekki orðið samkomulag, og ég fyrir mitt leyti hef ekki getað fallizt á neina þeirra, þ.e.a.s., þótt ég telji ýmis atriði í till. til bóta, þá lít ég samt sem áður þannig á, að hver þessara till. sem samþ. yrði, þá mundi það ekki verða fullnægjandi til þess að ráða bót á því ófremdarástandi, — ég leyfi mér að segja það, — því ófremdarástandi, sem verið hefur og er í verðlagsmálunum hér eins og sakir standa.

En gallinn á þessum till. öllum er í fyrsta lagi sá frá mínu sjónarmiði, að það er lagt aðeins á vald ráðh. að meta það, hvað sé óhófleg álagning og hvað ekki. Og eftir þá reynslu, sem ég tel fengna af því, — og með því get ég þá einnig fyrir mitt leyti svarað hæstv. ráðh. þeirri fsp., sem hann beindi til hv. 6. landsk. áðan um það, hvort hann talaði í umboði n., þegar hann var að áfellast ráðh. fyrir hans framkvæmd á þessum málum, — vil ég svara fyrir mitt leyti því, að ég tel, að það mat, sem hæstv. ráðh. hefur á þetta lagt undanfarið, sé engan veginn viðhlítandi. Það hafa verið birt hér í blöðum ótal dæmi um það, sem ég tel mjög óhóflega álagningu og er það í augum almennings, að ég hygg, en hæstv. ráðh. hefur hins vegar við ýmis tækifæri hamrað á því, að það sé aðeins í örfáum undantekningartilfellum, sem álagningin hafi verið óhófleg. Samkvæmt því mati hans tel ég það með öllu ófullnægjandi, þó að samþ. væru þær till., sem hér liggja fyrir um það, að birt skuli nöfn þeirra manna, sem að dómi þessa hæstv. ráðh. leggja óhæfilega á vöru sína.

Í öðru lagi hef ég líka það að athuga við þessar till., að þær eru allar saman miðaðar einungis við það, hvort mikið eða lítið sé lagt á vöruna. En eins og gefur að skilja og hv. þm. vafalaust er ljóst, þá er álagningin ein út af fyrir sig engan veginu fullgildur mælikvarði á vöruverðið. Það er þó auðvitað fyrst og fremst vöruverðið sjálft, sem skiptir máli í þessu efni, það verð, sem fólk verður að borga fyrir vöruna. En hitt er meira aukaatriði, hvort meira eða minna hefur verið lagt á vöruna, ef fólkið aðeins fær hana með viðhlítandi verði. En það er hins vegar augljóst, að slík tilfelli getur hæglega borið að, að vara, sem hefur verið keypt inn með hagkvæmum kjörum, er seld út með tiltölulega hagkvæmum kjörum líka, jafnvel þó að allmikið hafi verið lagt á hana, og getur í ýmsum tilfellum verið ódýrari í útsölu þrátt fyrir álagninguna heldur en vara, sem hefur verið keypt inn miklu hærra verði og þess vegna ekki hægt að leggja nema lítið á hana og selja hana þó ef til vill dýrar en hina vöruna. Þannig er það augljóst, að álagningin ein út af fyrir sig er, eins og ég sagði, engan veginn fullgildur mælíkvarði á verð vörunnar. Ég álít þess vegna, eins og ég hef þegar sagt, að þær till., sem hérna liggja fyrir og eru eingöngu miðaðar við það, að birt skuli nöfn þeirra manna, sem leggja óleyfilega á vöruna, séu ekki fullnægjandi af þessum tvennum ástæðum, sem ég þegar hef nefnt.

Í fljótu bragði hafði ég mesta tilhneigingu til þess að fylgja till. hv. þm. Barð. á þskj. 165, vegna þess að í fljótu bragði virtist mér, að hún mundi geta orkað eitthvað í þá átt, sem hann var að tala hér um áðan, þ.e.a.s., að ef birt væru jafnframt til samanburðar nöfn þeirra manna, sem — eins og það er orðað hér — vitað væri um að lægsta hefðu álagningu á sams konar vörum, þá mundi það orka að einhverju leyti í þá átt, sem hann var að ræða um, að stofna til samkeppni meðal verzlananna um það að láta birta hjá sér sem lægst vöruverð, og þeirri hugsun væri ég algerlega sammála. En þá strandar maður aftur á þessu sama skeri, sem ég áðan var að tala um, að þetta er aðeins miðað við álagninguna og það gæti þess vegna vel komið fyrir, að þrátt fyrir lága og jafnvel lægstu álagningu hjá einni eða fleiri verzlunum væri vöruverð þeirra, útsöluverð vörunnar, jafnvel ekkert lægra, svo að ég held, að því miður nái hv. þm. ekki með þessari till. sinni þeirri hugsun og þeim tilgangi, sem hann virðist hafa viljað og var að túlka hérna áðan, og þess vegna hef ég líka komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi till. sé ekki heldur fullnægjandi og nái ekki þeim tilgangi, sem henni er ætlað og ég mundi vera mjög sammála, ef hægt væri að ná.

Ég álít þess vegna, að það sé yfirleitt ekki hægt að ná árangri í þessu efni, þ.e.a.s. þeim árangri að spyrna við of háu vöruverði með neinni af þessum till., sem hérna liggja fyrir, og ég vil þess vegna leyfa mér að leggja hér fram skriflega brtt., ekki við þessa 2. gr., sem allar brtt. eru stílaðar við, heldur við 1. gr. frv.

1. gr. frv. fjallar um það, að verðgæzlustjóri skuli fylgjast með verðlaginu í landinu, og er þar vísað til heimildar í þeim lögum, sem þessi lög eru víðauki við, þ.e. í 9. gr. laga nr. 35/1950, um það, að þeir, sem hlut eiga að máli, skuli skyldir til þess að gefa honum þær upplýsingar, sem hann telur sér nauðsynlegar til þess að geta fylgzt með vöruverðinu. Í þessum fyrirmælum eiga sem sagt að felast ákvæði um það, að verðgæzlustjórinn eigi að geta fylgzt með verðlaginu í landinu, og það á auðvitað að vera hans fyrsta og aðalverkefni. En við þessa grein vil ég svo bæta því, að á grundvelli þeirra upplýsinga, sem hann þannig aflar sér í starfi sínu, þá skuli hann með vissu tímabili — í till. minni miða ég við á þriggja mánaða fresti — birta almenningi til leiðbeiningar þær upplýsingar, sem hann þannig fær í sínu starfi. Ég vil, með leyfi forseta, leggja fram svo hljóðandi skriflega brtt. við þessa gr., að aftan við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi:

„Á þriggja mánaða fresti skal verðgæzlustjóri birta, til leiðbeiningar fyrir almenning, skýrslu um verð á helztu nauðsynjavörum almennings. Skal skýrslan fela í sér, eftir því sem við verður komið, samanburð á verði hinna ýmsu verzlana á sams konar vörum.“

Ég geri ráð fyrir, að því muni verða svarað til, að þessi skýrslusöfnun sé í fyrsta lagi umfangsmikið starf og of mikið mál til þess að birta allar þær upplýsingar, sem verðgæzlustjóri mundi fá í sambandi við þessa skýrslusöfnun, og þess vegna hef ég miðað við það, að sú skýrsla, sem hann birti, verði ekki endilega tæmandi um allar þær vörur, sem hann fær upplýsingar um, heldur verði það fyrst og fremst miðað við helztu nauðsynjavörur almennings, sem að vísu eru ekki taldar upp hér í till. Ég tel ekki þörf á því. Það er nokkurn veginn málvenja um það, hvað séu helztu nauðsynjavöruflokkar, og ég geri ráð fyrir, að verðgæzlustjóri gæti vel fundið það út, hvað langt þyrfti að ganga í því efni, til þess að næðist sá tilgangur, sem í till. felst, en sá tilgangur er í stuttu máli sá, sem ég áður hef drepið á, að almenningur fái að vita um verðlagið á þessum helztu nauðsynjavörum sínum og fái birta um það skýrslu, til þess að hann geti séð það svart á hvítu og gert samanburð á verði á þessum vörum, bæði á ýmsum stöðum á landinu og í ýmsum verzlunum á sama stað, til þess að fólk þurfi ekki, eins og nú er í raun og veru óhjákvæmileg nauðsyn, ef fólk ætlar að fara út og kaupa einhvern hlut, að ganga úr einni verzluninni í aðra um allan bæinn til þess að leita upplýsinga um verðið og bera það saman, því að annars á maður á hættu að kaupa hlutinn miklu hærra verði heldur en hann er fáanlegur fyrir annars staðar. Það hafa menn áreiðanlega rekið sig á, allir þeir, sem þurft hafa að fara í búðir til að verzla. En með því að fá frá þeim opinbera embættismanni, sem sérstaklega hefur það með höndum að safna upplýsingum um verðlagið, birtar slíkar skýrslur, þótt ekki væri nema á þriggja mánaða fresti, þá mundi vinnast tvennt. Í fyrsta lagi, að almenningur fengi að vita, hvar hægt er að fá vöruna ódýrasta, og að hinu leytinu væri stofnað til þeirrar samkeppni á milli verzlananna, sem hv. þm. Barð. vildi ná með sinni till., og þetta mundi þannig verða til þess að fá fram a.m.k. miklu meira samræmi á verðlaginu heldur en nú er, og það er höfuðverkefnið, sem liggur fyrir í þessu efni að minni hyggju. Ég vænti þess vegna, að þessari brtt. verði vel tekið, þó að hún komi fram nú í raun og veru á síðustu stundu og hv. þdm. hafi þess vegna ekki fengið tækifæri til að athuga hana eins og kannske hefði verið æskilegt.