04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1060)

12. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Ég finn ekki ástæðu til á þessu stigi máls að hefja hér langar umræður. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvaða afgreiðslu þetta mál fær í allshn., sem því verður að sjálfsögðu vísað til, hvaða till. telst nauðsynlegt að bera hér fram til umbóta á frv., og er þess vegna rétt að láta þau atriði bíða, þangað til séð verður, hvaða breytingum þetta frv. tekur.

Það eru, eins og kunnugt er, uppi hér í landi tvær stefnur um það, hvernig eigi að snúast við þeirri geysilegu vínnautnarsýki, sem íslenzka þjóðin er haldin af. Sumir álíta, að bezta ráðið til þess að sporna á móti þessum ófögnuði sé að gefa allt frjálst, láta víníð vera á boðstólum sem allra víðast, bæði í verzlunum, veitingahúsum og annars staðar. Og þeir, sem lengst ganga og hafa mesta og sterkasta trú á þessu úrræði, álíta, að það eigi ekki einasta að hafa sem flestar vínbúðir, heldur beri að halda vínbúðunum opnum allan sólarhringinn. Annars vegar er svo sú stefna, sem bindindisfélögin eða góðtemplarareglan hefur starfað að hér og annars staðar um heim frá öndverðu eða frá því að sá félagsskapur var myndaður, og hún er sú að gera ráðstafanir til þess að hafa nokkrar takmarkanir á þessari hóflausu löngun margra manna og ástríðu til þess að ná í áfengi, með þeim afleiðingum, sem alkunnugt er og ekki þarf að lýsa hér á Alþ.

Þetta eru nú þær tvær aðalstefnur, sem uppi eru. Og frjálsræðið í þessu efni er nú orðið það mikið í þessu landi, að ég las til dæmis að taka núna nýlega grein í blaði, þar sem mjög var ráðizt á alla viðleitni góðtemplarareglunnar til þess að halda aftur af þessum ófagnaði og þær tilraunir, sem þar eru viðhafðar og hafa verið viðhafðar í sögu þess félagsskapar, til að hafa þau áhrif á fólkið, að úr þessu drægi, að þetta væri ef til vill einhver háskasamlegasta starfsemin, sem viðhöfð væri í þessu landi. Þótt hér sé um hjáróma rödd að ræða, sem lítinn hljómgrunn hefur, þá sést hér, við hvað er að stríða. Svona stendur nú þetta mál.

Nú sé ég það, bæði á þessu frv. eins og það er borið hér fram, þegar það er borið saman við eldri löggjöf um þetta efni, og þá ekki síður á þeim breytingum, sem urðu á þessu frv. í meðferð Ed., að frjálsræðisstefnan hefur borið hér hærri hlut. Nú er t.d. sett inn í þetta frv., sem ekki var þó í frv. ríkisstj., ákvæði um það að auka um helming alkóhólmagn í því öll, sem bruggað er í landinu. Og þar er gengið alllangt í áttina til þeirra manna, sem hafa barizt hér fyrir þeirri hugsjón og berjast máske enn, að hér sé farið að brugga öl með meira alkóhólinnihaldi. Það er mjög rækilega tekið í höndina á þeim mönnum með þeirri samþykkt, sem gerð var í Ed. um þetta atriði. En það er auðséð, að ríkisstj. eða hæstv. dómsmrh., sem stendur að flutningi þessa frv., taldi ekki hyggilegt að bjóða Alþingi upp á sterka ölið, því að það hafði hann gert í því frv., sem flutt var hér á siðasta Alþingi og fékk þau afdrif sem kunnugt er, að málið var fellt á fyrsta stigi þess í Ed. Hæstv. dómsmrh., sá skynsami og athuguli maður, dregur réttar ályktanir af þessu og kippir þessu ákvæði í burt, er hann flytur málið að nýju. Nú hef ég ekki til hlítar fylgzt með gangi þessa máls í Ed., en ég veit, að hæstv. dómsmrh. hlýtur að hafa tekið nokkuð sterka afstöðu á móti þessu, þar sem það gengur í öfuga átt við það, sem hans tilgangur var með flutningi frv. að þessu sinni.

En það er fleira í þessu frv., eins og það kemur nú frá Ed. og raunar eins og það var flutt af ríkisstj., sem gengur í þessa frjálsræðisátt. Það er alkunnugt, að í þeirri löggjöf, sem nú gildir um þetta efni, var aðeins veitt heimild til þess að veita vínveitingaleyfi einu gistihúsi í landinu. Að öðru leyti var öll meðferð áfengis í gistihúsum í landinu bönnuð með lögum. Þegar átök urðu um afgreiðslu þessa máls í Ed. í fyrra, tók hæstv. dómsmrh. þá lofsverðu röggsemi á sig að fella niður eða réttara sagt að nota ekki þá heimild, sem var í lögunum um það að veita þessu eina gistihúsi vinveitingaleyfi, og þar með var víninu í leyfilegri sölu og meðferð byggt út af öllum gistihússtöðum í þessu landi. Nú er í þessu frv. aftur á móti, eins og það var flutt af ríkisstj. og eins og það liggur nú fyrir, mjög gengið í frjálsræðisáttina frá því, sem er í núgildandi löggjöf, því að þar er dómsmrh. heimilað að veita leyfi til, að vinveitingar fari fram á öllum gistihúsum í kaupstöðum þessa lands, þar sem uppfyllt eru ákvæði a- og b-liða 12. gr. frv., sem eru þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„a. Að veitingahúsið hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki.“

Þar sem þetta er nú aðalstarfsemi allra gistihúsa, þá mun nú vera vandfundið það gistihús, sem ekki uppfyllir þessi skilyrði. Samkvæmt þessu ákvæði getur það vitanlega náð til allra gistihúsa, sem bera það nafn með rentu. (Gripið fram í.) Veitingahúsa, já, alveg rétt, skilyrðin eru ekki strangari en það, að nóg er, að látin sé í lé einhver veitingaaðstaða.

Svo er það b-liðurinn: „Að veitingahúsið sé að dómi stjórnar Sambands gisti- og veitingahúsaeigenda 1.flokks.“

Ég geri nú ráð fyrir því, að það muni ekki verða mjög miklum erfiðleikum háð að fá slíka yfirlýsingu frá félagsskap þessara gistihúsaeigenda, því að það væri harla einkennilegur félagsskapur, ef hann liti ekki svo á, að hlynna bæri að hagsmunum gistihúsaeigenda með því, að þeir gætu notið hagsmuna af vínsölunni, enda mundi rögun á hæfni húsanna niður á við einnig að öðru leyti vera þeim lítt til hags. Hún mundi ekki einasta gera þessum veitingahúsum erfiðleika eða skaða þau með því, að þau mættu ekki hafa vínsölu, heldur mundi hún gersamlega eyðileggja alla starfsemi þeirra að öðru leyti. Þetta leiðir af sjálfu sér. Þess vegna er það alveg augljóst mál, að þetta ákvæði frv. er gersamlega þýðingarlaust og einskis virði til þess að leggja nokkrar takmarkanir á vínveitingaleyfi hæstv. dómsmrh., hver sem hann er á hverjum tíma. Þess vegna er það, sem hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan um, að þetta ákvæði mundi takmarka vald ráðherrans í þessu efni, alveg fjarri lagi. Ef leitað er umsagnar þessara aðila, þá er ekki annars að vænta af þeim en að þeir líti svo á, að hver krá og knæpa uppfylli þetta skilyrði, og þess vegna stæðu allar leiðir opnar upp á gátt að því að láta þau hafa vínveitingar.

Um leið og ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því, að ég fer að ræða hér einstök atriði frv., sem ekki á nú yfirleitt að vera við 1. umr., þá lít ég svo á, að hér sé um svo þýðingarmikið atriði að ræða, að ég gat ekki hjá því komizt að benda á haldleysi þessa takmörkunarákvæðis, þegar til þess ætti að taka.

Eins og hér hefur komið fram í umr., þá á aðeins að leita umsagnar bæjarstjórnar og áfengisvarnanefndar, og það er auðvitað allt undir dómsmálaráðherranum komið, hvað mikið hann vill leggja upp úr þessum ummælum, en það leggur engar hömlur eða takmarkar ekkert vald hans til þess að veita slíkt leyfi.

Þá er dómsmrh. enn fremur heimilað að velta slík leyfi einnig utan kaupstaðanna, en það er að vísu svo ráð fyrir gert, að þetta skuli því aðeins gert, ef telja megi, að veitingahúsreksturinn sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn. Nú er það svo um gistihúsa- eða veitingahúsarekstur hér, að þetta fer alveg saman; þar sem erlendir ferðamenn njóta slíkrar fyrirgreiðslu, þá njóta einnig landsmenn slíks hins sama. Enginn getur byggt hér gistihúsarekstur á útlendingum einum. Ég held, að það séu ekki til enn sem komið er a.m.k. neinir veitingastaðir hér, sem hægt er að byggja upp á útlendum ferðamönnum eingöngu, heldur er þar aðeins um að ræða þjónustu, sem jafnt fellur í skaut innlendra og erlendra ferðamanna. Þarna er því líka opnað nokkuð, að mér sýnist, upp á gátt um vínveitingaleyfi til slíkra veitingahúsa utan kaupstaðanna, og frá sjónarmiði þeirra manna, sem líta svo á, að frjálsræðið eigi að vera sem allra mest í þessum efnum, er það vitanlega ekkert annað en áherzluatriði að segja: Ja, hví þá að vera að gera upp á milli manna í þessum efnum? Hví þá að vera að láta einn fá það, sem öðrum er bannað? — Þarna er verið að taka góð og gild rök þeirra manna, sem berjast fyrir því, að frjálsræðið í þessum efnum sé algert og allra meina bót. — Ég segi nú fyrir mig, að ég tel það ekki einasta varasamt, heldur háskalegt fyrir Alþ. að sleppa jafnvíðtæku valdi í svo viðkvæmu máli eins og áfengismálið er hér í hendur dómsmrh. Ég tel það mjög viðsjárvert að fela ráðherra slíkt vald. Réttara er að kveða af eða ú um þetta í lögunum sjálfum. Vissulega getur hlaupið snurða á þráðinn milli ráðherra og Alþingis út af beitingu slíks valds, hvort sem um er að ræða þingræðisstjórn, sem styddist ekki við neinn meiri hluta á Alþ., eða stjórn, sem skipuð er af þjóðhöfðingja landsins, svo sem dæmi eru til að gert hefur verið. Ég tel nú í sjálfu sér heldur ólíklegt, að slíkt geti oft að höndum borið, en allur er varinn góður í þessu efni. Og svo er ekki heldur rétt eða hyggilegt að vera að fela einum ráðherra svo mikið og óskorað vald í viðkvæmu máli. Aldrei er hægt að vita, hver áhrif það getur haft á allt okkar stjórnmálalíf í landinu, því að það er nú svo, að ef slíkt kemur upp, þá getur það einnig haft sín áhrif á fleiri sviðum. Þess vegna er það áreiðanlegt, að hér skal á að ósi stemma og allur er varinn góður.

Ég vil þess vegna mjög mælast til þess við allshn., sem fær nú þetta mál til meðferðar, að hún taki þetta til rækilegrar athugunar og ótal fleiri varhugaverð ákvæði í þessu frv.

Ég vil ekki á þessu stigi vera að fara langt inn á þetta mál, en það er fjöldamargt annað, sem ég tel stórvarhugavert í þessu frv., bæði eins og það kom frá ríkisstj. og þá ekki síður eftir þá meðferð, sem þetta mál fékk í Ed. Það er t.d. að taka, að í þessa sömu 12. gr. var sett inn í Ed. ákvæði, sem fellir niður þá tillögu ríkisstj., að bannað sé að taka á móti þjórfé á veitingastöðum. Það hefur verið ráðningamáti hjá ýmsum veitingahúsum hér í Reykjavík og máske annars staðar, — ég þekki það nú ekki svo vel, — að þjónarnir fái laun sín greidd með því að taka aukagjald af veitingahúsgestunum, og það leiðir af sjálfu sér, að þjónarnir hljóta að leggja sig mjög fram um það, að viðskipti hótelgestanna geti orðið sem allra mest, og hápunktur þeirrar viðleitni hlýtur að koma fram í þeim viðskiptum, þar sem um er að ræða vínsölu, af því að þar er verðið svo hátt og eftir mestu að slægjast fyrir þjónana alveg eins og eiganda veitingastaðarins. Með þessu fyrirkomulagi er ekkert til sparað að geta komið sem mestu víni ofan í gestina. Þetta var tekið út, — þetta ákvæði sem mér er sagt að sé nú í löggjöf Norðurlandaþjóða og hafi reynzt hvarvetna vel, þar sem viðleitni er viðhöfð til þess að reyna að sporna á móti ofdrykkjunni. Þetta athæfi Ed. markar því glöggt stefnuna: engar hömlur, en því eina teflt fram, sem örvar og hvetur. — Ég sé, að það er einn hv. þm., sem kinkar hér kolli framan í mig til samþykkis því, — það eru frjálsræðismennirnir í þessu efni, sem kippa vilja í burtu öllum hömlum og öllu því, sem gæti leitt að einhverri takmörkun á hinni taumlausu vínnautn, það er þeirra stefna, markmiðið, sem að er keppt, og það er lofsvert í sjálfu sér að viðurkenna hana, því að það er miklu hægara að berjast við andstæðinginn, sem kemur fram í réttu ljósi, heldur en hinn, sem kemur fram meira og minna dulbúinn. Þetta er sú eina viðurkenning, sem frjálsræðismennirnir í þessu efni geta fengið hjá mér í sambandi við þetta mál.

Ég skal svo ekki fara hér út í fleiri atriði að þessu sinni, en ég vænti þess, að við megum bera það traust til allshn., að hún taki þetta frv. allt til mjög rækilegrar athugunar og að þess megi vænta, að frv. taki miklum umbótum, og breytt verði um stefnu í meðförum n., svo að þar skipti um svip frá því, sem var upprunalega, að ég ekki tali um það svipmót, sem á frv. var sett í meðförum Ed.