04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

12. mál, áfengislög

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að segja, að ég hef ekki kynnt mér þetta frv. nægilega ýtarlega enn til þess að taka það til rækilegrar meðferðar, enda hygg ég, að það muni gefast tækifæri til þess síðar. Ég hef lítið svo á, að í þessu frv. væru í rauninni, eins og nú er komið, tvö meginatriði, sem máli skipta; enda fannst mér á þeirri grg., sem hæstv. dómsmrh. hafði hér fyrir þessu frv., að hann legði einnig þann skilning í málið, að þar væri fyrst og fremst um tvær meginbreytingar að gera.

Annars vegar er sú breyting, sem Ed. hefur gert á frv., þar sem gert er ráð fyrir, að heimilt verði að selja í landinu allmiklu sterkara öl en hingað til hefur verið, og verður maður að segja, að það kemur nokkuð á óvart, að það skuli hafa verið samþykkt, með tilliti til þeirra undirtekta, sem það ákvæði hafði fengið hér á Alþingi áður, þegar fitjað hafði verið upp á hliðstæðri breytingu og þarna hefur verið gert ráð fyrir.

En aðalbreytingin, sem þetta frv. hlýtur þó að hafa í sambandi við áfengislög þau, sem í gildi hafa verið, er þó fólgin í því að heimila veitingahúsum í landinu, eða a.m.k. á öllum þeim stöðum, þar sem áfengisútsala er annars opin, að selja þar vín. Slík heimild er vitanlega mikil breyting frá því ástandi, sem verið hefur um langan tíma, og er þá ekki óeðlilegt, að gerð sé nokkur grein fyrir því af flm. þessa máls, hvað hefur sérstaklega rekið til þess, hvað hefur sérstaklega kallað á það að óska eftir þessari breytingu. Ég fyrir mitt leyti get ekki skilið þau rök, sem ég hef heyrt í þessu máli nokkrum sinnum og mér virtust koma hér að nokkru leyti fram hjá hæstv. dómsmrh., að það ástand, sem verið hefur að undanförnu í áfengismálum þjóðarinnar eða nú á tiltölulega stuttu tímabili, hafi sýnt sig að vera þannig, að við það væri ekki hlítandi. Mér er ekki kunnugt um það, að nú um alllangan tíma hafi verið gerðar neinar breytingar á gildandi áfengislöggjöf landsmanna. Engar lagabreytingar hafa verið gerðar, og það eru því sömu lög, sem gilda í þessum efnum nú og hafa gilt hér um mörg undanfarin ár.

Það ófremdarástand í áfengismálunum, sem ýmsir tala um að hafi verið hér nú seinnstu mánuðina, á ekkert skylt við það, að það þurfi að breyta áfengislöggjöfinni sérstaklega. Það var, eins og kunnugt er, skyndilega gerð sú ákvörðun um það eina veitingahús hér í bænum, sem hafði um margra ára skeið haft heimild til þess að selja vín eitt allra veitingahúsa, að heimildin var skyndilega tekin af þessu veitingahúsi án nokkurrar lagabreytingar, og var það af mörgum sett í samband við það, að uppi voru harðar kröfur um það frá ýmsum öðrum veitingahúsum að fá sams konar heimild sér til handa. Afleiðing af þeirri ráðabreytni hæstv. dómsmrh. að afnema heimildina hjá þessu eina veitingahúsi, sem hafði vínsöluheimild, hefur auðvitað orðið sú, að a.m.k. það veitingahús hefur losnað mjög áberandi við vinsölu og allar þær truflanir, sem leiðir venjulega af vinveitingum á slíkum Stöðum. Ég fyrir mitt leyti hef ekki orðið var við það á því veitingahúsi, að þar hafi orðið nein sú breyting á, að það verði að teljast óviðunandi fyrir landsmenn og allra sízt út frá því sjónarmiði, sem mjög er nú haldið á lofti af öllum, einnig þeim, sem að þessu máli standa, að það sé verið að gera hér breytingar á áfengislöggjöf landsmanna til þess að reyna að draga úr áfengisneyzlunni og draga úr áfengisbölinu. Ef hins vegar þeir aðilar, sem nú standa að því að leggja þetta frv. hér fram, eru óánægðir með það ástand, sem skapazt hefur nú síðustu mánuðina í áfengismálunum, þá er í rauninni miklu réttara fyrir þá að snúa sér til þeirra aðila, sem einir hafa gert breytingu á því ástandi, seni hér hafði verið ríkjandi um margra ára skeið, óska eftir því, að þeir framkvæmi þetta á hliðstæðan hátt og gert hafði verið hér fyrir nokkrum árum.

En megintilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs nú við þessa umr. var sá, að ég vildi gera sérstaka fsp. til hæstv. dómsmrh. um það, hvað þetta meginatriði, sem hér er verið að gera breytingar á í þessu frv. um heimild veitingahúsa til þess að taka upp vínveitingar, segi í raun og veru, hvað það mundi þýða í framkvæmdinni. Talað er um, að veitingahús, sem eru 1. flokks, skuli falla undir þetta og fá heimild til að hafa vínsölu með höndum. Ja, hvað mundi þetta þýða miðað við það ástand, sem nú er ríkjandi, t.d. hér í höfuðborginni? Hvað eru þeir veitingastaðir hér í höfuðborginni nú í dag margir, sem mundu flokkast undir að vera kallaðir 1. flokks? Ég hef hvergi fundið neina skilgreiningu í frv. um þetta atriði, sem þó vitanlega skiptir höfuðmáli. Mundi þetta þýða, að aðeins það veitingahús, sem hér hafði vinveitingaheimild, áður en tilskipun dómsmrh. var gefin út um að svipta það þessu leyfi, — mundi þetta aðeins þýða það, að þetta veitingahús, sem óneitanlega er í nokkrum sérflokki í sambandi við veitingahús hér í landinu, fengi eitt heimild samkv. lögunum til þess að hafa vínsölu, eða mundi þetta þýða það, að flestir þeir veitingastaðir hér í bænum, þar sem matur er seldur og þar sem fjölbreyttir aðrir drykkir eru á boðstólum, eins og segir í frv., mundu einnig fá vínsöluheimild? Miðað við leikmannssjónarmið í þessu, þá get ég ekki séð ýkjamikinn mun á fjöldamörgum þeim veitingastöðum hér í bænum, sérstaklega þeim, sem — eru nokkuð nýir og á margan hátt heldur þokkalega útbúnir. Ég get ekki séð mikinn mun á fjöldamörgum þessum stöðum og t.d. stærstu húsunum, næst á eftir Hótel Borg, eins og Sjálfstæðishúsinu, Hótel Skjaldbreið og öðrum slíkum hér í bænum. Ég get ekki séð mikinn mun á þeim, eða mundu þeir kannske allir verða flokkaðir undir þennan 1. flokk og þá svo að segja allir matsölustaðir í bænum fá þessa heimild? Vegna þess að þetta atriði um vínveitingaheimildina er auðvitað það, sem mestu máli skiptir í sambandi við þennan lagabálk, sem hér liggur fyrir, þótt í mörgum greinum sé, þá finnst mér ekki nema réttmætt, að einmitt hér á fyrsta stigi málsins sé óskað eftir upplýsingum um það, hvað þetta mundi þýða í framkvæmd, því að því hljóta þeir menn að hafa gert sér grein fyrir, sem þetta mál. — hafa undirbúið og hafa lagt það hér fyrir þingið.

Ég á erfitt með að skilja, að þó að tekinn yrði upp sá háttur að veita heimild til þess að selja vín í flestöllum matsölustöðum hér í bænum, þá mundi hið afleita ástand, sem allir tala um að nú sé ríkjandi í áfengismálunum, stórlega batna við það. Ekki get ég búizt við því, að drykkjuskapurinn mundi minnka við það. Ekki get ég búizt við því, að það verði neitt þægilegra fyrir þá, sem kæra sig ekki um að umgangast drukkna menn eða áfengi, að koma inn á þessa staði, eftir að almenn vinsala verður komin þar í gang. Hver hefur þá aðalbreytingin orðið? Það væri óskandi, að þeir, sem telja, að þetta skipti miklu máli, geri hér fulla grein fyrir því frá sínu sjónarmiði, hvernig ættu að lýsa sér þær endurbætur í áfengismálum landsmanna, sem ættu að koma fram við þessa breytingu.

Við þessa umræðu skal ég svo ekki ræða málið frekar, en vildi mjög óska eftir því, sérstaklega af hæstv. dómsmrh., að hann gæfi hér sem gleggsta skýringu á þessu atriði, sem ég hef hér spurt um, sem sé því, miðað við það ástand, sem nú er, hvað margir staðir, t.d. hér í höfuðborginni, mundu fá vínsöluheimild samkvæmt þessu frv. eins og það lítur út nú.