06.11.1953
Efri deild: 16. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

6. mál, gengisskráning

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Síðast þegar breytt var reglum um greiðslu verðlagsuppbótar á kaupgjald í landinu, var ákveðið af hv. Alþingi eftir till. ríkisstj., að sömu reglur skyldu gilda um greiðslu verðlagsuppbóta á laun opinberra starfsmanna. Þessi regla var þá lögfest til 1. des. n.k. Nú þykir sanngjarnt að framlengja þetta, og með þessu frv. er stungið upp á því, að þessi regla verði nú lögfest til 1. des. 1954.

Ég leyfi mér að óska eftir því, að málinu verði vísað til hv. fjhn. að lokinni þessari umræðu.