06.04.1954
Neðri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

201. mál, virkjun Sogsins

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það var nú svo til ætlazt, að þetta frv. hér á þskj. 697, sem er viðauki við lögin frá 1946, um virkjun Sogsins, hefði fylgt frv. á þskj. 633, um viðauka við raforkulög, eftir hér, en það var til umr. hér í hv. deild s.l. föstudag.

Ég skal aðeins taka það fram varðandi þetta frv., að það er flutt af ríkisstj., og er það ósk hennar, að þessi tvö frv. varðandi raforkuframkvæmdir megi fylgjast að og verði bæði afgreidd hér á þessu þingi.

Eins og fram er tekið í frv. þessu, þá er hér um heimild að ræða til lántöku til þess að virkja efra Sogið, allt að 100 millj. kr., eða tilsvarandi upphæð í erlendum gjaldeyri, enda komi samþykki ríkisstj. til.

Frv. þetta er flutt samkvæmt heiðni stjórnar Sogsvirkjunarinnar og er flutt vegna þess, að talið er nauðsynlegt að fara að vinna að þeim málum, að þriðja virkjun Sogsins verði nú framkvæmd eins fljótt og unnt er, og telur ríkisstj. sjálfsagt, að Alþ. stuðli að því, að fram kvæmdir tefjist ekki varðandi þetta mikla nauðsynjamál frekar en nauðsynlegt er vegna þeirra erfiðleika, sem náttúrlega kunna nú að mæta að ýmsu leyti.

Það er hér bráðabirgðaáætlun í grg. um kostnað við þetta, og hljóðar hún upp á 100 millj. kr., sem er talin sú upphæð, sem nú ætti að nægja til þessa mannvirkis. Er það að sjálfsögðu von allra, að þetta mikla mannvirki, sem raunverulega verður fullvirkjun Sogsins, þurfi ekki að fara langt fram úr því, sem hér er áætlað.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Málið liggur ljóst fyrir, margrætt áður, og glöggar upplýsingar í þeirri grg., sem frv. fylgja. Ég vil því aðeins leyfa mér að óska eftir, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr. og hv. fjhn.