24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

12. mál, áfengislög

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Umræður hér á landi um áfengismál hafa oft byggzt frekar á tilfinningum en rökréttri hugsun. Einmitt þess vegna hafa reglur um veitingar og sölu áfengra drykkja verið hér mjög óskynsamlegar. Einblínt hefur verið á höft og bönn, en minna hirt um hitt, að gera sér ljósar afleiðingar þeirra. Af þessu hefur svo leitt fullkomið öngþveitisástand. Hinar ströngu reglur hafa ekki dregið úr drykkjuskapnum. Þær hafa ekki heldur bætt samkvæmissiði landsmanna. Þær hafa þvert á móti sett hreinan ómenningarblæ á meginhluta alls samkomuhalds í landinu. Þessar dapurlegu staðreyndir er óþarft að rekja. Þær eru alþjóð kunnar.

Það er skoðun mín, að frv. það, sem hér liggur fyrir, feli í sér nokkra endurbót á þessu sviði. Það felur í sér viðleitni til þess að draga réttar ályktanir af reynslu þjóðarinnar í þessum efnum.

En það er ekki ætlun mín að gera þetta mál hér almennt að umræðuefni. Tilefni þess, að ég segi hér nokkur orð, er fyrst og fremst það, að á þskj. 519 höfum við 5 þm. leyft okkur að bera fram brtt. við 7. gr. frv. Í þessari brtt. er lagt til, að heimilt sé að leyfa tilbúning öls, sem hefur inni að halda allt að 31/2% af vínanda að þunga eða 4.4% að rúmmáli. Nánari ákvæði um sölumeðferð þessa öls skulu svo sett í reglugerð. Hv. allshn., sem fjallað hefur um þetta mál, mælir hins vegar með því, að heimilt sé að brugga hér slíkt öl fyrir hið erlenda varnarlið og til útflutnings.

Um þá till. hv. n. að leggja aðeins til, að heimilt verði að brugga handa hinu erlenda varnarliði, vil ég aðeins segja það, að ég hef alltaf talið það mjög hæpna ráðstöfun, þó að hún hafi verið talin nauðsynleg, að fara að gera einhvern mun á því fólki, sem í landinu dvelur, eftir því, hvort það heitir erlent varnarlið suður á Keflavíkurflugvelli eða íslenzkt fólk í byggðum landsins. Ég álít, að í þessu felist beint vanmat á þroska íslenzkra manna og hæfileikum þeirra til þess að umgangast þessa vöru, sem yfirleitt er talin almenn neyzluvara í flestum löndum, en ekki fyrst og fremst áfengi.

Við flm. þessarar brtt. teljum, að með því að leyfa tilbúning og sölu öls með fyrrgreindum styrkleika. skapist líkur fyrir því, að nokkuð dragi úr neyzlu hinna brenndu drykkja. En af henni sprettur fyrst og fremst það böl, sem áfengi veldur allt of mörgu fólki í þessu landi. Það er líka staðreynd, sem ekki verður á móti mælt, að þær þjóðir, sem leyfa framleiðslu og sölu öls í landi sínu, fara flestar miklu betur með vín en Íslendingar, sem nær eingöngu neyta hinna sterku drykkja. Það er staðreynd,að áfengi er því minna skaðlegt sem það er þynnra.

Önnur rök fyrir þeirri brtt., sem ég hef hér drepið á og við flytjum, eru m.a. þau, að íslenzk skip kaupa nú erlent öl fyrir milljónir króna. Þetta þýðir gersamlega óþarfa sóun á dýrmætum gjaldeyri, sem þjóðin hefur allt of lítið af. Ég fæ ekki betur séð en við höfum öll skilyrði til þess að geta framleitt handa íslenzkum skipum, bæði fyrir Íslendinga sjálfa og erlenda farþega, sem með þeim ferðast, nákvæmlega jafngóða vöru af þessari tegund og þau kaupa nú dýrum dómum í útlöndum. Einnig frá þessu sjónarmiði séð væri það skynsamlegt að leyfa tilbúning þess öls, sem till. okkar fjallar um að leyft verði.

Þá má einnig á það minna, að ekki er ólíklegt, að Íslendingar gætu fengið þó nokkrar gjaldeyristekjur einmitt með útflutningi öls til annarra þjóða. Við vitum það, að ýmsar nágrannaþjóðir okkar, eins og t.d. Danir og Hollendingar, hafa miklar gjaldeyristekjur af ölútflutningi. Danskt og hollenzkt öl er þekkt um allan heim. Hvar sem maður kemur í heiminum, getur að líta það á markaðnum, og þessar þjóðir hafa unnið mjög öruggan markað fyrir þessa vöru sína. Engum kemur til hugar að halda því fram í þessum löndum, að það sé óskynsamlegt eða jafnvel þjóðhættulegt að leyfa þessa framleiðslu, til þess að þjóðirnar geti flutt hana út og hagnazt á henni. Á hana er þvert á móti litið sem sjálfsagðan og eðlilegan lið í þjóðarbúskapnum.

Loks vil ég minna á það, að meðal flestra ef ekki allra menningarþjóða er leyft að búa til öl af sama styrkleika og sterkara en gert er ráð fyrir í þessari brtt. okkar. Ég veit ekki um nema eitt land, þar sem þetta er alveg sérstaklega bannað. Það er í Grænlandi. Eskimóar eru ekki taldir hafa þroska til þess að umgangast öl. Ég fæ ekki betur séð en að þeir menn, sem mest hafa hamazt gegn því, að þetta yrði leyft hér á landi, hafi þar með sett okkur á borð með Eskimóum.

Ég vil benda á það, að einmitt þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar og næstar, Norðurlandaþjóðirnar, leyfa framleiðslu þessarar vöru, og þær þeirra, sem hafa ekki gert það um skeið, búa sig nú undir að gera það. Norðmenn höfðu um skeið bannað framleiðslu öls í landi sinn, en þeir tóku hana upp að nokkrum tíma liðnum. Og enginn talar um það, að það hafi aukið drykkjuskap í Noregi. Svíar hafa um allmörg undanfarin ár ekki leyft bruggun áfengs öls fyrir innanlandsmarkað. En í þeirri áfengislöggjöf, sem ríkisstj. Svíþjóðar hefur nú lagt fram í sænska ríkisdeginum, er það einn liður í till. stjórnarinnar, að leyft verði að brugga öl með svipuðum styrkleika og hér er gert ráð fyrir. Ég vildi nú mega spyrja mína hv. og ágætu vini, sem ræddu hér þetta mál í gær, hvort þeir teldu nú líklegt, að ríkisstjórnir Svíþjóðar og Noregs, sem hafa reynsluna af öli og ekki öli, muni vera að gera þetta til þess að eitra fyrir æsku landa sinna, eins og látið er í veðri vaka að við höfum gert, sem höfum imprað á þessu máli hér á hv. Alþingi. Ég held, að það sé ákaflega hæpið að draga þá ályktun. Ég held, að hitt sé miklu líklegra, að jafnaðarmannastjórnin sænska sé að gera þetta vegna þess, að hún telji, að það bæti ástandið í áfengismálunum. Hún er líka að afnema skömmtun á áfengi. Halda hv. þm. hér, að hún geri það beinlínis til þess að tryggja, að það fari meira áfengi ofan í þjóðina? Ég held, að hún geri það ekki vegna þess. Ég held, að hún kæri sig ekkert um, að þjóðin drekki meira, en hún vill áreiðanlega, að þjóðin fari betur með áfengi, og hún vill, að reglur um sölu og veitingar áfengis séu hafðar í heiðri. Ég held, að það sé vegna þessa, sem sænska stj. leggur til, að bæði skömmtun á. áfengi verði afnumin og leyfð verði bruggun létts áfengs öls. Þessar þjóðir hika ekkert við það að læra af reynslunni. Svíar og Norðmenn vita það, að þær drekka frekar illa, eins og það er kallað, kannske ekki eins illa og við Íslendingar. Beztu mönnum þeirra er það ljóst, að þetta ástand er þessum menningarþjóðum ekki samboðið. Þess vegna vilja þeir reyna að fara nýjar leiðir og byggja þá á reynslu sinni.

Nei, þessi rök halda ekki hjá mínum hv. vinum hér, að það sé vitandi vits verið að hella yfir þjóðirnar ölflóði til þess að eitra fyrir þær, eins og mér skildist á þessum hv. þm. hér í málflutningi sínum í gær.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að það hefði verið lagt ofurkapp á það að koma áfengu öll ofan í þjóðina. Hverjir hafa lagt ofurkapp á það? Mér er spurn. Ég hef hér á hv. Alþ. flutt einu sinni frv. um þetta ásamt tveimur öðrum hv. þm. Það dagaði uppi í n. eftir tiltölulega rólegar umr. Við höfum ekki flutt það mál aftur, fyrr en v:ð flytjum þessa till. hér nú. Áður hafði einu sinni verið flutt frv. um þetta. Hv. þm. Mýr. fyrrv., núv. sendiherra okkar í Osló, flutti frv. um þetta, mig minnir fyrir réttum 20 árum. Síðan var málið ekki flutt fyrr en við fluttum það, ég held 15 árum síðar. Hvaða ofurkapp hefur verið lagt á það að koma öli ofan í þjóðina? En það hefur orðið vart við ofurkapp hjá öðrum mönnum. Það hefur orðið vart við ofurkapp hjá þeim mönnum, sem hafa barizt gegn þessu. Þrátt fyrir það að aðeins tvisvar á þessu 20 ára tímabili hafi verið sýndar till. um þetta, þá hefur ofurkappið verið svo mikið gegn því, að það er rétt eins og málið hafi verið flutt á hverju þingi. (Gripið fram í.) Ég vil spyrja hv. þm. Borgf.: Hafa þessi mál verið flutt hér oftar inn á Alþ.? Ég held, að hv. þm. Borgf., sem búinn er að eiga sæti í hartnær 40 ár á Alþ., kunni það vel sögu þessa 20 ára tímabils, að hann muni það, að ég fer rétt með þetta. Nei, ofurkappið er af hálfu þeirra manna, sem bókstaflega geta ekki hugsað sér annað en að þjóðin fái bara beinhart brennivín að drekka. Það eru þeir menn, sem beita ofurkappi. Það eru þeir menn, sem sveitast blóðinu við það að telja Íslendingum trú um, að 60% brennivín sé hollari drykkur en 4% öl. Það er af hálfu þessara manna, sem ofurkappinn hefur verið beitt. Og þetta veit ég að minn hv. vinur, 2. þm. Eyf., sem um þessi mál talaði hér af miklum fjálgleik í gær, hlýtur að viðurkenna. Hann sagði hér ekki í gær: Ég stend hér upp til þess að mótmæla því, að vín sé selt í landinu. Það er staðreynd, að það er selt og það verður selt. — Hvaða vín? Þetta 60% brennivín. Hann stóð ekki upp til þess að berjast á móti því, að það yrði selt. Barátta hans beindist öll gegn þessu 4% öli.

Margir hafa falað um það, að ein aðalhættan, sem fælist í því að leyfa ölbruggun, væri það, að börn og unglingar kynnu að fara að drekka þennan létta drykk, þegar hann kæmi á markaðinn. Ég vildi mega spyrja: Ef nú rök þessara manna væru rétt, ef hættan væri virkilega fyrir hendi á því, að þetta færi þannig, þá ætti að mega reikna með því, að unglingar á Íslandi byrjuðu á því að drekka hin léttu suðrænu vín. En hvað segir nú reynslan um það? Við höfum fengið hagrænar upplýsingar um það frá áfengisverzlun ríkisins, hversu mikið er selt af léttum vínum í landinu, og það er alveg hverfandi samanborið við hina brenndu drykki. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta mann halda því fram, að unglingar byrji yfirleitt á því að drekka þessi léttu vín. En á hverju byrja þá unglingarnir að drekka? Þeir byrja á sterku drykkjunum, á brennivininn. Halda menn nú, að það væri einhver goðgá, að unga fólkið, sem byrjar á því að dreypa á þessum sterku logandi drykkjum, ætti nú kost á því að fá 4% öl í staðinn fyrir þá? Ég fæ ekki skilið það. Ég fæ ekki skilið, að það sé meiri heilsuspillir að því fyrir þann unga mann, sem því miður kann á æskuárum að villast til þess að fara að neyta áfengís, að neyta þess áfengis, sem 4% af alkóhóli er í, í staðinn fyrir að drekka 60% brennivin. Það getur vel verið, að hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Borgf. finnist eitthvað minni hætta felast í þessu fyrir unglinga og æskufólk, að dreypa á slíkum 60% drykk heldur en 4% öli. Ég trúi því ekki.

Ein stærsta röksemdin í þessu máli er svo sú í sambandi við drykkjuskap æskunnar, að hér hefur ekkert öl verið leyft í landinu undanfarna áratugi. Engu að síður drekkur æskan. Hverju reiddust goðin, þá er hraun það brann, er vér nú stöndum á? spurði vís maður fyrir nokkur hundruð árum. Hvers vegna drekkur íslenzk æska í dag, þó að ekkert öl hafi verið til, ef þau rök halda, að aðalhættan, sem að henni steðjar í þessum málum, sé einmitt slíkur léttur drykkur? Nei, hér ber allt að sama brunni. Rökin hjá hinum kappsfullu andstæðingum hins létta öls halda ekki. Þau ganga í berhögg við heilbrigða skynsemi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða öllu frekar um þessa till. Ég fagna því, að hv. frsm. allshn. gat þess, að n. hefði hvorki tekið afstöðu með né móti tilbúningi 31/2% öls, hins vegar hefði hún lagt til, að breytt yrði skilgreiningu 2. gr. frv. um það, hvað sé áfengi, þeirri skilgreiningu, sem sett var inn í frv. í hv. Ed. Ég er alveg sammála n. um það, að það er eðlilegt, að þessari skilgreiningu sé breytt, og ég tel það sjálfsagt, a,ð sú brtt. nefndarinnar sé samþykkt. En hins vegar tel ég það jafnsjálfsagt, að sú brtt., sem ég flyt hér ásamt hv. 1. þm. Skagf., hv. 5. þm. Reykv., hv. 2. þm. Rang. og hv. þm. Siglf., verði hér samþykkt.

Ég vil svo aðeins segja það, af því að ég hef verið bendlaður oft og einatt mikið við þetta ölmál, að ég hef einungis flutt það vegna þess, að ég hef talið það skynsamlegt og ég hef talið líklegt, að það gæti átt nokkurn þátt í að bæta úr því ófremdarástandi, sem hér hefur ríkt í áfengismálunum. En eins og hv. frsm. allshn. sagði, þá er það aðalatriðið í þessu máli, að hér takist að skapa heilbrigt almenningsálit, sem fordæmi drykkjuskap og óreglu, þannig að það þyki vanvirða að því, að maður sjáist ölvaður á almannafæri, og það þyki vanvirða að því yfirleitt að drekka frá sér vit og rænu. Áhrifamesta leiðin til þess að halda æskunni frá drykkjuskap held ég að sé sú að bæta aðstöðu hennar sem allra mest til íþróttaiðkana og útivistar.

Ég vil svo að lokum skora á hv. þingmenn að fylgja sannfæringu sinni, þegar til atkvgr. kemur um þessa till. Ef þeir gera það, er ég alveg viss um, að hún verður samþykkt.