20.11.1952
Efri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

42. mál, verðlag

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það hefur nú hent mig eins og of oft skeður að dómi hæstv. forseta, — ég hef ekki getað verið við allar þessar umræður, — en mér skilst, að það sé skilsmunur á till. hér frá hv. þm. Barð. annars vegar og hv. þm. N–M. hins vegar, aðallega sá, að annar vill, að það sé einnig birt, hverjir hafa lægsta álagningu, en hinir vilja halda sér að því, að það sé einungis birting á hæstu álagningu, þeirri, sem talin er óhæfileg. Nú þætti mér fróðlegt að heyra, hvaða rök eru á móti því, að almenningur fái einnig vitneskju um þá álagningu, sem lægst er. Mundi það ekki vera bezta leiðbeiningin fyrir menn að fá vitneskju um það, hverjir selja ódýrast? Eða eru einhverjir tæknilegir gallar á þessu? Og eru þá meiri tæknilegir gallar á því heldur en hinu, að birta yfirleitt nokkuð um málið? Mér skilst, að það hljóti að vera jafnauðvelt að gera sér grein fyrir, hver sé lægstur, eins og hver sé hæstur. Og þar sem ætlunin er auðvitað ekki sú að reyna að ná sér niðri á einhverjum einstökum mönnum í þessu sambandi, heldur veita mönnum aðhald og örva til eðlilegrar keppni á annan bóginn og á hinn að veita almenningi leiðbeiningu um, hverja beri að forðast, og þá ekki síður hitt og allra helzt, hverja helzt beri að sækja að viðskiptum, þá finnst mér, að brtt. hv. þm. Barð. beri af, og meðan ég heyri ekki rök á móti, þá mundi ég telja rétt að styðja hana.