04.03.1954
Neðri deild: 57. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

12. mál, áfengislög

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það eru örfá atriði í þessu frv., sem ég tel rétt að vekja athygli á, áður en það fer til n., til þess að viðkomandi þn. geri sér grein fyrir því, að með samþykkt frv. eins og það liggur fyrir væri stefnt í nokkurn vanda, sem þó liggur ekki alveg í augum uppi við það eitt að líta yfir frv.

Ég skal þá fyrst benda á það, að leyfilegt verður að hafa á boðstólum í öllum verzlunum, þ.e.a.s. ef frv. yrði samþ. eins og það nú liggur fyrir, öl, sem hefði að innihaldi allt að 4.4% áfengi. Nú er enginn í vafa um það, að neyzla öls með það miklu alkóhólinnihaldi getur hæglega gert menn fulla, eins og kallað er. Ég vil vekja athygli á því, að slíkt öl mundi ekki heita áfengi, og væri þar af leiðandi heimilt að selja það börnum og hverjum sem vera skyldi. Það er allmikið um það, að börn kaupi einmitt öl eða gosdrykki, og þau gætu allt eins tekið upp á því að kaupa hinn sterka bjór, sem væri á boðstólum fyrir þau í verzlunum, og það er vissulega vandi, sem verður að taka með í reikninginn. Ef þetta heitir ekki áfengi, þá verða ekki heldur hömlur á sölu þess sérstaklega, og ég vil eindregið skora á þá þn., sem fær málið til athugunar, að gefa þessari hlið málsins fullan gaum.

Þá skal ég einnig geta þess, að við samþykkt frumvarpsins mundu skapast nokkrir örðugleikar t.d. í sambandi við þau störf, sem menn mega ekki vera ölvaðir við, eins og t.d. akstur bifreiða og annað þess háttar. Það er vel hugsanlegt, að einn bifreiðarstjóri drekki það öl, sem ekki heitir áfengi samkv. skilgreiningu Alþingis, drekki sig ölvaðan af því og sé þar af leiðandi ekki starfi sínu vaxinn, fremji meiri eða minni afglöp í starfi, valdi slysum eða einhverju þess háttar. Hvað á að segja um slíka hluti? Maðurinn hefur ekki drukkið áfengi; hann er sem sé ekki fullur af áfengi, og þess vegna verður hann tæplega dreginn fyrir lög og dóm sem sekur um að hafa framkvæmt það, sem bannað er í lögum, að aka bifreið undir áhrifum áfengis, — hann er þá einna frekast undir áhrifum Alþingis, eri hvort það væri saknæmt, það er nýtt vandamál.

Að öðru leyti skal ég ekki orðlengja — um þetta frv. Ég vil taka undir þá skoðun, sem komið hefur hér fram hjá allmörgum hv. þm., að með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir, er næstum óhjákvæmilegt, að áfengissala yrði í flestum veitingahúsum þessa bæjar og þessa lands, þar sem það eru gistihúsaeigendurnir sjálfir, sem eiga að verulegu leyti að. hafa úrslitaorð um það, hvort hús þeirra séu til þess hæf að fá veitingaleyfi eða ekki. Það dettur auðvitað engum í hug, að veitingastaðirnir hér í Reykjavík og viðar á landinu séu 1. flokks raunverulega, en þar sem matið er nú svo sérkennilegt eftir þessu frv., að það eru eigendurnir sjálfir, sem eiga að dæma um það og flokka veitingahús sín, þá dylst engum, að þeir mundu láta það sjónarmiðið fyrst og fremst ráða, hvað væri arðvænlegast í þeim efnum, og flokka undir 1. flokk veitingahús, sem samkvæmt almennum hugtökum ættu þar ekki heima.