03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

6. mál, gengisskráning

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess; að ég kveð mér hljóðs, er sú, að mér skildist, að hv. 1. landsk. (GÞG) vildi láta skilja það svo, að till. hv. þm. A-Húnv. mundi benda til þess, að það væri almennt viðhorf þm. Sjálfstfl., að það ætti ekki að láta opinbera starfsmenn búa við sömu kjör og aðra launamenn. Það liggur nú auðvitað í augum uppi, að þar sem þetta frv. er borið fram af hæstv. ríkisstj., þá mun það að sjálfsögðu vera skoðun ráðh. Sjálfstfl. í þeirri stjórn, að það sé eðlilegt, að málum sé þannig skipað eins og í frv. segir. Og í annan stað hefur það einnig skýrt komið fram hér á Alþ., síðast nú á síðasta þingi, að viðhorf Sjálfstfl. almennt til þessa máls er það, að eðlilegt sé, að opinberir starfsmenn búi við sömu skilyrði og kjör varðandi greiðslu verðlagsuppbóta og aðrir launþegar í landinu búa við. Hitt er annað mál, að hv. þm. A-Húnv. hefur haft um þetta nokkra sérskoðun, sem hann befur túlkað hér, fyrr og síðar, og skal ég ekki fara langt út í þá sálma.

Ég vildi aðeins til frekari áréttingar benda á það, sem einnig hæstv. fjmrh. gat hér um áðan, að það er að sjálfsögðu eðlilegt og raunar það eina rétta, að um opinbera starfsmenn gildi sömu reglur um greiðslu uppbóta á laun þeirra og um aðra launamenn í þjóðfélaginu. Alþ. setti á sínum tíma launalög. Það getur vel verið, að sitt hafi sýnzt hverjum um það, hversu eðlilega væri þar niður skipað í launaflokka, en staðreyndin er samt sú, að þau lög voru samþykkt af Alþ. og hafa verið grundvöllur síðan að launagreiðslum til opinberra starfsmanna. Hins vegar hefur, síðan þau lög voru sett, orðið svo mikil breyting á launakjörum annarra stétta í þjóðfélaginu, að ástæða þótti til þess fyrir nokkrum árum að endurskoða þau mál mjög rækilega, og vildi þá svo til, að ég hafði formennsku í þeirri n., sem var falið að rannsaka það mál, og á grundvelli þeirra athugana voru svo ákveðnar sérstakar launauppbætur til opinberra starfsmanna, sem síðan hafa verið greiddar og eru ákveðnar árlega í fjárl. Og þessar launauppbætur sýna það ótvírætt, að það hefur verið skoðun meiri hl. hins háa Alþingis, að opinberir starfsmenn byggju við það lægri launakjör og óhagstæðari, ef miðað var við launal. sjálf, að það væri óumflýjanlegt að bæta þar eitthvað um.

Það hafa stundum komið hér fram á Alþ. till. um það að skerða rétt opinberra starfsmanna til verðlagsuppbóta, þannig að þeir byggju þar við lakari kjör en aðrir, og hefur það verið rökstutt á þeim grundvelli, að opinberir starfsmenn hefðu meira öryggi varðandi sín störf en aðrir þjóðfélagsborgarar. Þetta er að víssu leyti rétt. Það er mjög sótzt eftir föstum stöðum, ekki eingöngu hjá ríki, heldur yfirleitt föstum stöðum í þjóðfélaginu, hvort sem það er hjá því opinbera eða einstaklingum, einkafyrirtækjum, og það er auðvitað sú eðlilega staðreynd, sem liggur þar til grundvallar, að launþegar vilja gjarnan tryggja sér sem mest öryggi, og er það auðvitað eðlilegt og skiljanlegt. Að þessu leyti búa þeir auðvitað við betri aðstæður en verkamenn og aðrir launþegar, sem þurfa að sæta mjög óöruggri atvinnu og oft og tíðum búa við atvinnuleysi. En þrátt fyrir þessa staðreynd held ég að það sé erfitt að rökstyðja það, að það eigi almennt að gilda óhagstæðari launakjör og þeir að fá goldið sitt kaup eftir óhagstæðari reglum en laun almennt eru greidd eftir, því að þess er að gæta, að það eru auðvitað til ýmsir hópar manna í launþegastétt, sem hafa örugga atvinnu, þó að þeir séu ekki opinberir starfsmenn, og búa við sízt óhagstæðarí launakjör en þeir, þannig að hér yrði vitanlega ekkert réttlæti fundið með þessari vernd. Það verður einnig að hafa það í huga, að opinberir starfsmenn eru að lögum sviptir því tæki, sem aðrir launþegar hafa til þess að bæta sín kjör, en það er verkfallsrétturinn. Það er rétt fyrir löggjafarvaldið að hafa það jafnan mjög í huga, þegar um það er að ræða, hvernig eigi að búa að opinberum starfsmönnum með launakjör, að það er erfitt að synja opinberum starfsmönnum um sömu aðstöðu til að bæta sín launakjör og aðrir launþegar hafa, en jafnframt að ganga svo frá málunum, að þeir séu verr settir en aðrir launþegar. Ef á að koma við sparnaði í ríkisbúskapnum, þá er að sjálfsögðu leiðin sú að reyna að fækka opinberum starfsmönnum, en ekki fara hina leiðina, að rýra kjör þeirra meðan þeir vinna sín verkefni, hver sem þau eru. Þess vegna álít ég, að það komi ekki til neinna mála, að Alþingi geti farið inn á þá braut að ákveða með lögum, að þessi hópur launþega, sem verkfallsrétti er sviptur, skuli búa við lakari kjör en launþegar almennt varðandi verðlags- og dýrtíðaruppbætur. Þetta er sú skoðun, sem ég vildi að hér kæmi fram og ég tel nauðsynlegt að komi hér fram, einkum með hliðsjón af ummælum þeim, sem ég vitnaði hér í áðan, því að ég þykist mega fullyrða það, að innan Sjálfstfl. sé mjög mikil meirihlutaskoðun fyrir því, að sú regla skuli gilda um launauppbætur til opinberra starfsmanna, eins og kemur fram í því frv., sem hér liggur fyrir frá hæstv. ríkisstjórn.