08.04.1954
Efri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

12. mál, áfengislög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Það er nú orðið áliðið dags og reyndar komin nótt og málið hins vegar mikilsvert, sem hér er til umr., og veit ég ekki, hvort ég get komizt af með mjög skamman tíma til að segja það, sem ég hafði hugsað mér að segja. (Forseti: Ég vil gera athugasemd. Ef hv. þm. hyggur, að hann tali alllangan tíma, þá mun ég heldur fresta umr. og taka málið aftur fyrir á morgun.) Ég mun ekki tala í hálftíma. (Forseti: Ég hygg nú samt sem áður, að ég vildi þá heldur fresta umr.)

Bernharð Stefánsson: Herra forseti. Þó að ég hafi haft þá skoðun, að rétt væri að setja ný áfengislög, og væri reiðubúinn til að fylgja í höfuðatriðum frv. því, sem lá hér fyrir hv. d. í fyrra, og þó að ég enn fremur greiddi þessu frv. atkvæði og það með ánægju, þegar þessi deild afgreiddi það til hv. Nd., þá er ég nú í miklum vafa um, hvort ég greiði því atkv. eins og hv. Nd. hefur gengið frá því, ef ekki fást þar á nokkrar breytingar, og ég tel, að þessi hv. d. hafi gengið frá frv. meira í samræmi við 1. gr. þess heldur en hv. Nd. Ég skal vegna tímans ekki fara nánar út í það, en þetta er mín sannfæring.

Ég sé ekki, að frv., eins og það kemur frá hv. Nd., breyti nokkuð verulega núverandi ástandi eða núverandi löggjöf í nokkrum þeim atriðum, er máli skipta. Í fljótu bragði virðist aðalbreytingin vera sú frá gildandi lögum, að í frv. er á yfirborðinu heimilað, að veita megi fleirum en einu 1. flokks veitingahúsi leyfi til vínveitinga, en sá er galli á gjöf Njarðar, að ekkert veitingahús fengi sennilega slíkt leyfi, ef frv. verður samþ. óbreytt, því að svo er ákveðið, fyrir utan það, að alltaf á að bera slíkt undir bæjarstjórnir, þá þarf nú líka að bera það fyrir fram undir bæjarstjórnir, hvort yfirleitt megi veita vinveitingaleyfi í bænum, og við þekkjum allir þann áróður, sem hafður er í frammi alltaf þegar þessi mál ber á góma, og við þekkjum það einnig, hversu þeir fulltrúar, sem kosnir eru af almenningi, eru oft veikir fyrir áróðri, svo að ég dreg það mjög í efa, að með samþykkt frv. óbreytts yrði nokkru veitingahúsi veitt vínveitingaleyfi, heldur mundi rassvasavínið halda áfram á samkomum, bæði á veitingahúsum og öðrum skemmtistöðum. Og í annan stað er óvíst, að nokkurt veitingahús sæi sér hag í því að frv. óbreyttu að taka upp vínveitingar, þó að leyft væri, vegna þess að í frv. er bannað að gefa veitingahúsi nokkurn afslátt á áfengi, sem það kaupir í áfengisverzluninni.

Ég hygg, að það gæti vel staðið svo á, að ríkisvaldið sæi sér hag í því, að hóteli yrði komið upp, fullkomnu hóteli, sem gæti veitt útlendum ferðamönnum góðan beina, og vildi gjarnan styðja að því t.d. á þennan hátt, en það er bannað í frv. Ég man það, að hér fyrir örfáum árum var samþ. frv. um það, að ríkið ásamt tveimur öðrum aðilum kæmi upp nýtízku hóteli hér í Reykjavík. Það var áætlað þá, að þetta hótel kostaði 15 millj. kr., en ef það ætti að fara að byggja slíkt hótel nú, og lagaheimildin er víst fyrir hendi enn til þess, þá er ég hræddur um, að kostnaðurinn yrði heldur hærri en 15 millj. kr., og þó að þessu veitingahúsi væri nú komið upp með hjálp ríkisins og framlögum Eimskipafélagsins og annarra aðila, þá er ég ákaflega hræddur um að rekstur svo dýrs hótels yrði erfiður, og hætt við, að það yrði baggi á þeim aðilum, sem því kæmu upp, og þá álít ég, að það væri ekki öðruvísi hentugra að styðja slíkt hótel heldur en með því að veita því nokkurn afslátt á því áfengi, sem það keypti í áfengisverzluninni til veitinga.

Ég hef því leyft mér ásamt öðrum hv. þm. að bera fram tvær brtt. við þetta frv.

Fyrri brtt. er á þskj. 754 og er um það, að síðasti málsl. 9. gr. falli niður, en sá málsl. er þannig í frv.: „Óheimilt er að gefa veitingamönnum afslátt frá hinu ákveðna útsöluverði til almennings.“ Þessa till. flyt ég ásamt hv. þm. Mýr. (AE). Auðvitað verður þetta túlkað svo af þeim góðgjörnu mönnum, sem ræða um þessi mál frá annarri hlið heldur en ég, að ég vilji með þessu fyrirskipa það, að hótelum sé gefinn afsláttur á víni, en hver, sem les till., sér það, að svo er ekki, heldur finnst mér alveg óþarft að banna þetta sérstaklega í lögum. Ef liðurinn væri felldur niður, þá væri það á valdi hæstv. ríkisstj., hvort hún gæfi þar einhvern afslátt á, ef henni þætti það nauðsynlegt eða henta, og sé ég enga ástæðu til þess, eins og ég hef áður minnzt á og fært rök að, að leggja bann við slíku.

Þá er önnur brtt. á þskj. 755 frá mér, hv. þm. V-Sk. (JK) og hv. þm. Mýr. (AE), um það, að 2. málsgr. 12. gr. falli niður, en 2. málsgr. 12. gr. hljóðar svo: „Leyfi til vínveitinga samkvæmt þessari gr. má þó því aðeins veita, að hlutaðeigandi bæjarstjórn hafi fallizt á, að vín verði til sölu í veitingahúsum í bænum.“ Okkur flm. finnst alveg óþarft, að þetta ákvæði sé í frv., og teljum, að það mundi verða til þess, að fram kæmi óeðlilegur og leiðinlegur áróður í þessu máli í hvert sinn, sem slíkt væri borið undir bæjarstjórn, og algerlega óþarft, vegna þess að síðar í gr., í 4. málsgr. sömu gr., stendur: „Áður en vínveitingaleyfi er veitt, skal leita umsagnar bæjarstjórnar og áfengisvarnanefndar í þeim kaupstað, er í hlut á.“ Það er ekki litil áherzla, sem lögð er á íhlutun bæjarstjórna um þetta, þegar það þarf að taka það fram tvisvar í sömu gr., og hvernig sem menn eru nú sinnaðir í bindindismálum og þess konar, þá skil ég ekki annað en að menn athugi það og skilji, að það er þó a.m.k. óþarfi að taka þetta tvisvar fram, hvað sem öðru líður. Í seinni staðnum er að vísu aðeins talað um umsögn, en í fyrri staðnum um samþykki, en ég býst við, að í framkvæmd yrði það í flestum tilfellum það sama, nema sérstök knýjandi nauðsyn væri til annars, því að auðvitað mundi ríkisstjórn hika við, þegar hún er búin að leita umsagnar bæjarstjórnar og bæjarstjórnin segir í sinni umsögn, að hún sé því mótfallin, að veitingahús fái vínveitingaleyfi, að veita vinveitingaleyfi gegn andmælum bæjarstjórnarinnar, og okkur flm. finnst ákvæðið í seinni staðnum algerlega nægilegt í þessu efni. Vona ég því fastlega, að þessi brtt. okkar verði samþ.

Það hefur verið talað um tvær stefnur í þessu máli, annars vegar útrýmingu áfengis, sem ekki getur orðið með öðru móti en þá banni, sem stranglega væri framfylgt, og hins vegar frelsi, sem góðviljaðir menn segja að þýði sama og mikinn drykkjuskap. Báðar þessar stefnur eru hreinar og heiðarlegar út af fyrir sig, hrein afstaða í þeim báðum. Við höfum reynt frelsið í þessum efnum í margar aldir, og auðvitað var mikill drykkjuskapur hér á landi í langan tíma. En þegar ég var ungur maður, þá var svo komið þrátt fyrir frelsið, t.d. um 1910 og árin bæði fyrr og eftir, að drykkjuskapur var alveg að hverfa, a.m.k. meðal ungra manna. Ég var tvö ár skömmu eftir aldamótin í skóla á Akureyri, og ég sá varla nokkurn tíma drukkinn mann nema einn gamlan karl. Ég var hér líka um tíma, þegar ég var ungur maður, í Reykjavík, og ég sá aldrei drukkinn mann þann tíma, sem ég var hér, hvorki ungan né gamlan. Auðvitað sá ég ekki athafnir allra Reykvíkinga, þótt ég dveldi hér, en nokkuð er það, að nú ganga menn tæplega úti á götu öðruvísi en að sjá drukkinn mann. Svo reyndum við bann við áfengum drykkjum. Ég man vel eftir þeim tíma, eins og ég man vel eftir a.m.k. hálfum öðrum áratug, áður en bannið gekk í gildi, og mér virtist bannið hafa þau áhrif, að í staðinn fyrir það, að fyrir bannið þótti skömm að því að drekka mikið, a.m.k. skömm ungum mönnum, þá fór það að þykja sómi. Og menn höfðu alls konar útispjót á bannárunum til þess að ná sér í áfengi, og það var hreint og beint skóli í lögbrotum.

En síðan 1922, þegar Spánarundanþágan var gerð, hefur því miður hvorugri þessari stefnu verið fylgt. Það hefur verið séð svo um síðan, að vín hefur verið fáanlegt, en helzt af .öllu með því móti að gera flestalla þá menn að lögbrjótum, sem keyptu það á löglegan hátt í áfengisverzluninni, því að í sjálfu sér er varla hægt að kaupa flösku í áfengisverzluninni til þess að neyta hennar. Það er helzta ráðið, ef maður vill vera alveg viss um að hrjóta ekki landsins lög, að kasta henni niður í götuna, þegar komið er út, og brjóta hana. Auðvitað gera menn þetta ekki, heldur fara með það á mismunandi hátt, en í mjög mörgum tilfellum þannig, að því fylgja einhver meiri eða minni lögbrot. Það er líklega löglegt að drekka vín og veita gestum sínum vín heima á heimili sínu, en það er ákaflega vafasamt, hvort það er löglegt að flytja vínið úr áfengisverzluninni heim á heimili sitt í bíl. Ég man eftir, að hæstv. dómsmrh. fylgdi því máli, að það mætti dæma menn sem vínsala, ef það fyndist vín hjá þeim í bil, þó að engin sönnun væri fyrir því, að þeir ætluðu að nota það til slíks. Ég veit ekki nema menn, sem flytja vin hér frá áfengisverzluninni heim til sín í sjálfri Reykjavík, hvað þá lengra úti á landi, ef þeir eru í bíl, geti átt það á hættu að vera dæmdir sem vinsalar fyrir það, að áfengið er í bílnum.

Auðvitað er þetta allt gert í góðri meiningu af þeim, sem trúa því, að alls konar höft gagni. Það hafa áður verið sett ströng l. hér á Íslandi til þess að bæta siðferði manna. Þá voru nú boðorðin enn í gildi, sem sumir eru að tala um nú að afnema. Eitt af þessum boðorðum hljóðar svo: „Þú skalt ekki hórdóm drýgja.“ Og það er eins og að á þeim árum hafi þetta boðorð þótt mest um vert, því að þessi stóreflis lög, stóridómur, voru sett til þess að koma í veg fyrir það, að menn drýgðu hór. Það er ekki að miða. við það, þó að mörgum nútímamönnum finnist ekkert til um það, þó að menn drýgi hór. Það þykir ekki lengur stórsynd, samanborið við að bragða vín, eins og dæmin sanna. En þeirra tíma mönnum fannst það svona álíka verknaður að gera það eins og góðtemplurum finnst nú að drekka staup af víni, og það voru sett l. með stórum refsingum fyrir þennan verknað. Ef það kom fyrir fólk, og þó að það væri ekki nema annan hlutaðeigandann, í þriðja skipti, þá kostaði það karlmanninn höfuðið og konuna það, að henni var drekkt, eins og kunnugt er.

Var með þessu komið í veg fyrir lauslæti hér á landi? Ég held nú síður. Ég efast um, að það hafi nokkuð dregið úr því við þessar þungu refsingar.

Þá trúðu menn því í þá daga, að það væri hægt að komast í samband við höfðingjann í undirheimum og fá hjá honum styrk til illverka. Það var kallaður galdur, og menn voru dregnir á galdrabálið. Þetta var gert í góðri meiningu sjálfsagt, því að það var gert bæði til viðvörunar öðrum og eins til þess, að þeir seku brynnu þá ekki í helvíti hinum megin. Nú eru breyttir tímar, og engum dettur í hug að taka upp slíkar refsingár að hálshöggva menn eða brenna, jafnvel ekki við því að drekka brennivín, en það er þó alveg sama hugarfarið, sem ræður ýmsum lagaboðum nú viðvíkjandi áfengismálum, eins og réð þessum aðgerðum og 1ögum á 16., 17. og fram á 18. öld. Ef við hyrfum aftur í þá tíma, þá er lítill vafi á því, að þeir, sem nú fylgja fastast fram sem allra mestum hömlum og þvingunum og refsingum í áfengismálum, hefðu verið mjög hrifnir af því að hálshöggva menn fyrir hórdómsbrot og brenna galdramenn, því að það er sama hugarfar sem liggur til grundvallar fyrir hvoru tveggja: trúin á 1agaboð og refsingar.

Það hefur verið talað um þáð og jafnvel af merkum stjórnmálamönnum í útlöndum, að það sé kominn tími til að breyta boðorðunum eitthvað. Ég held nú, að þessi gömlu boðorð dugi okkur enn um hríð, eins og skáldið sagði, en eftir þeim anda, sem ríkir og svo greinilega hefur orðið ofan á í hv. Nd. Alþ., þá er sjálfsagt að bæta við einu boðorði, sem ætti að hljóða eitthvað á þessa leið: Ef þú drekkur áfengi, þá drekktu það alltaf í laumi — því að manndómurinn er ekki sá enn að hafa boðorðið alveg ákveðið eins og sjötta boðorðið er og segja: Þú skalt ekki vín drekka.