23.02.1954
Efri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

12. mál, áfengislög

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. Í fáum málum, sem koma til kasta Alþ., eru skoðanir manna skiptari en í áfengismálunum, og kemur sá skoðanamunur vel fram í sambandi við afgreiðslu á þessu frv. í fyrra og nú hjá hv. allshn. Vegna rótgróins skoðanamunar höfum við nm. ekki getað komið okkur saman um að bera fram nema tiltölulega fáar og óverulegar brtt. við frv., sem við erum áreiðanlega allir sáróánægðir með, þótt af mjög sundurleitum ástæðum sé.

Hv. þm. Barð. talaði um, að við hefðum skrifað undir nál. fyrirvaralaust, en í rauninni er nál. ekki annað en einn stór fyrirvari, enda höfum við áskilið okkur, hver einstakur nm., rétt til að bera fram brtt. eða fylgja brtt., sem fram eru komnar eða fram kunna að koma.

Það er enginn vafi á því, að áfengisvandamálin eru með meiri vandamálum þjóðfélagsins. Það er enginn vafi á því, að mikið böl leiðir af óhófssamri áfengisneyzlu, og því böli vilja allir menn reyna að bæta úr, en skoðanirnar eru mjög skiptar um það, hvernig það verði bezt gert. Háværastar hafa raddirnar verið frá þeim mönnum, sem kannske hafa minnst skilyrði til þess að líta á áfengismálin í heild með fullri sanngirni, en það eru ofstækisfullir bindindismenn, sem hafa aldrei bragðað vín, og svo hinir, sem áður hafa verið ofdrykkjumenn, en hafa svo alveg tekið sinnaskiptum og orðið ofstækismenn í hina áttina. Skoðanir manna á drykkjuskap eru mjög mikið að breytast. Læknavísindin eru að láta þetta mál sig miklu meira skipta en áður hefur verið og hafa komizt að raun um, að menn geti verið ofnæmir fyrir áfengi eins og ýmsum öðrum neyzluvörum og lyfjum. Sem betur fer er ekki nema litill hluti manna, eða eftir því, sem talið er, 2–3% af þeim, sem neyta áfengis, sem þannig er ástatt um, og fyrir þá menn er ekki annað að gera en að bragða það alls ekki, því að þeir menn eru að meira eða minni leyti sjúkir. Þeim mönnum ber þjóðfélaginu skylda til að hjálpa, og er nú verið að stíga fyrsta sporið með því að koma upp hælum fyrir þá, sem svo langt eru leiddir að þurfa þess, og ég álít, að ríkissjóður eigi ekki að fá einn eyri af gróða áfengisverzlunarinnar fyrr en séð er fyrir lækningu slíkra manna, eftir því sem unnt er.

Fyrir hinn hluta manna, sem er í langsamlegum meiri hluta, er áfengisnautn ekki neitt verulegt vandamál. Þeir geta neytt áfengis í hófi, drukkið sig jafnvel fulla einstaka sinnum og kannske oft, en það vekur ekki hjá þeim stöðuga löngun til meiri drykkju.

Þann hluta manna, sem ekki er sjúkur, en vill neyta áfengis, verður að ala upp í því að kunna að fara með það, og er það sjálfsagt menningarmál.

Ég er þeirrar skoðunar, og ég tel hana rökstudda af reynslu, bæði hér á landi og annars staðar, að því auðveldara sem er að ná í áfengi og því minna veður sem gert er út af því, því hófsamlegar fari sá hluti manna, sem hefur ekki ofnæmi fyrir áfengi, með það. Ég er sannfærður um, að öll þau höft og bönn, sem eru á meðferð þessa tiltölulega óskaðlega hressingarlyfs, séu miklum meiri hluta þjóðarinnar til bölvunar og sérstaklega unglingunum. Ég játa, að góðtemplarareglan og önnur bindindisfélög hafa gert gagn með því að bjarga einstaklingum undan ofdrykkju, en ég efast um, þegar litið er á málið í heild, hvort góðtemplarareglan hefur gert meiri skaða eða gagn með uppeldisaðferðum sínum og skoðunum í bindindismálum og þeim áhrifum, sem hún hefur getað haft á meðferð áfengismála hér á landi.

Við erum nú einu sinni þannig gerðir, mennirnir, og ekki sízt við Íslendingar, að við viljum ekki láta leggja á okkur óþörf höft, og það er eins með okkur og Evu, formóður okkar, að forboðnu eplin eru alltaf girnilegust. Ég hefði þess vegna kosið, að meðferð áfengis væri algerlega frjáls og það væri til sölu í matvöruverzlunum eins og kaffi, te, tóbak og aðrar lítt nauðsynlegar hressingarvörur.

Ég er ekki mikið kunnugur meðferð áfengis erlendis, þekki aðeins nokkur lönd, Norðurlöndin, England og Þýzkaland lítils háttar. Af stuttri kynningu við þau lönd hefur mér virzt mestur menningarbragur á meðferð áfengis í Danmörku, enda er meðferð þess að öllu leyti frjálsust þar af Norðurlöndunum. Eftir því, sem ég veit bezt, eru Svíar nú að slaka til á skömmtun, sem þeir hafa haft hjá sér undanfarin ár, af því að hún hefur ekki náð tilgangi sínum, og auk þess að leyfa bruggun áfengs öls. Í Noregi segja síðustu fréttir að verið sé að lækka verð á áfengi um 20% til þess að koma í veg fyrir útbreitt heimabrugg. Þjóðviljinn hefur undanfarið með stuttu millibili birt áberandi fréttir um aukinn aðgang í paradísarríkjunum fyrir austan járntjaldið fyrir bændur og verkamenn til að hafa kampavín á borðum sínum og aðra sterka drykki og telur það bera vott um menningu og bættan efnahag.

Ég sagði áðan, að skoðanir manna um áfengismálin væru mjög skiptar, og á ég þá við ærlegar skoðanir manna, en í þessu máli, flestum öðrum málum fremur, kemur fram svo mikill yfirdrepsskapur, hræsni og kjósendahræðsla, að manni hrýs næstum hugur við.

Mér er það í barnsminni frá bannárunum, að einn af læknum landsins var mikill forkólfur áfengisbannsins. Eftir 1912 var ekki í önnur hús að venda en til lækna, ef menn vildu fá sér hressingu. Sá læknir lét að vísu ekki opinberlega í té þetta hressingarlyf, en svo einkennilega vildi til, að sótt kom upp meðal kúnna í læknishéraðinu, og dugði ekki minna — ef ég man rétt — en 31/2 1 á ári af spíritus til þess að lækna hverja belju í læknishéraðinu.

Ég held, að það hafi verið þegar undanþágan um Spánarvínin var gerð, að till. kom fram um það á þingi, að hagnaður á sölu áfengis skyldi ekki renna í ríkissjóð, heldur ganga sérstaklega til menningarmála. Þessi till. náði ekki fram að ganga, og voru það þeir menn, sem mest bar á í baráttunni fyrir banni og takmörkunum, sem greiddu atkvæði gegn till. Það er þess vegna svo komið, að áfengisgróðinn er orðinn ein af mestu tekjulindum ríkissjóðsins, sem erfitt er að kippa frá honum án þess að koma með stórkostlegar nýjar skattahækkanir í staðinn. Það væri nú gaman að spyrja þá, sem neyta ekki áfengis og mest hafa barizt á móti sölu þess og fyrir sem mestum takmörkunum, hvort þeir vildu gangast inn á að leggja á sig sérskatt, sem vægi eitthvað á móti því, sem þeir, sem áfengis neyta, greiða í ríkissjóðinn óbeint gegnum áfengiskaup. Ég er hræddur um, að það kæmi hljóð úr horni, ef rætt væri í alvöru um svona skattaálagningu, því að mér hafa fundizt raddirnar háværari úr þeirri átt að fá fé úr ríkissjóði til þess að halda uppi svokölluðum bindindisáróðri heldur en að leggja á sig aukna skatta í því skyni að útiloka sölu. Þó að ég bendi á þetta, kann ég vel að meta persónulega vinnu og jafnvel fjárframlög, sem margir ágætir menn innan bindindishreyfingarinnar og góðtemplarareglunnar hafa látið í té til styrktar bindindi í landinu, sem enginn getur haft neitt á móti og allir verið meðmæltir, ef því er ekki þvingað upp á menn með lagaboðum og takmörkunum, sem eru ósamrýmanleg sjálfræði manna.

Ástandið í áfengismálum er eins og nú stendur þannig, að varla getur verra verið. Drykkjuskapur hefur áreiðanlega aukizt vegna þeirra takmarkana, sem gerðar hafa verið. Löggjöfin, eins og hún er, er að reka menn, sem vilja fá sér hressingu, til þess að gera það annaðhvort heima hjá sér eða þá í portum eða úti á víðavangi, í stað þess að í öllum siðuðum löndum geta menn komið inn í þar til hæfa staði, fengið sér eitt glas af víni, einn kokkteil eða sjúss og farið

þaðan að svo búnu. Í stað þess er otað að mönnum a.m.k. heilli flösku, þó að þeir hafi ekki ætlað sér eða óskað eftir að fá meira en tíunda part úr henni. Drykkjuskapur unglinga er að verða stórkostlegt vandamál, eins og eðlilegt er, þar sem áfengismálum er komið fyrir eins og hjá okkur að tilstuðlan ríkisvaldsins. Að konur drekki, sem áður var óþekkt með öllu, er nú orðið nærri því eins algengt og um karlmenn, og mér er sagt, að ungar stúlkur séu farnar að miða stærð á snyrtitöskum sínum við það, að þær taki a.m.k. hálfflösku, sem hægt sé að hafa með sér á böllin. Þetta verður ekki bætt með frekari takmörkunum, heldur aðeins með meira frelsi í þessum málum samfara hæfilegri bindindisfræðslu í skólum og útvarpi, sem allir eru sammála um að ungu kynslóðinni sé nauðsynleg.

Við erum að tala um að gera Ísland að ferðamannalandi. Þó er ástandið þannig nú, að ekkert gistihús hefur leyfi til þess að veita áfenga drykki, sem margir útlendir ferðamenn telja jafnsjálfsagða og matinn, sem þeir láta ofan í sig. Þegar þessir sömu menn koma hingað og verða varir við ástandið og komast jafnframt að því, að inni í Nýborg eða Austurríki geti þeir fengið áfengi eftir vild, en þó ekki minna en heilflösku í einu, hlæja þeir að okkur og skoða þetta sem stórkostlega fyndni.

Eitt af vitlausustu ákvæðunum í áfengislöggjöfinni — að mínu áliti — eru héraðsbönnin, því að með þeim er verið að fara inn á þá braut að láta mismunandi lög gilda hér á landi og gera vissum hluta landsmanna erfiðara fyrir að fá þá hluti, sem öðrum standa til boða. Ég álít, að þessi ákvæði eigi engan rétt á sér og a.m.k. verði að krefjast þess, að það sé mikill meiri hl. kjósenda, en ekki greiddra atkvæða, sem veita á vald til þess að svipta þá, sem búa í sama sveitarfélagi og þeir, þeim rétti, sem allir aðrir landsmenn hafa.

Það er margt annað, sem ég hef að athuga við þetta lagafrv., en ég skal ekki eyða tíma d. í að fara út í það, aðeins mæla nokkur orð með þeim brtt., sem ég ásamt þremur öðrum þm., hv. 1. þm. Eyf., hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. Mýr., hef borið fram.

Þrjár fyrstu brtt. ganga í þá átt, að í stað þess að samkvæmt gildandi lögum er það nefndur áfengur drykkur, sem hefur inni að halda 21/4% af vínanda að rúmmáli, þá verði eftirleiðis ekki drykkur skoðaður áfengur, sem hefur inni að halda minna en 31/2% af vínanda að þunga.

Þetta munar sáralitlu, og skil ég ekki í öðru en að menn geti orðið sammála um að samþ. þessa brtt., því að ég hef aldrei getað skilið, við hvað takmarkanirnar 21/4% hafa verið miðaðar í upphafi. Með þessari brtt. förum við ekki fram á, að leyft verði að brugga áfengt öl í landinu, enda hefur það valdið ákaflegri mótspyrnu, sem að mínum dómi er alveg óskiljanleg. Það, sem við förum fram á, er, að leyft sé að hafa óáfenga ölið svo sterkt, að það súrni ekki eftir vikutíma, án þess að það verði gerilsneytt, en svo sem kunnugt er, þá missir öl bezta keiminn við að vera gerilsneytt. Sú áfengisprósenta, sem við stingum upp á, er sú minnsta, sem hægt er að hugsa sér, til þess að þetta geti orðið. Öl, sem bruggað er með 31/2% af vínanda af þunga, mun vera þó nokkuð vægara en danskur pilsner, og þar á ég við það danska öl, sem Danir almennt neyta heima hjá sér, en alls ekki útflutningsöl. Það öl, sem við drekkum hér í skipunum og flutt er hér á land óátalið af sjómönnum, hefur í sér allt að 8% áfengisstyrkleika. Annars áskil ég mér rétt til þess við 3. umr. að bera fram till. um heimild til að brugga sterkt öl, ef mér býður svo við að horfa, því að ég tel það algerlega fjarri öllum sanni að banna að brugga sterkt öl hér á landi, en sterkt öl kalla ég svona 6–10% öl, en leyfa að selja t.d. romm, sem er um 78% að styrkleika, og ýmsa líkjöra, sem fara upp í 80%. Það hefur sérstaklega verið haft á móti því að leyfa bruggun sterks öls, að unga kynslóðin lærði frekar að drekka á því. Ég held, að þetta sé fjarri öllum sanni. Mönnum finnst yfirleitt öl ekki bragðgott til að byrja með, og það er áreiðanlega miklu minna aðlaðandi á bragðið en sítrón og kókakóla, sem unglingar blanda nú, svo sem kunnugt er, með brennivíni og öðrum sterkum drykkjum.

2. og 3. brtt. leiðir af 1. brtt.

4. brtt. okkar er við 10. gr., og er þar lagt til, að ríkisstj. geti sett á stofn útsölustaði á áfengi ekki einungis í bæjarfélögum, heldur líka til sveita. Ég get ekki fundið rökstuðning fyrir þeim mismun, sem gerður er á aðstöðu manna eftir því, hvort þeir búa í bæjarfélagi, þorpi eða sveitarfélagi, til þess að kaupa áfengi, ef þeir vilja. En til þess að ganga nokkuð á móti þeim, sem eru á ólíkum skoðunum og við viðvíkjandi höftunum, höfum við þó fallizt á, að bæjarstjórn eða sveitarstjórn geti synjað, að útsalan sé sett á stofn.

Þá höfum við gert breytingar við 12. gr. frv.. en um þá gr. náðist ekkert samkomulag í n. Þær breytingar, sem við aðallega förum fram á við 12. gr. frv., eru í fyrsta lagi, að við viljum ekki binda það við, að áfengisútsala sé á staðnum, að hægt sé að veita veitingahúsi veitingaleyfi á áfengum drykkjum, enda er í sjálfu frv. dregið úr því í 3. málsgr. 12. gr. frv.

þá höfum við lagt til, að fellt verði niður, eins og komið hefur fram í öðrum brtt., að Samband gistihúsaeigenda hafi nokkurn íhlutunarrétt um þetta mál, enda finnst okkur það alls ekki viðeigandi.

Enn höfum við fellt niður þá fjarstæðu og hugsunarvillu, að ekki megi greiða þjónustugjöld af áfengum drykkjum eða að bannað sé, að veitingahús launi starfsfólk sitt með hundraðsgjaldi af sölu þeirra. Þegar athugað er, að haftamennirnir í áfengismálunum hafa gert allt, sem þeir hafa getað, til þess að áfengið yrði sem dýrast og að menn þar af leiðandi gætu keypt sem minnst af því, þá skýtur þar æði skökku við, þegar þarna á að fara að undanþiggja áfenga drykki undan þjónustugjaldi, eða m.ö.o. gera þá ódýrari, sem óhjákvæmilega hlýtur að hafa það eitt í för með sér að hækka verð á mat og óáfengum drykkjum og annarri þjónustu, sem veitingahúsin láta í té.

Þá leiðir það af sjálfu sér, að við höfum fellt úr allar tilvitnanir um meðmæli áfengisvarnaráðs, sent meiri hl. hefur fengizt fyrir í n. að ekki yrði sett á stofn, enda ekki séð, að nokkur þörf sé á því nema þá sem bitlingum á kostnað áfengisverzlunarinnar, sem við leggjum ekki til að verði úthlutað.

Loks höfum við lagt til, að fellt verði niður ákvæðið um, að veitingaleyfi megi binda því skilyrði, að dans fari ekki fram í þeim salarkynnum veitingahússins, þar sem vín er veitt. Í fyrsta lagi mundi þetta útiloka flest veitingahús frá því að fá vínveitingaleyfi vegna plássleysis, en auk þess mundi það hafa alveg gagnstæða verkun við það, sem ætlazt er til, eftir því sem ýmsir þjónar á veitingahúsum, sem ég hef kynni af, segja mér frá. Þeir segja, að ef maður sitji kyrr í sæti sínu, sé miklu erfiðara að sjá, hvort hann hefur neytt svo mikils áfengis, að ástæða sé til að neita honum um afgreiðslu, heldur en ef hann er á hreyfingu, því að þá sé hægt að hafa miklu meira eftirlit með því.

Ég fyrir mitt leyti hefði óskað eftir mörgum fleiri breytingum á frv., þó að ég hafi ekki borið fram brtt. í þá átt við þessa umr. Til dæmis álit ég nauðsynlegt, að það sé athugað a.m.k. hér í Reykjavík, hvort það dragi ekki stórkostlega úr ólöglegri neyzlu áfengis, að önnur áfengisbúðin sé opin alla nóttina og selji þá ef til vill með hærra verði. Það mundi undireins leiða til þess, að niður legðist sú fjölmenna stétt hér í bænum, sem nú fæst við launsölu áfengis og hefur af því stórkostlegar tekjur, sem auðvitað eru hvergi taldar fram til skatts. Ég álít a.m.k., að mætti athuga þetta til reynslu.

Þá vil ég benda á, að refsingarnar, upphæð sekta samkv. frv., eru hlutfallslega miklu hærri en er í öðrum lögum fyrir minni háttar brot. Ég hef þó ekki séð ástæðu til þess að koma fram með brtt. um það nú við þessa umr., en ég vona, að það greiðist það úr við atkvgr. um þær brtt., sem nú liggja fyrir, að einhver skapnaður verði á frv., þegar það kemur út úr d., og hægara yrði þá að laga það við 3. umr. Tel ég sjálfsagt, að allshn. taki það til athugunar á milli umr., þegar hún hefur séð, hvernig vilji dm. er við atkvgr. Þá, sem nú fer fram.