09.04.1954
Efri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

184. mál, fasteignaskattur

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var upphaflega borið fram hér í þessari hv. d., þá var í því gert ráð fyrir, að þó að fasteignaskatturinn ætti á árinu 1954 að renna til sveitarsjóðanna, þá skyldu lögreglustjórar sem áður innheimta skattinn. Í þessari hv. d. var frv. fært í það form með samþykki hæstv. fjmrh., að sveitarstjórnir skyldu sjálfar innheimta skattinn. Fyrir þessari breytingu voru þá færð þau rök, að með þeim breytingum, sem verið er að samþykkja á skattalögunum, og vegna hinnar nýju vélaspjaldskrár, sem hagstofan útbýr fyrir innheimtumenn skatta, eru tök á að haga manntalsbókagjaldafærslum og innheimtu ríkissjóðsskatta hjá innheimtumönnum þannig, að nokkurt fé sparist við innheimtuna, ef þeir þurfa ekki að halda áfram að innheimta fasteignaskatt. Fasteignaskatturinn er tiltölulega mjög lágur. Hann nemur eitthvað um 340 þús. í öllu landinu utan Reykjavíkur. Hins vegar er talsvert mikil vinna við færslu hans og innheimtu, vegna þess að innheimtukerfið og skipulag hans fellur ekki saman við aðra skatta til ríkisins og manntalsbókarkerfið. Mér er t.d. kunnugt um, að í því umdæmi, sem ég er persónulega kunnugur, nemur fasteignaskatturinn í öllu umdæminu á ári um 50 þús. kr., en ef við sleppum við að leggja þennan skatt á og innheimta hann, þá getum við nú með þeim breytingum, sem verða á skattalögunum, og vegna vélabókhalds hagstofunnar sparað alltaf 20 þús. kr. á ári í sambandi við innheimtuna, ef við losnum við fasteignaskattinn. Þetta er ákaflega mikill sparnaður, auk þess sem það mundi flýta innheimtunni, þannig að ríkissjóður gæti farið að fá sínar skattatekjur þrem mánuðum fyrr en ella, ef fasteignaskatturinn væri ekki til að tefja fyrir. Þessi rök komu fram hér, þegar þetta mál var áður til umr. hér í þessari hv. d., og á þeim forsendum var sú breyting sett inn, eins og ég gat um áðan, að losa lögreglustjórana við innheimtu fasteignaskattsins, en leggja það á hendur sveitarstjórnanna.

Hv. Nd. vildi ekki fallast á þessa breytingu og færði frv. í sama horf og það var áður i. Var því aðallega borið við þar, að fasteignaskatturinn næmi svo lítilli upphæð fyrir sveitarsjóðina, að það borgaði sig varla fyrir þá að vera að eltast við hann. Ég ætla ekki að fara út í að rökræða þessi atriði hér, en allar þær röksemdir, sem komu fram við fyrri meðferð þessarar hv. d. á málinu, eiga við enn þá. Þess vegna hef ég ásamt hv. þm. V-Sk. leyft mér að bera fram aðallega þær brtt. við þetta frv., að það verði fært í sama horf og það var í, þegar það fór hér út úr deildinni. En auk þessa höfum við borið fram þá brtt. til vara, að frv. verði fært í það horf, að þó að lögreglustjórinn eigi að halda áfram að innheimta skattinn, þá skuli fasteignaskattur ekki lagður á eða innheimtur, þegar hann nemur lægri upphæð en 50 kr. á gjaldanda. Ef þetta lágmark yrði tekið upp í lögin, þá væru miklar líkur til, að hægt væri að hafa fullkomin not af vélabókhaldi hagstofunnar og sömuleiðis að hafa full not af þeim sparnaði, sem verður í innheimtu við breytingu á tekjuskattinum, þannig, að jafnvel þótt lögreglustjórar hefðu skattheimtuna áfram, þá gæti þetta lágmark orðið til þess að spara ríkissjóði innheimtukostnað, sem nemur áreiðanlega meiru en það, sem tapaðist í skattinum við að setja þetta 50 kr. mark.

Það, sem fyrst og fremst er unnið við að setja þarna lágmark og þurfa ekki að eltast við lægstu upphæðirnar, er það, að þá sleppa innheimtumennirnir við að leggja þennan skatt á smáhýsi og lendur, sem menn utan umdæmanna eiga. Það eru t.d. hér í höfuðstaðnum mörg hundruð manns, sem eiga smálönd og smásumarhýsi hingað og þangað um sýslurnar í nágrenninu. Fasteignaskatturinn er lagður á þessi hús og þessi lönd, þar sem húsin eru, en innheimtuna verður að senda til tollstjórans í Reykjavík, sem annast hana, því að þar eiga mennirnir heima. r þessu er óhemjuvinna fólgin og mikil skriffinnska og mikill eltingarleikur fyrir tollstjóra, og það er ekki nokkur vafi á því, að það, sem tapaðist með því að setja svona lágmark inn, mundi koma aftur í spöruðum vinnubrögðum og spöruðum beinum útgjöldum fyrir ríkissjóðinn. Þess vegna vil ég leggja áherzlu á, að þó að þessi hv. d. kynni ekki að sjá sér færi á að færa frv. í sama horf og það var í áður af hættu á, að því yrði aftur breytt í Nd. og málið þar með sett í hættu, þá sjái d. sér þó fært að setja á þetta lágmark, enda hefur það komið í ljós í hv. Nd., að sveitarfélögin leggja ákaflega lítið upp úr þeim tekjuauka, sem þau fá af þessum fasteignaskatti. og ætti því ekki að muna miklu, þó að lágmarkið yrði sett, enda er þessi skattur sáralítils virði fyrir sveitarfélögin. — Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri.