24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

12. mál, áfengislög

Pétur Ottesen:

Þegar ég talaði hér í gær fyrir brtt. mínum á þskj. 496, þá mun mér hafa láðst að geta hér um eina af þessum brtt. eða einn lið í mínum brtt. Það er sem sé við 6. gr., að því er snertir ákvæðin um landhelgi þá, sem áfengislagaákvæðin taka til. Í frv., eins og það liggur hér fyrir og kom frá Ed., — en ákvæðin um þetta munu ekki hafa tekið neinni breytingu í Ed., heldur eru þau í því formi sem frv. var flutt, — skilst mér, að ákvæðin samrýmist ekki að öllu leyti þeirri fiskveiðalandhelgi eða ákvæðum um fiskveiðaréttindi við strendur landsins, sem nú gilda. Brtt. mín er því við það miðuð að tengja þetta nú saman. Meðan við bjuggum hér við þriggja mílna landhelgi, var sú landhelgi, sem áfengislagaákvæðin tóku til, einum mílufjórðungi lengra á haf út eða 4 sjómílur, eins og nú gildir, en gömlu ákvæðin eru látin halda sér um breidd flóa og fjarða, sem þá var miðað við, en það er orðið úrelt nú, miðað við þá fiskveiðalandhelgi, sem við búum við. Hef ég þess vegna markað landhelgina eins og hún er nú, og brtt. mín um þetta hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Landhelgi samkvæmt þessum lögum skal vera hið friðlýsta svæði innan línu, sem dregin er fjórar sjómílur utan við línur þær, sem ákveðnar eru í reglugerð nr. 21 1952, um verndun fiskimiða umhverfis Ísland.“

Geri ég ráð fyrir, að það verði talið eðlilegt að hafa þetta orðalag, miðað við það, sem nú gildir í þessum efnum.

Ég þarf nú raunar ekki að bæta miklu við þá grg. eða framsögu, sem ég flutti hér fyrir mínum till. í gær. Ég gerði þar, að ég ætla, nokkuð ljósa grein fyrir þeirri stefnu, sem þar er fylgt, auk þess sem ég ræddi nokkuð um einstaka framkvæmdaliði þessa máls í því sambandi. Að þeim rökum, sem ég færði fyrir mínu máll, hefur lítið verið vikið af þeim, sem hér hafa talað, þrátt fyrir það þó að þeir máske sumir séu nokkuð á öndverðum meið við mig um sumt. Þess vegna er ástæðulaust að ræða um þá hlið þessa máls frekar nú við framhald þessarar umr.

Hins vegar gat ég þess, að hér væru brtt., sem ástæða væri til að minnast nokkuð á, en þar sem þá hafði ekki verið gerð grein fyrir þeim, vildi ég ekki ræða þær fyrr en flutningsmenn þeirra hefðu haft tækifæri til þess að reifa þær. Til dæmis að taka viðvíkjandi brtt. á þskj. 516, sem þeir flytja, hv. 2. þm. Eyf. og hv. 5. þm. Reykv., benti ég hv. 2. þm. Eyf. á það, að réttara væri að breyta nokkuð orðalagi þessarar till., svo að það kæmi skýrt fram, hvernig yrði hagað greiðslum til þeirra eftirlitsmanna, sem þar er gert ráð fyrir að dómsmrh. sé heimilt að skipa, ef það yrði nú ofan á, að áfengisveitingar á veitinga- og gistihúsum yrðu leyfðar. Nú hefur hv. 2. þm. Eyf. tekið þetta til greina og flutt skriflega brtt. hér í samræmi við þessar ábendingar mínar. Hins vegar er það svo, að ef samþ. verða mínar till. um það, að ekki verði leyfðar vínveitingar á veitinga- og gistihúsum, þá vitanlega kemur þessi brtt. ekki til atkvæða, af því að þá á hún ekki orðið við efni frv. eins og það þá mundi vera orðið.

Hv. 2. þm. Eyf. hefur nú gert svo hreint fyrir dyrum okkar, sem erum því andvígir, að hér verði farið að stofna til bruggunar á sterku öli og sölu innanlands, að ég þarf raunar ákaflega litlu við það að bæta. Hann hefur dregið hér fram á mjög skilmerkilegan hátt þær hættur, sem blasa við gagnvart æsku þessa lands, ef farið verður inn á þá braut að leyfa hér bruggun og sölu áfengi af þeim styrkleika, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Og hann hefur ekki einasta túlkað hér hugboð fjölda manna í landinu um þá hættu, sem okkur Íslendingum væri af þessu búin, heldur hefur hann stutt þetta með órækum dæmum frá nágrannaþjóðum okkar, þar sem dæma má af langri reynslu í þessu efni. Þó að við búum hér við mjög beiska reynslu að því er snertir afleiðingar af ofnautn áfengra drykkja, þá eru þó ýmsar aðrar þjóðir enn verr komnar í þessu efni. En allar þessar þjóðir, sem komnar eru lengra ofan í svaðið í þessu efni, þar sem drukkið er allt að því helmingi meira áfengismagn á ári á hvern íbúa heldur en hér er hjá okkur, leyfa annaðhvort bruggun og sölu áfengs öls eða þá brugga og selja létt vin, eins og t.d. Frakkar, sem allra manna lengst, eða a.m.k. þeirra, þar sem skýrslur eru haldnar um þetta, eru lengst komnir afvega í því að selja sig á vald vínsins og þeirra afleiðinga, sem mikil nautn þess hefur í för með sér, og það svo, að til beinnar úrkynjunar stefnir. Þetta eru allt saman óræk dæmi og með þeim hníga stoðir undir hugboð þeirra manna og ótta við afleiðingar þess, að þetta verði tekið upp hér á landi, og taka af skarið um það, að sá ótti sé á fullkomnum rökum reistur.

Þá er rétt að geta þess, að eins og nú er komið, þá ber þetta orðið harla einkennilega að um tillögur þeirra manna, sem endilega vilja, að hér verði bruggað og selt áfengt öl. Í frv., eins og það kom frá Ed., eru ákvæðin um þetta sett inn í 2. gr. þessa frv. En þegar það svo kemur á daginn, að fengizt hefur um það samkomulag í allshn. að leggja til að nema þetta ákvæði út úr frv. og láta gömlu ákvæðin um styrkleika hins óáfenga öls standa, þá rísa hér upp fimm dm. og bera fram till. um það, að þessi ákvæði skuli tekin upp í 7. gr. frv. M.ö.o. eru þeir hér með nokkurs konar vistaskipti á þessum ákvæðum eða máske réttara sagt nokkurs konar búferlaflutninga þessara ákvæða á milli greina í frv., eins og á sér stað, þegar menn í sveitum þessa lands flytja búferlum í fardögum, eins og alkunnugt er, af einni jörð á aðra. Þetta ber harla einkennilega að, og því einkennilegra er það, þar sem a.m.k. einn af flm. brtt. á þskj. 519 um að taka þessi ákvæði upp í 7. gr. ber fram ásamt meðnm. sínum í allshn. till. um að fella ákvæðin um þetta áfengismagn niður úr 2. gr. Þetta virðist vera harla einkennilegar aðfarir, og sýnir það, að þeir menn, sem að þessu standa, eru í hálfgerðu vandræðaástandi með að koma þessu fóstri sínu á framfæri, og þeim er það ekki láandi, svo illt og bölvað sem það er. Þeir leggja sem sé til að deyða fóstrið á öðrum stað, en vekja það svo aftur upp frá dauðum á hinum staðnum. Þetta er harla einkennileg aðferð og ég held alveg einsdæmi í meðferð mála á Alþingi.

Ég gat þess hér áðan, þegar hv. þm. N-Ísf. var að rekja feril þessa sterka öls hér á Alþ. að undanförnu, að hann hefði ekki tíundað til fullnustu þann hlut, sem hann á í flutningi þessara mála, og tók hann það, að ég ætla, harla óstinnt upp fyrir mér. En ég heyrði nú ekki allt af því, sem hann sagði um þetta efni, af því að ég var þá í þeim svifunum kallaður til að tala við landssímann og varð að víkja mér frá. Það var alveg rétt hjá honum, að það mun hafa verið á þinginu 1932, sem þáverandi þm. Mýr. (BÁ) flutti till. um það, að farið yrði að brugga og selja sterkt öl hér á landi, og átti þá að veita einstökum manni eða einstöku félagi einkaleyfi til þessarar bruggunar. Þessi bruggunar- og sölutilraun áfengs öls fékk nú þau afdrif þá, að málið komst ekki einu sinni gegnum 1. umr. Það voru haldnar nokkrar ræður um það, og þar með var ferli þess að því sinni lokið á Alþingi. Svo er það hv. þm. N-Ísf., sem vekur þetta mál upp aftur á þinginu 1947 ásamt 1. þm. Skagf. (StgrSt). Þá komst þó málið dálítið áleiðis. Það komst í gegnum 1. umr. og til nefndar, en nál. var aldrei gefið út um það, heldur svæfði n. málið, og lengra komst það ekki þá. En svo rennur upp árið 1950. Þá flytur hv. þm. N-Ísf. þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á áfengislögunum, og einn þátturinn í þeirri endurskoðun var einmitt uppvakning á hugmynd hans um að fara að brugga hér sterkt öl, en hann hafði þá nokkuð slegið af í þessu efni, því að þá átti eingöngu að brugga öl til útflutnings. Í till. stendur svo: „Jafnframt henni (þ.e. jafnframt endurskoðuninni) skal framkvæmd athugun á því, hvort unnt sé að skapa landsmönnum auknar gjaldeyristekjur með því að leyfa hér bruggun áfengs öls til útflutnings.“ Þá átti að fara að brugga öl til þess að afla landinu gjaldeyristekna og spekúlera í drykkjugirnd manna í öðrum löndum, eða máske í öðrum heimsálfum, en landsmenn áttu þá að vera fríir af ósómanum. (Gripið fram í: Eins og Eskimóar.) Ja, ég vík kannske að Eskimóunum heldur fyrr en seinna. Svona var nú þetta þá, og það er það, sem ég átti við, að hv. þm. tíundaði ekki allt. Það var þessi ábaggi hans, sem hann hafði þá gleymt í þeirri andrá, og er það nú máske ekkert tiltökumál. Þessi þáltill. hv. þm. N-Ísf. komst í n., og nú kom nál. En þá var þessu öllu snúið við í höndum hv. þm., því að n. hafði samið nýja till., þar sem tekið var undir hugmyndina um að endurskoða áfengislöggjöfina, en allt í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun áfengis í landinu, sem sé með því að löggjöfin um þetta efni væri háð takmörkunum á ofnautn áfengis í landinu, einmitt í þá stefnu, sem ég held fram að við eigum að fylgja og ég hef í mínum till. gerzt hér talsmaður fyrir og er í fullu samræmi við stefnu og starf þess fólks í þessu landi, sem tekið hefur að sér það göfuga hlutverk að verja miklu af starfskröftum sínum um allar byggðir þessa lands til þess að hamla á móti notkun áfengis.

Þegar hv. þm. N-Ísf. flutti frv. sitt 1947, þá var hann þar við þriðja mann á því frv., en þegar hann svo reyndi að endurvekja þessa hugmynd um ölbruggunina aftur 1950, þá var hann orðinn einn á bát. Nú hefur hann fengið nokkurn liðsauka, því að nú er hann kominn hér á fjögurra manna far og er þar einn yfirskipsmaður, því að flm. eru nú orðnir fimm, þannig að það má nú segja, að á fjögurra manna farinu sé nú allvel mannað. Hann hefur sem sé með sér þar fjóra ræðara, en sjálfur situr hann við stýrið.

Ég sagði áðan, að hv. 2. þm. Eyf. hefði gert þessu máli svo rækileg skil frá sjónarmiði okkar, sem óttumst aukna vínnautn í landinu við það, að farið verði að brugga hér sterkt öl, sem sé, að þau fyrirbrigði í þessu efni, sem komið hafa í ljós og ganga ljósum logum í þeim löndum, þar sem áfengt öl er bruggað og selt, að það verði til þess að auka vínnautnina, muni ekki fara fram hjá bæjardyrum okkar, heldur muni hér verða vart við hin sömu áhrif, og við vitum ekkert nema þau áhrif geti komið fram í enn þá sterkari og ægilegri mynd. Við þekkjum það vel, að drykkjugirndin er ákaflega rík hjá mörgum borgurum þessa lands. Þess vegna er að sjálfsögðu ákaflega hættulegt, þar sem þetta liggur svo ríkt í blóði landsmanna, að fara hér að brugga sterkt öl, sem öðru fremur samkv. reynslu annarra þjóða leiðir til þess, að æskan fari út á drykkjubrautina, því að í því efni er reynslan alls staðar söm við sig. Og það er staðreynd hér hjá okkur, að þeir menn eru margir, sem fara að neyta áfengis í hófi fyrst til þess að byrja með, en drykkjugirndin er svo rík í eðli þeirra, að þeir ráða ekki margir hverjir við þá ástríðu og lenda í því vesældar- og hörmungarástandi eins og alkunnugt er að hent hefur allt of marga af íslenzkum borgurum.

Hv. þm. N-Ísf. sagði, að þetta, sem hann kallaði nú létt öl, þetta áfenga, sem hann vill brugga, sem mun nú vera nokkuð af líkum styrkleika og drukkið er heima fyrir í Danmörku og í nágrannalöndunum, þó að þeir hins vegar bruggi sterkara öl til útflutnings, — hann sagði, að það mætti frekar líta á þetta sem neyzluvöru, — og guð minn góður komi til, ef það á að fara að líta á ölið með þessum styrkleika sem neyzluvöru. Hvernig færi, ef sá hugsunarháttur festi rætur með þjóð vorri, hvernig mundi þá ástandið verða hér eftir nokkurn tíma? Ég held, að hv. þm. hljóti að gera sér það alveg ljóst, þrátt fyrir það þó að hann beiti nokkurri ásækni í þessu efni, að hann er hér á ákaflega hættulegum villigötum; hann er á þjóðhættulegum villigötum með þessa till. sína, ef það á að fara að líta á þennan bjór sem einn þátt í neyzluvörum landsmanna. — Ég veit, að hv. þm. hefur tæplega gert sér grein fyrir því, hvað hann var að segja, þegar hann lét þessi orð falla hér áðan. Þessi bruggunaráhugi, sem hann er haldinn af, hefur hlaupið í gönur með hann.

Hv. þm. N-Ísf. sagði, að áfengið væri þeim mun minna skaðlegt, sem það væri þynnra. Hví í ósköpunum vili hann þá vera að gera ölið styrkara heldur en það er, svo að ég haldi bara líkingunni? Þetta er allt svo furðulega vanhugsað hjá hv. þm.

Viðvíkjandi hugmyndinni um að fara að brugga hér bjór til útflutnings og afla þannig gjaldeyristekna, dró hv. þm. upp nokkra mynd af því, hvað Íslendingar mundu geta á þessu grætt. Það er alveg rétt, að Danir afla mikilla gjaldeyristekna með sölu á bjór, og þeir eru taldir standa framarlega í því efni. Þetta freistaði Norðmanna á sínum tíma. Þeir ætluðu líka að feta í fótspor Dana um þetta og fóru að brugga sterkt öl. En hver varð reynslan hjá þeim í þessu efni að því er snertir útflutninginn? Þeir komust aldrei hærra en það að geta selt 6% af framleiðslunni til annarra landa, hitt fór allt saman ofan í þá sjálfa eins og það lagði sig. Ég skal ekkert segja um það, hvort Íslendingar mundu skáka frændum sínum og nábúum, Norðmönnum, í þessu efni og verða duglegri að selja bjórinn erlendis, það, sem hér væri búið til, en svona fór nú þetta fyrir Norðmönnum.

Af því að hér er talað um það, hvað Danir hafi miklar gjaldeyristekjur af bjórnum, þá er það ekki nema önnur hlið þessa máls í Danmörku. Það er vitað, að bjórneyzlan heima fyrir í Danmörku er að verða í vaxandi mæli hreint og beint þjóðarböl. Hér var á s.l. sumri haldið norrænt bindindisþing. Á því þingi mætti sá maður, sem nú um fimm áratugi hefur verið framkvæmdastjóri bindindissamtakanna í Danmörku, Adolf Hansen. Hann flutti á þessu norræna bindindisþingi hér erindi um ölbruggunina í Danmörk og hvaða áhrif þetta hefði á dönsku þjóðina, og þær lýsingar voru mjög átakanlegar. Aðalefni þess erindis, sem framkvæmdastjóri bindindissamtakanna í Danmörku, Adolf Hansen, flutti, var birt núna alveg nýlega í Morgunblaðinu, og ég vil nú spyrja hv. þm. N-Ísf., hvort hann lesi ekki Morgunblaðið? Þar hefði hann getað fengið alveg óyggjandi fræðslu um þetta efni úr erindi þessa valinkunna og grandvara manns. Hann er ekki kominn hér upp til Íslands til þess að afflytja dönsku þjóðina eða bera henni verr sögu en ástæða væri til. Honum þykir vænt um sína þjóð, og þessi væntumþykja hans hefur m.a. komið fram í því, að hann hefur gert það að aðallífsstarfi sínu að reyna að hamla upp á móti skaðlegum afleiðingum áfengisnautnarinnar í Danmörku. Hann kemur til Íslands til þess að segja blákaldan sannleikann um þessi mál og í athugunarskyni fyrir alla þá fulltrúa frá Norðurlöndunum, sem mættir voru hér á þessu norræna bindindisþingi, og þ. á m. til aðvörunar fyrir Íslendinga.

Hv. þm. N-Ísf. talaði um það sem sérstakt ómenningaratriði hjá Íslendingum, að þeir brugguðu ekki sterkt öl, og í þessu efni ættu þeir enga sína líka aðra en Eskimóa. Ja, það er mjög einkennilegt og kemur mjög í bága við sambúðarsögu Íslendinga og Dana, ef Danir hafa ekki séð þessum fáu Eskimóum fyrir nógu öli í Grænlandi. Ég skil ekki annað en að það hefði verið að bera í bakkafullan lækinn, að Eskimóarnir hefðu farið að brugga þar öl. Við þekkjum það frá fyrri sambúðarárum Íslendinga og Dana, meðan einveldi var og einokun á verzluninni. Þá skorti það aldrei, að hingað væri flutt til lands nóg af brennivíni, þó að fólkið jafnvel félli úr harðrétti, af því að hér skorti nauðsynjavörur. Það þarf varla að gera ráð fyrir því, að Eskimóana hafi skort bjór og brennivin undir handleiðslu Dana.

Ég skal nú ekki fara öllu fleiri orðum um þetta og þá m.a. af því, eins og ég hef hér áður tekið fram, að hv. 2. þm. Eyf. hefur gert svo hreint fyrir okkar dyrum, sem lítum á það sem hættulegan hlut, að farið verið að brugga hér og selja innanlands áfengt öl. En af því að hv. þm. N-Ísf. talar svo mikið um höft og bönn og þau áhrif og viðleitni. sem bindindisstarfsemin í landinu og aðrir hafa haft í frammi til þess að hamla upp á móti vínnautninni, og hann lítur svo á, að þetta hafi verið fjötur um fót Íslendinga, vil ég nú spyrja: Hvað þekkir hv. þm. N-Ísf. inn á þetta? Hefur hann nokkurn tíma tekið þátt í bindindisstarfsemi? Hefur hann nokkurn tíma farið út um byggðir þessa lands til þess að boða mönnum bindindi, verið þátttakandi í starfsemi, sem leitar allra ráða bæði hver og einn sem einstaklingur og með félagsbundnum samtökum til að hafa áhrif á hugi fólksins í þessum efnum? Hverjir skyldu nú vera líklegri til þess að þekkja nokkuð til um það, hvað við á og haldbezt mundi vera í þessu efni, þeir, sem með löngu starfi hafa kynnzt hugsunarhætti fólksins í landinu, eða hinir, sem sneitt hafa fram hjá því að taka nokkurn þátt í slíku starfi, — þeir menn, sem nákunnugastir eru hugsunarhætti fólksins, hvernig ungt og eldra fólk hugsar í þessum efnum og hvað marka má af þeirri kynningu að líklegast sé til áhrifa? Þeir, sem bezt þekkja til, leggja allir á það mikla áherzlu, að löggjöfin veiti þeim stuðning í starfi sínu með skynsamlegum takmörkunum, er að haldi megi koma til að sporna á móti þessari gegndarlausu nautnafíkn, sem fram kemur, eins og kunnugt er, í þessu efni, hjá fjölda manna. Hinir, sem ekkert þekkja til þessa hugsunarháttar, eins og hinir svokölluðu raunsæismenn, sem nú hafa nýlega skotið selshausnum upp hér á Íslandi, þeir segja: Þetta er ekki leiðin; leiðin til þess er allt önnur. — Það eru tveir aðalpóstar í stefnuskrá þessara raunsæismanna, og þeir eru: að brugga og selja sterkt öl í landinu og gefa allar vínveltingar frjálsar. Þarna fékk hv. þm. N-Ísf. andlega sálufélaga. Það er nú verið að safna hér á vegum þessara raunsæismanna, að því er sagt er, undirskriftum hér í Reykjavík og víðs vegar úti um land, sem eiga að staðfesta það m.a., að öl með 31/2% vínanda að þunga sé ekki áfengt, því að það er einn liður í þessum undirskriftum að staðfesta, að svo sé ekki, því að þeir heimta, að þetta ákvæði verði látið standa í frv. Mér er sagt, að forustumaður þessa flokks, eða hvað nú á að kalla það, sé barna- og unglingafræðari, sem Reykjavíkurbær elur hér á brjóstum sér. Það er líka vissulega umhugsunarefni, þegar menn, sem settir eru í slíka ábyrgðarstöðu eins og það er að móla hug ungmenna, sá fyrstu frækornunum í sál æskunnar, — það er mikið ábyrgðarhlutverk, sem þessir menn eiga að gegna, en hvort þessi kenning er í fullu samræmi við það ábyrgðarríka starf, það ættu a.m.k. ráðamenn Reykjavíkurbæjar að taka til athugunar.

Ég skal nú svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en vænti þess, þegar til atkvgr. kemur, að þá megi tillögur mínar njóta hér í deildinni góðs gengis. Með því móti er af hálfu löggjafarvaldsins létt undir með þeim mönnum í þessu landi, sem gegna nú því hlutverki að vinna gegn vínnautninni, víkja þeim súra bikar frá vörum þjóðarinnar.