13.11.1952
Efri deild: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

42. mál, verðlag

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. (StgrA) bar hér fram skriflega brtt., sem ekki hefur verið útbýtt, svo að hv. þm. hafa ekki haft aðgang að henni, en aðeins heyrt hana lesna úr forsetastól. Ég tel nú ákaflega einkennilegt, eftir að þetta mál hefur verið í n., að slík till. skuli ekki hafa komið fram fyrr og þá um leið fengizt vitneskja um það, hvernig n. tæki till. Mér þætti ekkert ólíklegt, að hv. form. n. bæði um frestun á þessari umr., sem er siðasta umr. í d., til þess að n. athugaði, hvort hún gæti annaðhvort fylgt þessari till., sem óneitanlega breytir allmiklu í málinu, ef hún yrði samþ., hvort hún gæti betrumbætt hana eða hvort hún leggur til, hinum hv. þm. til leiðbeiningar, að till. sé felld. Mér er alveg ljóst, að ekki verða síður erfiðleikar á framkvæmd þeirrar till. heldur en þeirrar, sem ég ber hér fram, þótt hv. þm. treysti sér ekki til að fylgja henni, eftir því sem hann lýsti yfir áðan. En það er sýnilegt, að það er skylda n., að öll stig málsins séu þar rædd, áður en til atkvgr. kemur á þessu síðasta stigi málsins, því að til þess eru n. að leiðbeina öðrum hv. þm., sem ekki hafa haft tækifæri til þess að setja sig svo náið inn í málin eins og n. ber að gera. Skal ég ekki ræða meira um það atriði.

Ég vil hins vegar ræða ofurlítið um þá hlið málsins, sem hv. 4. landsk. (StgrA) minntist á, en það er innkaupsverðið. Það er alveg rétt, að það er ekki einasta álagningin, heldur og innkaupsverðið, sem ræður verðlaginu. Það er einmitt þess vegna, sem þetta mál er svo flókið. Og það er einmitt þess vegna, sem innflutningshöftin báru í sér dauðann sjálf á sínum tíma. Þegar verðlagið var undir eftirliti fjárhagsráðs og verðlagsstjórnar og hámarksverðiag var sett á hverja vöru, þá var aldrei tekið tillit til þess í verðlagningunni, hvernig innkaupin voru. Maður, sem gat gert heimingi hagkvæmari innkaup en aðrir, fékk ekki að njóta þess. Hann fékk aðeins að leggja sömu prósentálagningu á sín hagkvæmu innkaup eins og hinn, sem hafði gert óhagkvæm kaup. Það er vitað, að þetta er rétt. Maður, sem gat keypt inn sama vörumagn fyrir 50 þús. eins og hinn, sem gaf fyrir það 100 þús., var ekki látinn njóta þess. Báðir fengu að leggja á sama hundraðshluta, segjum t.d. 10%. Kostaði þá sama vara hjá öðrum aðila 110 þús., en hjá hinum ekki nema 55, og þrátt fyrir það fékk hann ekki að njóta hagsýni sinnar í auknum innflutningi. Leiddi það til þess, að menn voru ekkert að leggja sig í líma til þess að kaupa inn með hagkvæmum kjörum. Út úr þessum staðreyndum kom svo ákvæðið inn í frv. um fjárhagsráð, að þeir skyldu njóta innflutningsins, sem hagkvæmust gætu gert innkaupin. En þessu ákvæði hefur aldrei verið framfylgt. Innkaupin hafa verið og eru enn í höndum mjög stórra verzlunaraðila, bæði heildsala og sambanda, og það hefur aldrei verið út af fyrir sig farið eftir því, hvað þessir aðilar gætu gert hagkvæm innkaup. Það hefur ekki eingöngu verið fjárhagsráð, sem þar hefur getað ráðið um, heldur og t.d. bankarnir, svo og ýmsar aðstæður, sem hafa verið þess valdandi, að það hefur ekki verið hægt að veita innflutningnum til þeirra aðila, sem á hverjum tíma gátu gert hagkvæmustu innkaupin.

Í sambandi við ummæli hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), sem sagði, að hann héldi, að till. mín hefði þurft að vera öðruvísi, ef hún hefði átt að gilda um verðlagið almennt, — og það sama kom einnig fram hjá hv. 6. landsk. (GÍG), — vildi ég gjarnan fá upplýst, hvort það er hugsun þessara hv. þm., ef það kæmi fram við rannsókn, að eitthvert verzlunarfyrirtæki hefði lagt of háa álagningu á eina vöru, þá skyldi það skoðast sem okur. Segjum, að það hefði á þessari einu vörutegund, sem ef til vill væri litið magn, þénað óhóflega, t.d. 500–600 kr., eða jafnvel 5–6 þús. kr., en þetta sama fyrirtæki hefði hins vegar getað fært að því rök, að á öllum öðrum vörutegundum eða meginþorra af öðrum vörutegundum, sem það verzlaði með, væri álagningin fyrir neðan þá álagningu, sem aðrir legðu á almennt. Væri þá nokkur grundvöllur fyrir því að birta nöfn þessara manna og stimpla þá sem svartamarkaðsbraskara fyrir að hafa lagt um of — kannske af einhverjum sérstökum ástæðum, kannske af óaðgæzlu — á eina vörutegund með sáralitlum ágóða, en hafa hins vegar veitt þjóðinni mjög mikil verðlagsfríðindi með því að halda niðri álagningu á meginþorra þeirra vara, sem þeir væru að verzla með? Ég hygg, að það yrði engum ráðh. stætt á því að ætla sér að beita þannig lagaákvæðinu, jafnvel þó að hægt væri að sanna með fullum rökum, að viðkomandi aðila hefði orðið þetta á. En ef ekki er ætlazt til, að þetta sé þannig, eins og ég hef þegar lýst, þá er því síður hægt að ætla það, að einhver maður gæti fengið sitt nafn auglýst sem kaupmaður með lágri álagningu, þó að hann hefði getað sýnt það, að álagning væri lítil á einhverri einni verzlunarvöru, því að með þessu móti gæti það komið fyrir, að sami maður sem annan dag eða jafnvel sama daginn hefði lagt of mikið á eina vöru yrði auglýstur sem okrari fyrir það, en væri þá einnig viðurkenndur fyrir að hafa lægsta álagningu á aðra vöru. Mér hefur því aldrei komið til hugar, að þessi yrði framkvæmdin á, en það virðist ekki einasta vaka fyrir hv. allshn., heldur og einnig jafnvel fyrir hæstv. ráðh., þó að hann færi ekki langt inn á þetta atriði. Það virðist vaka fyrir þessum mönnum, að það sé eingöngu farið eftir einhverri einni ákveðinni vörutegund. En þetta fær alls ekki staðizt undir neinum kringumstæðum. Slíkum tökum væri ekki hægt að taka málið. Og þegar hv. 8. þm. Reykv. og hv. 1. þm. N–M. eru mótfallnir því að samþ. mína till., þá getur það ekki verið af öðru, en hræðslu við það, að m.a. kaupfélögin, sem menn vita að eru miklu hærri almennt í vöruálagningu úti á landinu heldur en kaupmenn, þó að þau séu ekki neitt fyrir ofan það takmark, sem hér hefur verið rætt, séu ekki samkeppnisfær í verzluninni. Þeirra andúð við mína till. getur ekki skapazt af neinu öðru, heldur en fullvissunni um það, að kaupfélögin nú orðið geti ekki verið jafnlág í vöruverði og einstaklingar, og þau vilji þar af leiðandi ekki láta þau sannindi komast upp opinberlega. Þetta er eina ástæðan, sem getur verið frambærileg, til þess að þeir vilji ekki fylgja till. minni. Það furðar mig reyndar ekki, þegar vitað er, að víðast hvar á landinu eru kaupfélögin svo langt fyrir ofan í öllu almennu verðlagi, að það er talið jafnvel borga sig að senda langar leiðir eftir vöru til þess að kaupa hana hjá kaupmönnunum og selja hana samt sem áður ódýrari við hliðina á kaupfélögunum, þar sem þau eru orðin einvöld í héruðunum um vöruverð. Ég vil nú benda þessum hv. þm. á það, að þeir eru ekki hér þm. á þingi aðeins til þess að vernda slíkt okur, hvort sem það væri frá kaupmönnum eða kaupfélögum, heldur til þess að vinna fyrir hagsmuni sinnar þjóðar.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri mjög æskilegt að veita þeim mönnum einhverja viðurkenningu, eins og ég ætlaðist til með minni till., sem þannig hefðu hagað sér í álagningu. Hér kemur fram einnig hjá hæstv. ráðh. afar mikill misskilningur á þeirri hugsun, sem liggur á bak við mína till. Ég hef enga tilhneigingu til þess að veita sérstaka viðurkenningu þessum mönnum. Ég hef hins vegar mikla tilhneigingu til þess að færa málið í það horf, að þeir hjálpi til að fá vöruverðið niður í landinu og almenningur viti, að til þeirra eigi hann að leita. Þá þarf enga viðurkenningu hér frá Alþ. til þeirra. Viðurkenningin kemur þá fyrst og fremst fram í því, að viðskiptamennirnir hópast þangað, þeirra viðskipti verða örari og þeirra hagur betri. — Það er alveg misskilningur, eins og ég hef margtekið hér fram, að það sé nokkrum erfiðleikum bundið að framkvæma þessa till. Og það er alveg misskilningur hjá hv. 8. þm. Reykv., þegar hann skildi þannig mín orð, að ég hefði sjálfur verið að halda því fram og sanna það með mínum orðum, að þetta væri erfiðleikum bundið. Þetta er hreinn misskilningur. Það er auðvelt með þeim aðferðum, sem ég minntist hér á áðan. Og með þeim stofnunum, sem fyrir eru hér í Reykjavík til þess að afla sér upplýsinga um verðlag, er það eðlilegt að komast að raun um, hvaða verzlanir það eru, sem hafa hæfilega álagningu. En það þarf að sjálfsögðu að komast út úr kolli þeirra hv. þm., sem enn þá hafa þá einu hugsun, að hér sé átt við eina og eina vörutegund, en ekki verðlagið almennt, því að það er ekki hin eina vörutegund í landinu, sem er afgerandi aðili í þessu atriði um verðlagið. Það er hið almenna verðlag yfirleitt.

Hv. 6. landsk. sagði, að í þessari till. sinni væri engin viðurkenning fyrir því, að álagningin áður hefði verið of lág. Í sambandi við það minntist hann einnig á, að aðstæðurnar núna hefðu breytzt mjög mikið, m.a. væri veltan miklu meiri og þar af leiðandi væri ágóðinn til þessara manna einnig miklu meiri. Ég verð nú að benda á það, að ef leyfð hefur verið 5% álagning áður, eins og hæstv. ráðh. var að tala um, og hún hefði verið nægjanleg til þess að reka þá atvinnugrein, þá hefði, af því að veltan hefði aukizt, segjum um 100%, ekki þurft að auka þessa álagningu, heldur fyndist mér, að þá væri þó ástæða til að minnka hana enn, þar sem viðkomandi aðili hefur þá meiri tekjur af mjög aukinni veltu. Þess vegna sýnist mér, að það hnigi öll rök að því, að ekki einasta hafi hún verið svo of lág, að nú þurfi að bæta við hana 50%, eins og kemur fram í till. hjá hv. 6. landsk., heldur þurfi einnig við þetta að bætast sú staðreynd, að hann þurfi að fá enn miklu meiri veltu, en hann hafði þá til þess að geta þolað að reka þennan atvinnuveg, og það séu enn sterkari rök fyrir því, þegar hann hefur haldið þessa ræðu, að álagningin áður hafi verið allt of lág. Ég ætla engan dóm að fella um það, hvort hún hefur verið það, en mér skilst, að allar ræður hv. 6. landsk. um þetta atriði hnígi að því, að það sé hans skoðun, að þessi álagning hafi verið svo mjög of lág sem hér þegar hefur verið lýst. Ég skal hins vegar í sambandi við verðlagsákvæðin leyfa mér að benda hér á eitt mjög skýrt dæmi. Þegar verðlagsákvæðin voru sett á þjónustu hér í þessu landi, eftir að síðasta stríð brauzt út, þá var m.a. heimilað að leggja 45% á alla þá vinnu, sem trésmíðastöðvar inntu af hendi, og það jafnvel upp í 60%. Ég hef haft nokkra þekkingu á þessum málum núna í nærri 30 ár, þar sem flestir reikningar frá skipasmíðastöðvum, a.m.k. hér í Reykjavik og viðar af landinu, hafa farið um mínar hendur. Þar til þetta ákvæði kom inn, sem sett var í lög, var aldrei nokkru sinni samþ. af okkur, sem höfðum með það að gera, meira en 15% álagning á slíka þjónustu. Þegar þetta var lögboðið, var þetta fært upp í 45%. Og það datt engri skipasmíðastöð eða trésmiðaverkstæði í hug að fara niður fyrir það. Þeir veifuðu framan í okkur lögunum og sögðu: Hér er ákveðið, að okkar álagning megi vera 45%, og þið hafið síðan ekki neitt um það mál að segja. — Í sambandi við járnsmiðjurnar var aldrei farið áður yfir 40%, en með lögunum var þeim leyft að fara upp í 60%, og síðan er komin sú hefð á vegna þeirra lagaákvæða, að þessu er ekki hægt að þoka niður, jafnvel þó að það sé búið að létta af þessum ákvæðum. Þessi hafa nú áhrifin orðið á þessa þjónustu í þjóðfélaginu. Og svo mun og hafa orðið um ýmsar aðrar greinar. Þetta sýnir bezt, hversu það er hættulegt fyrir þjóðfélagið að leyfa ekki frjálsa samkeppni um þjónustu og verzlun í landinu. Nú vill hv. 6. landsk. enn leyfa alveg óátalið að hækka þessa álagningu um 50%, án þess að nöfn þessara manna séu birt eða að það sé skylt að gera það. Og það væri þá sama sem þeir væru komnir upp í 90% álagningu í staðinn fyrir 60 og nærri 70% í staðinn fyrir 15%, sem venja var áður en álagningin var lögbundin eða verðlagsákvæðin voru sett.

Ég skal svo aðeins að síðustu leyfa mér að benda á, að í sambandi við öll ummæli hv. 6. landsk. og Alþfl. um verðlagið í landinu hafa þeir gleymt alltaf til samanburðar að taka einn ákaflega stóran lið eða vísvitandi ekki viljað minnast á það, og það er svartamarkaðsverðið. Hvað var svartamarkaðsverðið mikill hluti af verðlaginu, sem þjóðin varð að greiða, á meðan þetta allt var í böndum? Hvaða tölur eru til um það, hvað menn greiddu á bak við tjöldin til þess að fá vöruna, sumpart í hreinum peningum og sumpart í alls konar fríðindum, jafnvel pólitískt fylgi var þá gjaldmiðill á svartamarkaðinum hjá þessum ágæta flokki, Alþfl., í sambandi við þessi mál? Það var ákaflega þægilegt að hafa þessi höft, þessa skipun málanna, svo að viðskmrh., sem var úr hópi Alþfl., gæti beitt þeim áróðri skefjalaust. En um þetta liggja engar skýrslur. Að þessi álagning, sem þannig var lögð á, var miklu hærri en álagning, sem lögð var á nokkra vöru síðan verzlunin varð frjáls, er öllum kunnugt.