04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1057)

12. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) Herra forseti. Í frv., eins og það liggur fyrir, er kveðið á um, hver eigi að dæma um það, hverjir séu 1. flokks veitingastaðir, og það er ekki dómsmrn., heldur er það stjórn sambands íslenzkra veitingamanna. Síðan, áður en leyfi er heimilt að veita, á að bera það undir bæjarstjórn á þeim stað, þar sem veitingastaðurinn er, og áfengisvarnanefnd. Þetta eru þær reglur, sem um þetta gilda. Frumatriði þess, sem hv. þm. spurði um, er þess vegna ekki á valdi rn., og það liggur ekki að minni vitund nein rannsókn fyrir um það eða vitneskja, hvernig sá úrskurðaraðili, sem um þetta á að taka ákvörðun, mundi á það lita. Ég get þar af leiðandi ekki svarað þeirri spurningu.

Um það, að hægt væri að bæta úr núverandi ástandi með því að taka upp það ástand, sem var hér áður en vínveitingaleyfið var tekið af Hótel Borg, er það að segja, að sú ákvörðun var tekin vegna þess, að komið var á daginn, að ómögulegt reyndist að framfylgja lögunum samkv. þeirra bókstaf. Það verður ekki um það deilt, að þau vínveitingaleyfi, sem höfðu verið veitt í allríkum mæli, ekki aðeins eftir að ég varð dómsmrh., heldur um langt árabil áður, voru ákaflega hæpin samkv. lögunum, og eftir að komin var fram almenn gagnrýni á þau leyfi og eftir að Alþ. hafði tekið þá afstöðu í málinu, sem það tók í fyrra, þá treysti ég mér ekki til þess að bera ábyrgð á þeirri framkvæmd laganna lengur. Hitt hefði ég talið með öllu óboðlegt og ósæmilegt, ef vinveitingar ættu hvergi að vera lögleyfðar hér á landi nema á því eina veitingahúsi, sem að verulegu magni er sótt af erlendum ferðamönnum. Með því að það sé eini veitingastaðurinn, hlýtur það að draga að sér svo mikið af óæskilegum, — ja, ef til vill ekki gestum, en a.m.k. látum, ef svo má segja, að til vansa verði, — enda er það ekkert launungarmál, að fjöldi manna, sem hér hafði komið, þ. á m. erlendir ráðherrar og erindrekar, höfðu kvartað undan því og borið sig upp undan þeim aðbúnaði, sem þeir ættu við að búa á þessu hóteli, ekki af hótelsins hálfu, heldur fyrir drykkjuskap, sem þar átti sér stað, meðan sá háttur var, sem hv. þm. telur nú að mundi bæta úr þessu ástandi. En það er eðlilegt og óhjákvæmilegt, að ef það er aðeins einn staður í landinu, sem hefur slíkt leyfi, þá kemst þar á töluvert leiður blær. Þetta verður að játa eins og það er, og ég vil a.m.k. ekki taka á mig ábyrgð á því að endurreisa það fyrirkomulag. Alþingi getur gert það með því að setja um það fyrirmæli, ef það vill. Þá er það á þess ábyrgð. En ég vil ekki taka á mig og standa undir þeirri ábyrgð í þeim málum, sem var áður en sú skipun var tekin upp, sem ég ákvað um næstsíðustu áramót.