09.04.1954
Efri deild: 84. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

184. mál, fasteignaskattur

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. leggur áherzlu á það, að í því yrði fólginn mikill sparnaður að innheimta ekki lægri upphæðir af fasteign en 50 kr., og það er á honum að heyra, að það sé nokkuð vafasamt, að það borgi sig að taka þennan skatt, ef hann sé tekinn allur. Nú þykist ég viss um það, að ekki hefði verið neitt hróflað við þessum skatti og hann hefði verið innheimtur eins og hann hefur verið innheimtur í meira en 30 ár, ef ekki hefði komið fram till. um að láta hann renna til sveitarfélaganna. Og víst er það, að sá sparnaður, sem kann að vera að fengist samkvæmt brtt. þeirri, sem hér liggur fyrir, er aðeins sparnaður fyrir ríkið, en ekki fyrir þann, sem nú á að fá skattinn. Ég álít það í sjálfu sér óviðeigandi, að þegar ríkið ákveður að láta þennan skatt renna til sveitarfélaganna, þá geri það hann nærri því að engu um leið með því að innheimta ekki nema minnst 50 kr. af fasteign.

Hv. 10. landsk. sagði, að í stærsta hreppi í sínu umdæmi, Kópavogshreppi, mundi skatturinn samtals ekki nema öllu meira en 2000 kr. Ég á bágt með að trúa þessu, eins og ég heyri sagt að hreppurinn sé nú orðinn mikið byggður og risnar þar upp veglegar húsabyggingar og dýrar. Eftir fréttum,sem ég hef heiman úr minni byggð, Húsavík, nemur þó skatturinn þar 6000 kr., og við erum ekki stórlátari en það þar norður frá, að við teljum okkur draga það að fá 6000 kr. í tekjur. En hitt er ég alveg viss um, að eftir fasteignamati þar yrði þetta sama sem ekkert, ef samþykkt yrði varatill. Og ég tel, að það ætti að vera alveg augljóst, að það er ekki sómasamlegt fyrir ríkisins hönd að rýra þennan skatt frá því, sem er. Annaðhvort er að láta hann ganga eins og hann er til sveitarfélaganna ellegar þá að taka aftur hugmyndina um að hliðra þannig til fyrir sveitarfélögum sem átti að gera með þessu frv.

Að vísu var það svo, að ég ásamt öðrum hv. þm. í fjhn. gekk inn á sjónarmið innheimtumannanna, þegar málið var hér til fyrri umr., og með þeim ráðstöfunum, sem gerðar voru til þess að létta þeim útreikning skattsins og undirbúa innheimtu skattsins hjá sveitarfélögunum, þá sætti ég mig við afgreiðslu málsins, og ég hefði sætt mig við þá afgreiðslu enn. En það er bara sýnilegt, að ef farið yrði að samþykkja brtt. aftur, sem felldar voru í Nd., þá er málið sett í strand, engar líkur til þess, að það komist fram, og það er ekki svo stórt, að ástæða sé til þess að gera átök milli deilda um það. Þess vegna er elnboðið að samþykkja frv. óbreytt. Ég hygg, að það verði ekkert stórt erfiði né mikið tap í höndum innheimtumanna ríkisins, þó að það verði samþ., — ekkert stórt erfiði fyrir þá umfram það, sem verið hefur, né tap fyrir ríkissjóðinn umfram það, sem hann hefur áður haft af erfiðleikum við innheimtu þessa skatts í sinn sjóð.