13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

42. mál, verðlag

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forsetl. Ég ætla að byrja á því að svara fyrirspurn hæstv. ráðh. um það, hvort hv. 6. landsk. þm. hefði talað sem umboðsmaður allshn., þegar hann lét þau orð falla, að sú brtt., sem hér væri fram komin, væri flutt sem sérstakt vantraust á ráðherra í þessu máli. Það gerði hann ekki, og ég hygg, að ef ég lýsi því, hvernig málið hefur verið rekið í nefndinni, þá skýrist þetta betur en með frekari fullyrðingum.

Eins og ég sagði áður, þá var frv. afgreitt án þess, að fram kæmu till. um breytingar á því í byrjun, þ.e.a.s. með þeim fyrirvara, sem hv. 6. landsk. þm. hafði um að bera fram brtt. M.ö.o. var nefndin á einu máli um það, að hæstv. ráðh. væri trúandi til þess með þeirri heimild, sem í lögunum felst, að gera þetta, en eins og ég sagði í minni ræðu, hefðum við náttúrlega sum gjarnan viljað kveða örlítið fastar að orði, og þarf ekkert að felast í því annað en bara það, að Alþ. láti vilja sinn í ljós um það, hvern hátt það vill hafa á þessum málum. Þegar svo voru komnar fram tvær till. í þessari hv. deild, þar sem einmitt var snúizt á þá sveifina, þá eins og ég sagði í minni fyrri ræðu — tókum við tvö einmitt upp það sama sem í þeim till. fólst að þessu leyti, en ég tek það fram, að það er bara til þess að túlka vilja hæstv. Alþ. ákveðnar, án þess að það felist í því nokkurt vantraust á hæstv. ráðh. hvað þetta atriði snertir, og hygg ég, að einmitt það, að nefndin öll var á sínum tíma sammála um að mæla með frv. óbreyttu, sýni þetta.

Hv. þm. Barð. talaði til mín sem frsm. n. eins og ég hefði verið að túlka hans till. á sérstakan hátt. Það var ekki meining mín að gera það. Ég reyndi að skýra hlutlaust frá því, sem kom fram í nefndinni varðandi þessa till., og að vísu var það líka mitt sjónarmið, en ég held ég hafi ekki reynt að túlka hana á nokkurn sérstakan hátt, heldur aðeins farið eftir því, hver voru sjónarmið nefndarmanna að þessu leyti. En mér fannst nú, að í hans ræðu, þegar hann var að lýsa því, hvernig hann hugsar sér framkvæmd till., felist einmitt samþykki á því, sem fram hafði komið í nefndinni, að till. þessi yrði allerfið í framkvæmd. Hann talaði um í ræðu sinni, að hann meinti ekki eina ákveðna vörutegund. En ég hef nú skilið það svo, — það er kannske rangskilið, — að t.d. þegar hugsað er um birtingu á nöfnum þeirra, sem uppvísir verða að óhóflegri álagningu, þá sé hugsað að miða ekki við heildarverðlag hjá þeim, sem til greina koma, heldur við álagningu á eina sérstaka vörutegund eða einhvern sérstakan vöruflokk. Og við gátum ekki annað skilið í nefndinni, eða það var minn skilningur, að till. hv. þm. Barð. ætti að þessu leyti alveg hreint við það sama, að það væri um að ræða sérstakar vörutegundir, vöru eða þjónustu, sem frjálst verðlag er á, alveg á sama hátt og hugsað er með birtingunni, þegar um óhóflega álagningu er að ræða, en ekki að það sé meiningin að taka heildarverðlagið hjá einhverjum fyrirtækjum og jafna því og birta það svo þannig, en það virtist mér koma fram af hans ræðu, þegar hann talaði um það, að hann meinti ekki, að það væri talað um eina ákveðna vörutegund, heldur vöruverð yfirleitt. En þá held ég, að þessi till. hefði þurft að vera allt öðruvísi, en hún er, ef það hefur verið meiningin með henni.

Hv. þm. Barð. minntist á eitt atriði, sem ég álit að sé mjög mikilsvert í sambandi við verðlagningu, og það er það, að birt sé í gluggum verzlana, sem hafa vörur til sýnis, verð á þeim vörum, sem þar eru. Vildi ég nú leyfa mér að leita upplýsinga um það hjá hæstv. ráðh., hvort ekki séu til lög eða reglugerðir, þar sem þetta sé fyrirskipað, þannig að hægt sé að fá framkvæmd á þessu nú þegar, en það mundi hafa mjög mikla þýðingu í sambandi við verðlagið og að minnsta kosti spara mönnum ákaflega mikið erfiði við það að bera saman verðið, ef það væri í gluggum a.m.k. á þeim vörum, sem þar eru sýndar.

Hv. 6. landsk. þm. gerði þá fyrirspurn til mín og hv. 1. þm. N–M., hvað við álitum óhóflega álagningu. Ég get sagt það sem mína skoðun, að ég held, að það sé mjög erfitt að setja upp einhverja alveg sérstaka línu fyrir álagningu og miða við, að það eigi að vera sama álagning á allar vörur, hverjar sem eru, og segja svo: Þetta skal markið vera, og þar fyrir ofan er óhófleg og þar fyrir neðan er hófleg álagning. — Hann virðist hafa gert sér hugmyndir um, hvað sé hófleg álagning, og kemur það fram af till. hans, en það get ég sagt honum, að á margar vörutegundir álít ég það mjög óhóflega álagningu, sem hann vill setja þarna að marki og mundi í framkvæmdinni verða löggilding á álagningu. Þessu get ég svarað, þó að ég treysti mér ekki til þess að segja núna, að það sé til nákvæmt mark um það, hvað eigi að vera álagning fyrir allar vörur. Það vita þeir, sem fara með þessi mál, að það er of vandasamt til þess, að hægt sé að segja það með einu orði. En ég undirstrika það, að ég tel það álagningarmark, sem hv. 6. landsk. þm. er með í sínum till., vera óhóflegt, ef það á að gilda fyrir allar vörur.