24.03.1954
Neðri deild: 67. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

12. mál, áfengislög

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Mér sýnist ástæða til í sambandi við þessa umr. að ræða örlítið um landhelgismálin, þó að þau ættu nú eiginlega að vera máli því, sem hér er til umr., dálítið óviðkomandi. En þannig stendur á, að á þskj. 496, sem er brtt. frá hv. þm. Borgf., er brtt. um það að ákveða landhelgi í því frv., sem hér er til umr., með nokkrum ákveðnum hætti, þ.e.a.s., að hún skuli falla saman við fiskveiðilinu þá, sem nú gilda um sérstakar reglur. Mér þykir ástæða til að vekja athygli á þessu vegna þess, að þessi fiskveiðilina er sérstaks eðlis og hefur ekki verið viðurkennd, hvorki af íslenzkri ríkisstj. né Alþingi, sem landhelgi Íslands, og tel ég mjög vafasamt og jafnvel hættulegt að gera það, jafnvei þó að í áfengislögum sé.

Það er engum vafa undirorpið, að mikill meiri hluti íslenzku þjóðarinnar vill ekki og mun ekki sætta sig við, að fiskveiðilína sú, sem nú gildir, verði í framtíðinni skoðuð sem íslenzk landhelgi. Þess vegna getur það verið hættulegt þeim málstað að slá því föstu, þó að sé aðeins í einu atriði.

Síðan samningurinn milli Dana og Englendinga um þriggja mílna landhelgi við Ísland féll úr gildi, hafa ekki verið í gildi nein l. frá Alþingi um íslenzka landhelgi. Hins vegar er vafalaust, að þegar Íslendingar og þá fyrst og fremst Alþingi tekur það mál til meðferðar, þá mun það vera talið eitt af veigamestu rökum í því sambandi. að eftir að þessi samningur féll úr gildi, þá eigi og hljóti að taka aftur gildi gamlar tilskipanir, sem giltu fyrir þennan samning milli Dana og Englendinga, en samkvæmt þeim tilskipunum, mörgum að minnsta kosti, gilti 16 mílna landhelgi við Ísland.

Ég skal ekki fjölyrða meira um þetta mál. Ég vil biðja hv. þm. að athuga það, og ég vil sérstaklega biðja hv. flm., hv. þm. Borgf., að athuga þetta mál, og ég vildi mælast til þess við hann, að að þeirri athugun lokinni og ef hann kemst að svipuðum niðurstöðum og ég við að hugleiða þetta mál, þá tæki hann þessa brtt. aftur.

Um málið sjálft, sem hér er til umr. að öðru leyti, skal ég ekki ræða. Ég vil þó aðeins gera örlitla athugasemd við brtt. hv. allshn. á þskj. 489. Þar er 3. brtt. þess efnis, að niður skuli fella ákvæðið um að banna að gefa veitingahúsum afslátt af áfengi. Hv. frsm. n. gat þess, að þetta væri gert vegna þess, að það væru óeðlilegir verzlunarhættir að setja það í sérstök l., að það skyldi óheimilt að veita þennan afslátt. En hv. allshn. hefur þá ekki verið samkvæm sjálfri sér í sínu nál., því að 5. brtt. n., brtt. við 13. gr., hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Bannað er að senda áfengi gegn póstkröfu“ — og það hygg ég þó, að þetta mundu vera nokkuð óeðlilegir verzlunarhættir, því að það mundi þá vera eina varan hér á landi, sem sú regla gilti um, að það væri bannað að senda hana gegn póstkröfu. Ég vil því fara þess á leit við hv. n., að hún reyni að samræma sitt sjónarmið, sína röksemdafærslu í nál. sínu, og að minnsta kosti breyti annarri hvorri till.

Loks vil ég þá aðeins geta þess rétt til gamans, að mér leiddist hálfpartinn að heyra það áðan, að tveir hv. þm. voru að deila um það, þ.e.a.s. annar deildi á hinn og hinn afsakaði sig fyrir það, að bjór, sterkur bjór, hafði verið kallaður neyzluvara. Þótti hv. þm. Borgf. það mesta hneyksli og mesta fásinna, og hv. þm. N-Ísf. dró í land með þetta og sagðist nú ekki hafa haldíð þessu beinlínis fram. En ég vil rétt til gamans láta það koma fram hér, að hv. þm. N-Ísf. þurfti alls ekki að draga neitt í land með þetta, því að vitanlega er bjór neyzluvara eins og hver önnur vara, sem neytt er, því að jafnvel hið sterkasta brennivín er neyzluvara. Þetta er nefnilega samheiti á öllum vörum, sem maðurinn lætur ofan í sig. Hins vegar munu þessir hv. þm. báðir hafa ruglað þarna saman hugtökunum neyzluvara og nauðsynjavara, og er illt til þess að vita, að slíku skuli ruglað saman hér á Alþingi.