03.11.1953
Neðri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

6. mál, gengisskráning

Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. minntist á það í sambandi við það, sem hann sagði um mína brtt. hér, að það væri ekki vert að setja opinbera starfsmenn hærra en aðra launþega. Ég get alveg fullvissað hæstv. fjmrh. um, að það væri engin hætta á, svo framarlega sem Alþingi samþykkti að greiða vísitöluuppbótina mánaðarlega, að þá mundi standa á verkalýðsfélögunum og meira að segja jafnvel ekki á atvinnurekendum að hækka samstundis við verkamenn, svo að hann þarf ekkert að óttast, að verkamenn yrðu útundan í þessu efni. Það hefur verið ein af aðalkröfum verkamanna að fá mánaðarlega vísitöluuppbót, og það er ákaflega sanngjörn krafa. Nú hefur það yfirleitt verið svo með þær kröfur, sem verkamenn hafa flutt fram, að þeir hafa almennt orðið að knýja sínar kröfur fram með löngum, dýrum og fórnfrekum verkföllum, verkföllum, sem eru fórnfrek bæði fyrir þá og fyrir þjóðfélagið. Það er alveg vitanlegt, að ef Alþingi sýndi meiri skilning á aðstöðu og réttlætiskröfum verkamanna, þá yrði komizt hjá mörgum af þessum verkföllum eða a.m.k. yrðu þau ekki eins löng og eins harðvítug og þau hafa orðið. Vaninn er venjulega sá, að í lok langra verkfalla er lausnin sú, að samþykktar eru till., sem hér eru kannske búnar að liggja fyrir Alþingi ár eftir ár og meiri hl. hér á þingi hefði getað samþ., ef hann bæri eins mikla virðingu fyrir rökum og hann hefur mikla virðingu fyrir valdi. Þess vegna væri það ákaflega æskilegt, að meiri hl. á Alþ. sýndi skilning sinn, sýndi bókstaflega viðleitni í þá átt að segja við launþegana, þegar menn nú vita, hvað aðstaða þeirra er erfið: Við viljum gjarnan koma eitthvað til móts við ykkur, án þess að það standi yfir beint allsherjarverkfall hérna fyrir utan gluggana hjá okkur. — Og þessi litla brtt., sem ég þarna flyt, fjallar um það, að starfsmenn ríkisins — því að ríkið ákveður þeirra kaup með lögum, eins og kunnugt er — skuli fá þetta mánaðarlega greitt. Það þýðir um leið, að auðvitað segja verkamannasamtökin alveg samstundis við atvinnurekendur: Þetta viljum við líka fá. — Og þegar atvinnurekendur reka sig á það, að ríkisvaldið er allt í einu farið að sýna einhvern skilning á þessum málum, þá efast ég ekki um, að þeir mundu undireins taka undir þetta, því að vaninn er, þegar verkamenn eru að semja við atvinnurekendur, að þeir segi: Ja, það er nú eiginlega lítið fyrir okkur að gera í þessu, það er ríkisvaldið, sem ræður þessu öllu saman, og ríkisstj. vill þetta ekki, hún hefur líf okkar í hendi sér, og ég held að hún drepi okkur, ef við göngum að þessu. — Þetta er svona nokkurn veginn tónninn. Sem sé, ef ríkisvaldið sjálft gengur þarna á undan, sýnir þarna, að það vill hliðra til að sínu leyti, þá efast ég ekki um, að hæstv. fjmrh. þyrfti ekki að bera kvíðboga fyrir því, að verkamenn og atvinnurekendur kæmu sér ekki saman um að feta í fótsporin. Þetta væri svo nýtt og svo nýstárlegt, að ég býst við, að báðir aðilar mundu gera það með mestu ánægju.

Það hefur greinilega verið tekið hér fram, að um leið er þetta tækifæri fyrir Alþingi, sem hefur raunverulega einræðisvald gagnvart starfsmönnum hins opinbera, til að sýna í eitt skipti sanngirni gagnvart þeim. Það er nú í mörg ár, í upp undir áratug, búið að ganga þannig til, að verkamenn, sem verða að byggja sina lífsafkomu á stopulli vinnu, hafa orðið frá því 1942, nú í 11 ár, að fara í hvert harðvítuga verkfallið á fætur öðru til þess að knýja ríkisstj. til að láta raunverulega að sínum kröfum, því að þegar öllu er á botninn hvolft, þá hafa þessar kröfur og þessi barátta fyrst og fremst beinzt að ákvörðun, sem ríkisstj. hefur gert. Árið 1942 voru það beinlínis gerðardómslög, sem ríkisstj. hafði sett, og eftir gengislækkunina munum við líka, að það varð að gera verkfall til þess að fá létt af bindandi ákvæðum, sem sett höfðu verið hér á þingi. Þess vegna væri það langeðlilegast, að Alþingi sýndi sína sanngirni gagnvart starfsmönnum hins opinbera og segði við þá: Þið þurfið ekki einu sinni enn þá að bíða eftir því, að verkamenn fari í langt og harðvítugt verkfall og brjóti þannig ísinn fyrir ykkur. Nú skulum við sýna, að við viljum eitthvað ofur lítið taka tillit til ykkar. — Það er ekki sanngjarnt, eins og ég minntist á áðan, að verkamenn og þá oft fátækir menn þurfi að standa vikum saman í harðvítugu verkfalli og láta sverfa að sér og sínum til þess að knýja fram m.a. launahækkanir hjá opinberum starfsmönnum. En hitt hefur aldrei brugðizt, að þegar verkamennirnir með löngu verkfalli hafa verið búnir að knýja fram kauphækkanir hjá sér, þá hefur hið opinbera fylgt á eftir. Og þarf nú ríkisvaldið endilega alltaf að fá hnefann settan á borðið, þarf það endilega að finna til þess, að það hafi ekki vald til þess að standa á móti öllum vinnandi stéttum landsins, þegar þær leggja saman? Þarf það endilega að finna það? Er ekki mögulegt að sannfæra það um, að þessir hlutir séu sanngirnisatriði? Það var mánaðarleg vísitöluuppbót greidd, áður en gengislækkunarlögin voru sett, et ég man rétt. Það var með þeim, sem breytt var í því efni. Og það er þess vegna sannarlega sanngirniskrafa, að þessu sé breytt í sama horf aftur. Ég vil þess vegna eindregið leyfa mér að vona, að hv. þd. geti samþ. þessa brtt.