21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Áður en mál þetta fer til n., langar mig til þess að beina fáeinum fyrirspurnum til hæstv. viðskmrh. Í gildandi l. er ráð fyrir því gert, að viðskmrn. hafi heimild til þess að birta almenningi upplýsingar um það, ef milliliðir gerast sekir um óhóflega álagningu. Engin birting á nöfnum þeirra, sem gerzt hafa sekir um slíkt, hefur enn átt sér stað. Og mér vitanlega hefur hæstv. viðskmrh. ekki enn þá gefið neinar upplýsingar um það, hvaða álagningu bann telur óhóflega. Nú er gert ráð fyrir því í þessu lagafrumvarpi, að þessi heimild verði gerð að skyldu, og er það vissulega ekki að ástæðulausu, að heimildinni er breytt í skyldu. En þeim mun ríkari ástæða er til þess að fá um það glögga vitneskju, hvað hið háa viðskmrn. telur óhóflega álagningu.

Í síðustu skýrslu verðgæzlustjóra eru mörg dæmi um álagningu. Þar er t.d. skýrt frá 291/2% heildsöluálagningu á léreft. Þar er skýrt frá 32.3% heildsöluálagningu á bómullarefni, frá 28.4% heildsöluálagningu á aðra sendingu af bómullarefni og 38.3% heildsöluálagningu á þriðju sendinguna af bómullarefni. Þar er skýrt frá 27% álagningu á borðdúka í heildsölu. Þar er skýrt frá 35% álagningu á tvinna og 34% heildsöluálagningu á aðra sendingu af tvinna. Þar er skýrt frá 34% heildsöluálagningu á raksápu, og þar er skýrt frá 42% heildsöluálagningu á aðra tegund af sápu. Þar er skýrt frá álagningu á sokka frá 21% og upp í 70% í heildsölu. Þar er skýrt frá 70% heildsöluálagningu á kvenveski, og þar er skýrt frá 60% heildsöluálagningu á fótbolta. Ég gæti haldið áfram alllengi að lesa slíkar tölur um álagningu í heildsölu, sem ég held að allur almenningur og raunar kaupsýslumenn líka hljóti að telja óhóflega. Ég undrast það mjög, ef hið háa viðskmrn. er á annarri skoðun um þetta efni.

Áður en mál þetta fer til nefndar, er nauðsynlegt að vita, hvernig nefnd á að taka á því, að það fáist skýrt og greinilega úr því skorið, hvort hæstv. viðskmrh. telur þessa álagningu, sem hans eigin embættismaður hefur birt opinberar upplýsingar um, hóflega eða óhóflega. Það þýðir náttúrlega ekki fyrir Alþ. að leggja skyldu á hið háa viðskmrn. til þess að birta upplýsingar um óhóflega álagningu, ef hann teldi hvaða álagningu sem er vera hóflega. Þá verður Alþ. auðvitað að setja skýr og glögg ákvæði inn í frv. um það, hvað skuli teljast óhófleg álagning. Þess vegna tel ég, að meðferð þessa frv. í n. hljóti að verða komin undir því, hvað hæstv. viðskmrh. vill segja um skoðun sína á því, hvað sé óhófleg álagning, og hvernig hann hugsar sér að framkvæma þá skyldu, sem Ed. er nú búin að leggja ráðuneyti hans á herðar.

Það voru birtar um það upplýsingar í blöðum fyrir nokkrum vikum, að viðskmrn. hefði í undirbúningi birtingu á nöfnum nokkurra manna, sem það teldi hafa gerzt seka um óhóflega álagningu. Síðan hefur alllangur tími liðið, og engin slík opinber skýrsla hefur birzt um málið. Mig langar enn fremur til þess að spyrja: Hvað veldur þessu? Er birting einhverra slíkra nafna í aðsigi eða ekki? Hafi slíkt birting verið fyrirhuguð, en verið hætt við hana, hver er þá orsökin til þess?

Svo langt var gengið, að frá því var skýrt í blöðum, að verðgæzlustjóri hefði fengið fyrirmæli um það að birta nöfn, en að hann skyldi skrifa hlutaðeigendum og biðja þá um skýringar á álagningu sinni. Er þetta kannske ástæðan til þess, að dráttur hefur orðið á birtingunni? Er ástæðan einvörðungu sú, að þeim bréfum hafi enn ekki verið svarað, og er þannig von á birtingunni, eða hefur af einhverjum ástæðum verið hætt algerlega við hana? Þetta tel ég alveg nauðsynlegt að upplýst verði í málinu, áður en það fer til n., og vona, að hæstv. viðskmrh. gefi hér glögg og skýr svör.