23.02.1954
Efri deild: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

12. mál, áfengislög

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Nál. hv. allshn. á þskj. 386 er að ýmsu leyti talsvert lærdómsríkt, ekki sízt ef til athugunar eru jafnframt hafðar brtt. á þskj. 387.

Nefndin er sammála um að leggja til, að 1. gr. frv. sé felld niður. Nú er það svo venjulega, að ef 1. gr. frv. er felld, þá er frv. úr sögunni. Nú þarf það ekki — það skal viðurkennt. Þegar litið er til efnis frv., þá þarf það ekki að vera, þó að þessi till. verði samþykkt í þessu tilfelli, sem nú er um að ræða.

Í þessari 1. gr., sem n. leggur til að sé felld niður, er reynt að greina frá tilgangi með þessari lagasetningu. Ég skal játa það, að gr. er að minni hyggju ekki heppileg eins og hún er orðuð í frv., og ég er ekki alls kostar ánægður heldur með þær brtt., sem fram hafa komið um umorðun á henni, en skal láta það liggja að öðru leyti órætt á þessu stigi málsins. Þetta virðist í raun og veru vera það eina, sem nm. eru sammála um, því að það er tekið fram í nál., að skoðanir nm. um frv. í heild sinni og einstakar greinar þess séu mjög skiptar. Ekkert minnist n. á það, hvort frv. skuli fellt eða samþ., jafnvel þó að þær brtt., sem n. ber fram, kynnu að verða samþykktar, eða hvort það breytir einhverju, ef þær eru felldar.

Vægast sagt er þetta ákaflega óvenjuleg og ég vil segja óþingleg meðferð á máli, ekki sízt á frv., sem reynt er að telja mönnum trú um að sé ákaflega mikils um vert og boði einhverjar stórfelldar breytingar á högum okkar hér í landinu. Þetta frv. hefur fengið óvenjulega rækilegan undirbúning. Það er samið að fyrirlagi hæstv. dómsmrh. af sérstakri mþn. Það er lagt fyrir Alþ. hið síðasta og fær þá ekki afgreiðslu, er afgreitt með rökstuddri dagskrá. Siðan fara fram alþingiskosningar. Þegar Alþ. kemur saman, er frv. lagt fram á ný í því formi, sem það nú er, með litlum breytingum frá því á síðasta þingi, og þá þykir heppilegt einhverra ástæðna vegna að fresta meðferð málsins þangað til bæjarstjórnarkosningarnar séu afstaðnar. Nú eru þær afstaðnar, og þá kemur að n. að taka sína afstöðu, og hún er þessi, sem ég nú hef lýst.

Ég verð að segja það, að þetta er óvenjuleg málsmeðferð og í alla staði hin hörmulegasta. Ég skal ekki fara langt út í að rekja ástæðurnar til þessarar sérstöku meðferðar á málinu, — menn hafa sjálfsagt um það ýmsar hugmyndir, — en meginástæðan, sem að baki liggur öðrum ástæðum, er að minni hyggju sú, að menn eru hálfráðalausir í þessu efni. Menn sjá, að það er lítt samræmanlegt, að ríkissjóður reki verzlun með áfengi í landinu og græði á því árlega 60–70 millj. kr. og að samtímis sé hér í stórum lagabálki leitazt við í orði kveðnu, skulum við segja, að reisa hömlur við meðferð og neyzlu áfengis og draga úr sölunni á því og refsa mönnum fyrir að nota það. Það er ómögulegt að loka augunum fyrir því, að þetta er sú staðreynd, sem við eigum að mæta, og án efa veldur það miklu um þá mjög svo lítið skörulegu afstöðu, sem nm. hafa tekið til frv., auk margra annarra ástæðna, sem ég skal ekki hirða um að telja hér upp.

Ég hygg því, að til þess að meta þetta frv. þurfi menn að gera sér grein fyrir því til fulls, hvaða stefnu menn telja hollasta þjóðinni í áfengismálunum. Það hefur komið fram mjög greinilega hjá hv. þm. Seyðf., hverja stefnu hann telur hollasta í þessu. Hann telur, að öll höft og hömlur séu til bölvunar einnar, í raun og veru ættum við að skipa þessum málum þannig, að sem allra greiðastur aðgangur væri fyrir hvern og einn að ná í áfengi, hafa sem flestar tegundir af áfengi til sölu sem allra viðast, sem allra mestan hluta sólarhringsins, og sennilega með svo vægu verði, að sem flestir gætu veitt sér þetta. Þetta er sjónarmið, sem ég út af fyrir sig get skilið, en ég er því ekki sammála. Aðrir líta svo á, að að öllu samanlögðu geri áfengið meira tjón, meiri bölvun í landinu en svo, að það annað, sem mætti og er af sumum talið því til gildis, vegi þar upp á móti. Þeir menn líta að sjálfsögðu svo á, að sjálfsagt sé að reyna að takmarka neyzlu áfengis sem mest og vinna að því, að hún verði sem minnst eða alls engin. Í raun og veru skiptast menn því, að svo miklu leyti sem menn hafa ákveðnar skoðanir í þessu, eftir því, hvort þeir vilja bannfæra áfengið, losna við það úr landinu, taka fyrir neyzlu þess, eða hvort menn vilja hafa þetta svo frjálst sem auðið sé, alveg hliðstætt hverjum öðrum varningi, sem fólkið girnist að kaupa. Þetta er í raun og veru það, sem skiptir skoðunum í þessu efni, og þess vegna er ekki óskiljanlegt og ekki óeðlilegt, að meðan við búum við það ástand, sem við nú höfum, að ríkið hefur stórmikinn hluta af sínum tekjum af áfengissölu, samtímis því sem við látumst vera að reyna að takmarka neyzluna og draga úr afleiðingum hennar, þá sé erfitt að finna þar nokkurn veginn færa millileið.

Ég get sagt það strax, að ég tel það æskilegast og það mark, sem að ætti að keppa í þessum málum hér, að losna við áfengið úr landinu með löggjöf, sé önnur leið ekki fær. Meðan það er ekki fært og fæst ekki samþykkt af almenningi í landinu, verð ég þó að játa, að nauðsynlegt er að reyna að hafa hér hömlur á meðferð vínsins og neyzlu þess, sem á hverjum tíma er hægt að koma við til þess að draga úr því böli, sem fylgir því, ekki til þess að útrýma því, — það er of mikið að gera sér von um það, — heldur til þess að draga úr því. En hitt er rétt, að á hverjum tíma verður ákaflega erfitt að meta það, hvað fært er að knýja fram og fylgja eftir af slíkum ráðstöfunum, meðan ástandið er þannig eins og það nú er, að hið opinbera eða ríkið sjálft selur vinið, flytur inn og selur og hefur af því stórfelldan gróða.

Nú skyldi maður ætla, þar sem þetta frv. hefur kostað svo mikinn undirbúning og svo lengi verið til athugunar, að í því væru nú falin einhver stórmæli. En ef menn bera saman frv., sem að liggur fyrir, og gildandi áfengislög, þá hygg ég, að menn komist að þeirri niðurstöðu, að breytingin, sem gerð er, sé í raun og veru ekki mikil og — ég vil bæta því við — á engan hátt líkleg til bóta. Ég hef borið þetta lauslega saman. Mig furðar nú á því, að hv. frsm. n. skyldi engan samanburð gera á gildandi lögum og því frv., sem hér liggur fyrir. Ég hefði talið, að það hefði verið eðlilegt, að það hefði komið fram í framsögu. Ég hef lauslega athugað þetta, og það eina, sem mér virðist að máli skipti af þeim breytingum, sem felast í þessu frv. frá gildandi áfengislögum, er að rýmka heimildina til vínveitinga, rýmka heimild ríkisstj. til að veita vínveitingaleyfi. Aðrar breytingar geta ekki talizt stórvægilegar, og allmargt af þeim virðist nefndin, sem annars er ekki sammála um margt, vera sammála um að fella niður, eins og t.d. atkvæði 32. gr. um að taka ákveðinn hluta af hagnaðinum frá venjulegum fjármunum ríkissjóðs og nota í sérstöku augnamiði, eins og t.d. áfengisvarnaráð og eins og t.d. það, sem lýtur að þjórfé og öðru slíku. Meginbreytingin og sú eina, sem verulegu máli skiptir í sambandi við afgreiðslu þessa frv., er sú, að eftir því á ríkisstj. að hafa heimild til þess að veita fleiri en einu veitingahúsi leyfi til vínveitinga.

Brtt. hafa svo komið fram frá einstökum þm., sem hv. þm. Seyðf. mælir nú fyrir, um nokkrar :iðrar breytingar, eins og t.d. að flytja inn nokkru sterkara öl en nú er gert, 31/2% í staðinn fyrir 21/4 %, og fyrirheit um að bera fram brtt. um meiri styrkleika, allt upp í 6–10%, ef svo horfir, að það þyki álitlegt.

Ég verð því að segja, að mér finnst allur þessi mikli undirbúningur og öll þessi varfærni í meðferð málsins, þar sem ekki er um stærra stríði að ræða í frv. heldur en hér er um að ræða, með nokkuð öðrum svip en ég hefði talið eðlilegt og æskilegt.

Að því er 12. gr. snertir, ákvæðið um að rýmka heimildina til veitingaleyfa, þá vil ég taka það fram strax, að ég er henni andvígur. Ég tók eftir því, að hv. þm. Seyðf. dró upp ærið dökka mynd af ástandinu eins og það nú er að hans sögn. Hann heldur því fram, að ástandið hafi aldrei verið verra í áfengismálum hér á landi heldur en það sé nú, drykkjuskapur hafi aukizt, bæði almennt og á almannafæri, kvenfólk drekki miklu meira nú en fyrr, á samkomum beri miklu meira á vasapelafylliríi og öðru slíku heldur en nokkru sinni áður. Ég skal nú ekki leggja dóm á þessar lýsingar hv. þm. Það er enginn vafi á því, að þær eru að verulegu leyti ýktar og fram fluttar í áróðursskyni til þess að styðja að því, að þær breyt. gangi fram, sem hér er gert ráð fyrir í frv. En hitt vil ég fullyrða, og það er alveg óbifanleg sannfæring mín, að þó að þetta frv. verði samþ. og þó að hæstv. ríkisstj. veiti vinveitingaleyfi Borginni aftur, Sjálfstæðishúsinu, Oddfellow o.fl. hér, þá eru ekki nokkrar minnstu líkur til, að ástandið í þessu efni muni batna. Það yrði hrein viðbót við það, sem nú er, og sami ófögnuðurinn í ríkara mæli halda áfram. Það hefur allt frá fyrstu byrjun, að slakað var á frá bannlögunum, hver einasta rýmkun, hver einasta tilslökun orðið til þess að auka drykkjuskapinn. Það veit hver einn einasti maður, sem vill líta á þetta mál óhlutdrægum augum. Læknabrennivínið, — hv. þm. Seyðf. minntist á það hér áðan, og það er kunnugt, að það var mjög misnotað og varð til þess að auka drykkjuskap eða koma upp drykkjuskap, sem var ekki til sem neitt hét, áður en það kom til.

Allan þann tíma, sem bannlögin stóðu, var því sí og æ haldið fram af andstæðingum þeirra, að ef menn aðeins fengju að flytja inn létt suðræn vín til þess að hafa á borðum í mannfagnaði og slíks, þá mundu menn verða harðánægðir og engum detta í hug að óska eftir brennivini og öðrum slíkum sterkum óþverra. Þegar Spánarvínin komu, þá ekki einasta jókst drykkjuskapurinn vegna þeirra, heldur var einnig í blóra við þau farið að drekka miklu meira af sterku drykkjunum en áður var. Þegar svo bannið var afnumið, jókst drykkjuskapurinn enn. Þessi er ekki reynslan eingöngu hjá okkur. Hún er hvarvetna hin sama. Þrátt fyrir það, hversu menn lýsa nú ástandinu hjá okkur, þá er það þó staðreynd, sem er ekki hægt að ganga fram hjá, að magn áfengis, sem neytt er til uppjafnaðar af hverjum manni í landi hér, er stórum lægra en í nágrannalöndum okkar, þar sem þetta er frjálsara, og ekki nema örlítið brot af því, sem neytt er af áfengi til uppjafnaðar á hvern íbúa í vinlöndunum eins og Frakklandi og öðrum slíkum löndum. Þetta er staðreynd, sem við verðum að hafa í huga og játa, þó að við viljum ekki loka augunum fyrir þeim annmörkum, sem eru á ástandinu eins og nú er.

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að hver rýmkun frá því, sem nú er, eykur drykkjuskapinn frá því, sem nú er. Það verða fleiri, sem drekka, og það verður drukkið meira. Reynslan hefur alltaf sannað þetta. Dettur hv. þm. Seyðf. í hug, að drykkjuskapurinn mundi minnka og bera minna á ölæði, ef hægt væri að fá vín keypt, létt vin, eitt glas af léttu víni, eins og hann orðar það, í hvaða veitingahúsi sem væri, ganga inn í sjoppurnar, sem eru hér meðfram hverri götu, fá sér einn litinn kokkteil, eitt glas af léttu víni, eitt glas af öli 6–10%, þegar það væri komið, og ætli þeir vildu þá ekki fá sér kannske einn sjúss, eins og hann orðaði það nú hálffeiminn í endann? — Ef áfengisverzlun væri opin á nóttunni, — það er áreiðanlega rétt, að menn kaupa af bílstjórum á leigubílum, — en heldur hann, að það mundi úr þessu draga, ef áfengisútsalan væri opin alla nóttina? Vitaskuld mundi neyzla áfengis mikið aukast. Það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar að berja höfðinu við steininn, menn geta ekki gert hvort tveggja í senn að viðurkenna bölvun áfengis og segja, að þeir vilji draga úr neyzlunni, og taka svo allar hömlur af. Menn verða þá að segja hreinskilnislega: Það er bezt, að menn drekki eins og þeir vilja, og við skulum ekki skipta okkur neitt af afleiðingunum af því. — Ég man ekki betur en á þeim blómatímum Borgarinnar, á meðan hver maður gat setið þar inni og drukkið, að þá væru ekki fagrar sögur, sem sagðar voru af ástandinu þar. Sjálfur hef ég orðið fyrir því að koma þar inn oftar en einu sinni, setjast í mestu háttprýði mg skikkelsi við borð og hafa ekki frið fyrir því, að setzt hafa þar drukknir menn, sem hafa viljað rabba við mig, og verið góðir og elskulegir, ekki vantar það. En þeir gengu þar um, og þeir, sem komu inn annarra erinda til þess að spjalla saman eða fá sér eitthvað að borða og drekka, höfðu ekki frið fyrir þessum mönnum, sem komu og settust að manni, og daglegir viðburðir voru.

að það mátti kalla í lögregluna til að fjarlægja fleiri en einn af gestunum, sem voru þarna inni. Ég held, að við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það eru tómar blekkingar og tilbúningur, að ástandið muni batna við það að gefa vinið frjálsara, fjölga útsölustöðum og smækka skammtana, sem menn geti keypt. Það er enginu minnsti vafi á því, að slíkt yrði til þess að auka drykkjuskapinn og þær illu afleiðingar, sem honum fylgja.

Ég vil ekki leyna því, að ég held, að stjórnarvöldin í landinu, löggæzlan, eigi mikla sök á því, að ástandið er svo bágborið í þessu efni sem án efa er og mikið er af látið. Ég hygg, að ef meiri röggsemi og festa og einbeitni væri í því að framkvæma ákvæði laga þeirra, sem nú eru í gildi, mætti stórkostlega mikið draga úr þeim ófögnuði, sem nú ber svo mikið á í sambandi við áfengisneyzlu, að ég ekki nefni það, ef það hefði verið tekin rögg á sig og fjarlægðir þessir tveir tugir eða tvær tylftir manna, sem kallaðir eru Hafnarstrætisrónar og ganga hér aftur hvern einasta dag árið í kring að kalla. Það hefði þó átt að vera tiltölulega auðvelt verk, þar sem ekki er um fleiri menn að ræða, a.m.k. að þurrka þann blett af.

Ég tók eftir því, að hv. þm. Seyðf. sagði, að miklu meiri menningarbragur væri á meðferð áfengis t.d. í Danmörku heldur en hér á Íslandi, og ég held, að hann hafi sagt, að einmitt þar í landi, í Danmörku, væri mestur menningarbragur á drykkjuskap og áfengismeðferð. Ég er nú ekki sérlega kunnugur í Danmörku, en hef komið þar nokkrum sinnum, og ég vil ekki leyna því, að ég hef oft séð þar drukkna menn, mjög áberandi, á almannafæri og viðhafa oft einmitt þá sams konar læti og angra okkur hér heima. Hitt er rétt, að á fjölförnustu götunum, fjölsóttustu veitingahúsunum þar ber ekki jafnmikið á því og gerði hér og gerir á samkomum hér, en ég hygg, að það liggi í því, að þar er betra eftirlit með hegðun manna í þessu efni heldur en hér er. Þar eru drukknir menn teknir hispurslaust og fjarlægðir, og menn vita, að þetta er gert, og leyfa sér því ekki að haga sér á þann hátt, sem þeir gera hér nú. Ég ætla, að það sé í þessu, sem munurinn liggur, sem hv. þm. rekur svo augun i, að á svokölluðum betri stöðum og þar sem fjölmenni er mikið og umferð, þar er fullkomin regla og eftirlit með því, að drukknir menn séu þar ekki að flækjast og séu með alls konar óspektir og læti. Hitt veit ég, og það vita allir, sem nokkuð þekkja til, að það er drukkið fast og drukkið illa í Danmörku af heilum hópum manna og engu betur en hér. — Þetta er nú um málið almennt.

Ég skal ekki að svo stöddu ræða um einstakar brtt. að öðru leyti en því, sem fram hefur komið í orðum mínum til þessa. Ég er mótfallinn 12. gr. frv. og mun greiða atkvæði gegn henni. Og ég er mótfallinn till. nefndarinnar, hinni síðustu, nr. 10, um að fella niður 32. gr. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að það, sem beri að vinna að hér í þessu landi, sé að losna við áfengið úr landinu, og ég hef ekki trú á því; að það verði gert, svo að gagni komi, öðruvísi en með lagasetningu, með fullkomnu banni.

Ég skal ekkert fullyrða um það, hvernig hugur þjóðarinnar er í þessu efni nú, hvort hún mundi samþykkja slíkt áfengisbann eða ekki. En ég vil taka það fram, að ég tel, að ef leitað væri atkvæða þjóðarinnar um þetta, yrði að hafa þar nokkuð ríkan meiri hluta fyrir samþykkt bannsins, til þess að gerlegt væri að taka það í lög. Eitt atriði, sem án efa hlýtur að hafa mikil áhrif í sambandi við afstöðu manna til þess, hvort hér eigi að lögleiða bann á áfengi eða ekki, eru einmitt tengslin á milli áfengisverzlunarinnar og ríkissjóðsins. Það er ekki til neins að loka augunum fyrir því, að núna eru tekjurnar af áfenginu það mikill hluti af tekjum ríkissjóðs, að mörgum virðist með nokkrum rétti, að erfitt geti orðið annan veg að afla tekna í staðinn, ef þessar tekjur falla niður með öllu vegna aðflutningsbanns.

Ég álit því, að það sé alveg rétt sú leið, sem lítillega er bent á í 32. gr., að taka nokkurn hluta af tekjunum af áfenginu og leggja til sérstakra aðgerða, sem geta ekki falizt beint undir það, sem telja mætti árlegar þarfir ríkissjóðsins. Ég álít, að það væri hyggilegt að taka nokkurn ákveðinn hluta til að byrja með, vaxandi frá ári til árs, þannig að það, sem ríkissjóður hefði af áfengisgróðanum til sinna almennu þarfa, færi minnkandi. Við skulum segja t.d., að eftir fimm ár væri búið að binda helminginn af áfengisgróðanum til sérstakra tímabundinna, ákveðinna framkvæmda, sem ætti að ljúka með þessu fé, og ríkissjóður hefði ekki þess vegna sömu fjárhagslega hagsmuni af því að halda tekjunum, þá mundi vera auðveldara að leggja málið fyrir þjóðina til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu með þjóðaratkvæði. Ég mun bíða eftir því að sjá, hvernig atkvgr. fer um 32. gr. og brtt. við hana, en áskil mér rétt til á síðara stigi málsins að koma fram með brtt. í þá átt, sem ég gerði hér grein fyrir.

Í heild sinni tel ég, að sú meginbreyting og sú eina brtt., sem verulegt efnisatriði er frá eldri lögum í þessu frv., þ.e. að fjölga vínveitingastöðum í landinu, sé til hins verra. Ég mun greiða atkvæði á móti henni. Að öðru leyti markast svo afstaða mín til frv. á atkvgr. um þessa grein og aðrar brtt., sem liggja hér fyrir eða fram munu koma, áður en málið verður afgreitt.