03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

6. mál, gengisskráning

Frsm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þótti vænt um það áðan að geta hælt hv. þm. A-Húnv. (JPálm) dálítið og þóttist gera það með því að segja, að hann hefði tekið framförum síðan í fyrra í afstöðu sinni til opinberra starfsmanna. Hv. þm. vildi hins vegar ekki þiggja þetta hól, heldur sagðist hann alls ekki hafa tekið neinum framförum, heldur þvert á móti verið á undanhaldi. Þetta ber auðvitað vott um, að hann hefur enn óbreytta skoðun frá því í fyrra, að í raun og veru væri rétt að láta opinbera starfsmenn ekki fá nema 50% af þeirri verðlagsuppbót, sem aðrir launþegar í landinu hafa samningsbundinn rétt til þess að fá. Þó að hann segði þetta, þá var framhald ræðunnar það, að það væri ekki fjandskapur við opinbera starfsmenn, sem fram kæmi í afstöðu hans í fyrra og afstöðu hans núna. Ég fæ ekki séð, hvernig hægt er að rökstyðja það, að það sé ekki fjandskapur í garð stéttar að ætla henni að búa við verri kjör en allar aðrar sambærilegar stéttir í þjóðfélaginu.

Hv. 2. þm. Eyf., flokksbróðir hv. þm. A-Húnv., er mér og öðrum algerlega sammála um það og er búinn að lýsa því hér yfir, að það væri mjög óeðlilegt, ef þessi skoðun hv. þm. A-Húnv. næði fram að ganga. Hann virðist líka — og lýsti því í ræðu sinni hér áðan — telja það fjandskap í garð opinberra starfsmanna, ef skoðanir hv. þm. A-Húnv. mótuðu löggjöfina. Þess vegna held ég fast við það, að það er bein óvild í garð opinberra starfsmanna, sem í þessum skoðunum feist, og treysti því, að þær njóti ekki meira þingfylgis nú en þær nutu í fyrra, þegar hv. þm. flutti sína till. um það að skera launauppbót opinberra starfsmanna niður um helming.