02.03.1954
Efri deild: 55. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

12. mál, áfengislög

Haraldur Guðmundsson:

Ég skal vera stuttorður, herra forseti. Ég skal ekki tala um áfengislögin með tilliti til annars tilverustigs. Mér virðist þau vera nægilega erfið, þó að við miðum við þessa jarðnesku tilveru fyrst og fremst a.m.k., og hygg, að það mundi verða torvelt að setja þau beinlínis með tilliti til annarra og síðari tilverustiga.

Um brtt. þá, sem hæstv. forseti lýsti nú, um að fella niður héraðabönnin vil ég segja það, að ég mun verða henni andvígur, ekki út af fyrir sig vegna þess, að ég hafi sjálfur persónulega mjög mikla trú á héraðabönnum, að þau nái tilætluðum árangri, heldur vegna þess, að mér finnst sjálfsagt, að þar sem þau hafa nú verið samþykkt á nokkrum stöðum, þá fáist fullkomin reynsla þar, áður en slík heimild verði felld niður. Ég mun því greiða atkvæði gegn þeirri tillögu.

En það, að ég kvaddi mér hljóðs, stafaði nú fyrst og fremst af ummælum hv. 1. þm. Eyf. í fyrri ræðu sinni áðan. Hann sagði, að þótt eðlilegt mætti teljast að skipta mönnum í tvo flokka, þá, sem vildu bann, og þá, sem vildu frelsi, þá væri þetta engan veginn fullnægjandi skipting, því að til væri þriðji flokkur manna, sem sé sá, sem vildi, að ríkissjóður hefði áfengisverzlunina með höndum og græddi á henni, en jafnframt stefndi að því að gera alla menn að afbrotamönnum, sem neyttu áfengisins. Ég veit nú satt að segja ekki, ef þessi flokkaskipting er upp tekin, í hvaða flokki hv. 1. þm. Eyf. mundi vera; mér er nær að halda, að hann mundi vera í þessum milliflokki þarna, því að ég veit ekki betur en hann sé samþykkur öllum ákveðum um viðurlög og refsingar, sem eru býsna stórorð — ég segi „stórorð“ með vilja — í frv. En ég skal segja það honum til málsbóta, að það sýnir skilning löggjafans á, hversu alvarlegs eðlis þessi brot á löggjöfinni séu, auðgunarbrot í sambandi við sölu áfengis og annað slíkt.

Ég skal vera stuttorður um þetta, en þykir þó rétt að gera grein fyrir minni afstöðu til málsins í heild. Meðan meiri hluti þjóðarinnar vill hafa áfengið í landinu, þá er ekki annað að gera en að hlíta því og setja þá um það svo skynsamlegar og skaplegar reglur sem unnt er á hverjum tíma til þess að draga úr ókostunum, sem fylgja því. En menn verða að vita, að hverju þeir vilja stefna í þessu efni. Og ég tel, að ekki sé vit í því að stefna í aðra átt en þá, eins og ég áður hef gert hér ráð fyrir, að draga úr drykkjuskap sem mest og helzt að útrýma honum og áfengisneyzlu með öllu. Og slíkt verður að minni hyggju ekki gert án löggjafar.

Nú er ástandið þannig í landinu, ætla ég, eins og þetta frv. og undirtektirnar, sem það fær, bera ljóst vitni um, að mikill hluti þjóðarinnar, — ég skal ekki segja um, hvort það er meiri eða minni hluti, — en mjög mikill hluti þjóðarinnar virðist telja, að það sé hægt að draga úr böli áfengisins einn veg og annan, sem nokkuð megi við hlíta, án þess að taka upp algert aðflutningsbann. Sumir hafa von um, að með héraðabönnum megi ná nokkrum árangri og öðrum takmörkunum, en aðrir, svo furðulegt sem það virðist í mínum augum, virðast vera þeirrar skoðunar, að meiri menningarbragur muni koma á drykkjuskapinn, ef þetta frv. verður að lögum, heldur en nú er og megi þá draga úr einhverjum af þeim ófagnaði, sem drykkjuskapnum fylgir.

Ég er þeirrar skoðunar, að ef þetta frv. verður að lögum í svipaðri mynd og nú er, þá muni alveg óhjákvæmilega af því leiða, að krafan um algert bann og útrýmingu áfengis verður háværari og kröftugri en nú er, vegna þess að ég er viss um það, að drykkjuskapurinn og fylgifiskar hans munu aukast. Það er einmitt með tilliti til þessa, sem ég ber fram mína síðari brtt., að þá er auðveldara að taka upp málið um algert bann og greiða atkvæði um það, ef búið er að binda áfengistekjurnar á þann veg, sem þar er gert ráð fyrir. Hv. 1. þm. Eyf. taldi, að ef ég meinti þetta, þá væri stefnt í öfuga átt með mínum tillögum. Hann viðurkenndi að vísu, að sá helmingurinn, sem ætlaður væri til þess að reisa fyrir ýmis hæli í heilbrigðis- og mannúðarskyni og til að útrýma drykkjusjúkdómum og öðru slíku, hefði nokkuð tímabundið og takmarkað verkefni, og það er líka rétt. Eru allar líkur til, ef bið verður á því 5–10 ár, að bann verði lögleitt, að það mætti þá komast svo langt áleiðis í því efni, að þar verði verulegum áfanga náð. Hitt atriðið, almennar íbúðarhúsabyggingar fyrir verkamenn og tekjulægri stéttir þjóðfélagsins, er verkefni, sem ekki leysist, hvorki á fimm né tíu árum, til fulls, svo framarlega sem þjóðinni heldur áfram að fjölga; það er rétt. Og þá vildi hv. þm. halda því fram, að sá hópur manna, sem ætti von á að fá ódýr lán af þessum síðari helmingi, mundi snúast andvígur gegn áfengisbanni til þess að fá þetta fjármagn til þessara ódýru lána til húsbygginga og annars slíks. Ég legg nú ekki mikið upp úr þessari ályktun hv. þm., í fyrsta lagi vegna þess, að á þessu 10 ára tímabili, ef við það er miðað, ætti að myndast þarna um 150 millj. kr. sjóður, sem að vísu væri fastur í byggingum, en kæmi þá í vöxtum og afborgunum, og það fé, sem losnaði árlega út úr slíkum lánum, mætti verja til nýrra lána, mundi nema mjög verulegri upphæð; og í öðru lagi það, að þó að ýmsir hefðu hug á því að hlúa að þessum byggingarmálum, þá væri það ekki nema örlítil ástæða að þunga til samanborið við þá ríku ástæðu, sem fjármálastjórnin á hverjum tíma hefði til þess að tryggja sér þær tekjur, sem af áfenginu renna nú í ríkissjóðinn. Ef þess vegna hv. þm. er þeirrar skoðunar, að eitthvað mundi draga úr áhuga manna fyrir að fá bann samþykkt vegna þessara lánveitinga, þá hlýtur hann að viðurkenna það, að áhuginn fyrir því að halda víndrykkjunni við og áfengisverzluninni hlýtur að vera margfalt meiri með þeim hætti, sem nú er á þessum málum. (Gripið fram í.) Ég hefði nú hugsað, að menn mundu leita til ríkissjóðs til framlaga í þessu skyni, ef ég þekki rétt, ef þetta félli niður, og þá væri sami flöturinn uppi í báðum tilfellunum.

Um brtt. hv. þm. N–M. (PZ) við 9. gr. vil ég aðeins taka fram, að ég er honum alveg sammála um nauðsyn þess að gera þá breytingu og mun greiða þeirri till. atkv.