21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

42. mál, verðlag

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa 1. umr. um málið að ráði og alls ekki gera hana að neins konar eldhúsumr. yfir hæstv. viðskmrh., en hann virðist fátt óttast meira, þar eð það kemur hér varla nokkurt mál, sem hann snertir, til umr., án þess að hann hafi orð á því, að stjórnarandstaðan sé að reyna að gera málið að eins konar eldhúsumr. yfir sér.

Annars verð ég að segja það, að inntakið í helztu ræðunum, sem hæstv. ráðh. flytur um þau mál, sem snerta hans verkahring, er eiginlega næsta undarlegt. Fyrir nokkrum dögum var til umr. till., sem fjallaði um iðnaðarmál, –hæstv. ráðh. er sem kunnugt er iðnaðarmálaráðh., — og niðurlagsorðin í ræðu hans um það mál voru, sem frægt er nú orðið: Það er allt í lagi í iðnaðinum. — Inntakið í ræðunni var þó að skýra frá því, að vinnustundum í iðnaði hefði nú á skömmum tíma fækkað um hvorki meira né minna en 12%, sem svarar til þess, að um 3% fækkun á vinnustundum í landinu í heild væri að ræða, þ.e.a.s. gífurlega aukningu atvinnuleysis. Þrátt fyrir þetta vildi hæstv. ráðh. segja, að allt væri í lagi í iðnaðinum og ekki ástæða til að kvarta yfir neinu á því sviði. Dálítið svipað segir hann nú um verðlagsmálin. Þó að hann sé sjálfur að játa það í ræðu sinni, að skýrslur hans eigin embættismanns, verðgæzlustjóra, sýni óhóflega okurálagningu á hverjum vöruflokknum á fætur öðrum, þá eru samt sem áður ályktunarorðin í ræðu hans þessi: Það er allt í lagi í verðlagsmálunum. — Þannig er allt á eina bókina lært hjá hæstv. viðskmrh. Jafnvel þó að hann játi með öðru orðinu, að mikil mistök eigi sér stað í þeim málefnaflokkum, sem undir hann heyra, þá lýkur hann ræðum sínum samt með því að segja: Það er allt í bezta lagi.

Hæstv. ráðh. gaf engin skýr svör við því, hvaða skilning hann ætlaði að leggja í það, hvað væri óhófleg álagning. En ég endurtek það og vil beina því sérstaklega til þeirrar n., sem þetta mál fer til, að það nær engri átt, að Alþ. skyldi ríkisstj. til þess að birta upplýsingar um það, hverjir leggi óhóflega á, nema ríkisstj. skýri jafnframt frá því, hvaða skilning hún ætlar að leggja í það, hvað sé óhófleg álagning. Skyldan hlýtur að þýða það, að Alþ. vill láta almenning fá vitneskju um það, ef óeðlilega er lagt á vörur, og þá dugir ekki að láta ríkisstj. komast upp með það að hafa í sæti viðskmrh. mann, sem kannske ætlar að telja það hóflegt, þó að lagt sé 100–200% á í heildsölu. En meðan hæstv. ráðh. fæst ekkert til að segja um það, hvað hann ætlar að skoða óhóflega álagningu, þá veit maður ekkert nema hann kynni að samþykkja það, þó að lagt væri 100 eða 200% á í heildsölu. Og úr þessu verður að fást skorið, hvernig hæstv. ráðh. ætlar að skilja lögin. Annars er óhjákvæmilegt að setja skýrari ákvæði inn í þau.

Þegar talað er um það, hvað skuli teljast óhófleg álagning, eru tveir möguleikar fyrir hendi. Annar er sá að ákveða eitthvert hámark á álagningu, hún megi ekki fara fram úr víssu marki í % eða kr., allt, sem er þar umfram, skuli teljast óhófleg álagning. Hinn möguleikinn er svo sá að miða við síðustu verðlagsákvæði og segja: Ef álagning kaupmanns hækkar um svo og svo mörg % eða svo og svo margar kr. umfram það, sem álagningin var síðast, meðan verðlagsákvæði voru í gildi, þá skal það teljast óhófleg álagning. — Annað hvort verður auðvitað að gera. Það er ekki hægt að hafa þetta algerlega á valdi hæstv. ráðh. eins. Það hefur reynslan undanfarið sýnt.

Ég frétti fyrir fáeinum dögum um tvo kaupsýslumenn, sem höfðu fengið tilmæli um það frá verðgæzlunni að gefa skýringar á þeirri álagningu, sem þeir höfðu beitt og hafði orðið þess valdandi, að athygli verðgæzlunnar beindist að þeim og þeir höfðu komizt á þennan lista, sem birta ætti opinberlega. Ég heyrði eftir þeim, að þeir hefðu gefið skýringar á því, hvers vegna þeir hefðu lagt svona mikið á, og ég heyrði jafnframt eftir þeim, að þeir teldu allar líkur benda til þess, að þær skýringar yrðu teknar gildar og nöfn þeirra yrðu þess vegna ekki birt, þó að álagningin í heildsölu væri mjög há. Ég heyrði enn fremur eftír þeim, að þeir hentu gaman að þessu öllu saman og segðu, að þetta væri eiginlega hálfgerð grínsaga allt saman. Fyrst heyrðu þeir, að þeir væru komnir á einhvern okurlista, sem ætti að fara að birta almenningi, og mér skilst, að þeir játuðu það, að þeir hefðu ekkert sérstakt við það að athuga, eða það væri ekkert óeðlilegt, að eftir þessari háu álagningu þeirra hefði verið tekið, en svo gæfu þeir skýringar, sem væru málamyndaskýringar, og þar með væri málinu lokið. Og annar þeirra mun hafa látið athugasemdir falla um það, að það væri engin hætta á því, að hvorki nafn hans né nokkurs annars manns yrði nokkurn tíma birt að öllu óbreyttu, þar sem svona auðvelt væri að kveða þetta í kútinn.

Þetta, sem ég nú hef skýrt frá, bendir skýrt og ótvírætt til þess, að málið má ekki vera eins og það hefur verið undanfarið, og Alþ. getur ekki heldur sætt sig við það, að málið sé afgr. eins og hér er lagt til í þessu frv. Það er ekki hægt að leggja það á vald hæstv. viðskmrh. að skera úr um, hvað skuli teljast hófleg álagning. Það verða að koma skýr ákvæði í l. um það, hvernig það skuli skilið.

Hæstv. ráðh. sagði, að mér og okkur Alþfl.-mönnum væri ekki gjarnt að tala um þá álagningu, sem væri hófleg, og nefndi matvöruálagninguna í því sambandi. Það er alveg rétt, að hvorki ég né flokksbræður mínir hér á Alþ. hafa kvartað yfir matvöruálagningunni, enda er það sannast mála, að á því sviði er samkeppni langsamlega hörðust og mest. Og ég hef aldrei borið á móti því, að ef samkeppnin gæti verið raunverulega frjáls, þá gæti það dugað til þess að halda álagningunni niðri. En hitt er annað mál, að ég sé enga ástæðu til þess að þakka það alveg sérstaklega, þó að álagning sé hófleg. Hitt er miklu eðlilegra, að undan því sé kvartað og á það sé bent, ef álagning er óhófleg. Og það hefur sannarlega ekki skort dæmi um það, eins og ég nefndi áðan. — Annars segir hæstv. ráðh., að það, sem við Alþfl.-menn tölum um, séu einvörðungu einstök dæmi, sem hann í sjálfu sér vildi ekki bera á móti að væru ekki góð, en yfirleitt sé álagningin hófleg, yfirleitt sé allt í lagi í þessum málum.

Þá vil ég enn einu sinni benda hæstv. ráðh. á það, sem ég hef áður margbent honum á, að vefnaðarvöruálagningin hefur þrefaldazt frá því, að verðlagsákvæði voru siðast í gildi. Verðlagsyfirvöld voru búin að tvíhækka þá vefnaðarvöruálagningu, sem er rétt að ég taldi orðna of litla, og þá taldi ég hana vera orðna sómasamlega og alla milliliði geta verið fullsæmda af þeirri álagningu. Samt sem áður var hún gefin frjáls, og með hvaða árangri? Allar skýrslur verðgæzlustjóra, sem birtar hafa verið, hafa sýnt sömu niðurstöðu. Álagningin hefur þrefaldazt að prósenttölu. Í krónutölu reiknað hefur hún meira en þrefaldazt, vegna þess að grundvallarverðið, sem á er lagt, hefur vaxið mjög verulega. M.ö.o., milliliðum í heildsölu hefur tekizt að meira en þrefalda tekjur sínar í krónutölu reiknaðar, á sama tíma sem tekjur launamanna hafa ekki aukizt nema að meðaltali um 50%. Og það er þetta, sem hæstv. viðskmrh. telur hóflegt og eðlilegt, þegar milliliðir í heildsölu eiga í hlut. Ég veit, að hann telur þreföldun á peningatekjum ekki hóflega, þegar launastéttir eiga í hlut.

Ég skal ekki lengja þessa umr. frekar og ekki heldur gera neina tilraun til þess að gera meðferð þessa máls, hvorki við 1., 2. né 3. umr., að neins konar eldhúsdegi yfir hæstv. ráðh. Hann þarf ekki að óttast það. Það kemur eldhúsdagur á sínum tíma, og það er áreiðanlega ástæða fyrir hann að óttast hann.