12.04.1954
Efri deild: 85. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

205. mál, happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér þykir réttara að fylgja þessu máli úr hlaði með örfáum orðum, og mun það verða með svipuðum hætti og ég gerði í Nd., en þar var það til umr. á laugardaginn.

Það munu vera liðin um 17 ár frá því, að sjómannastéttin kjöri sér sérstakan dag til þess að minna á sína miklu þýðingu í þjóðfélaginu og jafnframt til þess, að sjómenn gætu þá, eftir því sem kringumstæður leyfðu, komið saman, átt sér frídag og fagnað sameiginlega. Það kom brátt í ljós, eftir að stofnað hafði verið til þessa dags, — það voru ýmsar skemmtanir haldnar í sambandi við hann, — að nokkur tekjuafgangur varð af þessum skemmtunum, og vaknaði þá eðlilega sú spurning, hvernig bæri að verja þeim tekjum. Forustumenn sjómanna komust skjótt að niðurstöðu um það, að æskilegast væri, að þeim yrði varið til þess að koma upp dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn, og geri ég nú ráð fyrir, að þeir, sem hafa haft lengri tíma til að athuga hvað réttast og eðlilegast mundi vera í þeim efnum, mundu nú samsinna því, að þetta væri skynsamleg ákvörðun.

Skömmu eftir að þessi ákvörðun var tekin, var svo kosin nefnd til þess að hafa með höndum almenna fjársöfnun, því að það þótti sýnt, þrátt fyrir nokkurn tekjuafgang af þessum degi, að langt mundi verða að biða framkvæmda, ef sá tekjuafgangur einn ætti að standa undir þeim fyrirætlunum, sem þá þegar voru í frammi hafðar um byggingu dvalarheimilisins. Þessari nefnd varð vel til fjár. Ýmis fyrirtæki og þá helzt þau, sem útgerð stunda, gáfu riflegar fjárfúlgur til þessa heimilis, og auk þess hefur þetta ágæta mál notið samúðar og stuðnings almennings í landinu, og af þeim ástæðum hefur, eins og ég segi, þegar safnazt nokkur fjárfúlga.

En þegar hér var komið málum, þá urðu örðugleikar á vegi forustumanna þessa máls og þá fyrst og fremst þeir, að ekki auðnaðist að fá leyfi til fjárfestingar í þessu skyni. Þau stjórnarvöld, sem höfðu með slík mál að gera, vildu ekki fallast á, að hafizt væri handa um byggingu þessa heimilis. Það leiddi m.a. til þess, að sjóðirnir, sem fyrir hendi voru, rýrnuðu í verði og höfðu minna gildi til framkvæmda eins og aðrir sjóðir eða aðrir peningar í landinu. Þó kom þar á s.l. vori, að leyft var að hefjast handa í þessum efnum, og það var fyrir atbeina ríkisstj. Bæjarstjórn Reykjavíkur hafði þá úthlutað mikilli og góðri lóð undir þetta dvalarheimili á Laugarási svo nefndum. Þar er viðsýni mikið, og ég hygg, að þó að sjómenn hafi raunar heldur kosið annan stað í öndverðu, þá uni nú allir vel því, sem orðið er hvað þetta áhrærir.

Um þetta hæli er að öðru leyti það að segja, að ætlað er, að það verði byggt í tveimur áföngum. Hinn fyrri er ætlað að muni kosta 8 millj. kr. og rúma um 180 vistmenn. Síðari hlutinn er ætlað að muni kosta 3 millj. kr. og rúma einnig sömu tölu vistmanna, þannig að alls yrði þá heimilið fyrir tæpa 360 vistmenn. Munurinn, sem kemur fram í þessum tölum, annars vegar 8 millj. og hins vegar 3 millj., þó að vistmannatalan sé ætluð hin sama fyrir báða þessa hluta byggingarinnar, stafar auðvitað af því, að þegar fyrri hlutanum er lokið, er búið að reisa ýmislegt af því, sem verður til sameiginlegra afnota allra vistmanna, og skal ég ekki fara lengra út í það.

Eins og sakir standa, er verið að reisa þetta hæli, og það er búizt við, að lokið verði við helming af fyrri hluta framkvæmdanna nú hinn 1. júní n.k. Sá helmingur kostar 4 millj. og hefur ekki farið neitt fram úr áætlun, en þá er líka á þrotum fé það, sem forustumenn sjómannanna hafa til umráða. Þeim er þess vegna ljóst, að ef nauðsynlegar framkvæmdir eiga ekki að dragast úr hófi fram, ber nauðsyn til að leggja inn á aðrar og nýjar brautir um fjáröflun, og hafa í því skyni snúið sér til ríkisstj. með beiðni um að mega stofna til happdrættis. Ríkisstj. tók því máli mjög vel, og þrátt fyrir takmarkaðan tíma, svo að ég segi nú ekki meira, þá er þó málið komið það langt áleiðis nú, að ríkisstj. hefur flutt um það frv., sem hv. Nd. er búin að afgreiða og nú er hér til umr.

Í því frv. er — eins og menn sjá — gert ráð fyrir, að stofnað verði happdrætti til tekjuöflunar fyrir dvalarheimili aldraðra sjómanna. Ráðherra ákveður að fengnum tillögum stjórnar dvalarheimilisins verð á happdrættismiðunum. Dráttur á að fara fram einu sinni í mánuði, og þessi heimild á að gilda í 10 ár, en ágóða öllum varið til byggingar dvalarheimills aldraðra sjómanna. Loks er ákvæði um, að vinningar í happdrættinu skuli undanþegnir opinberum gjöldum öðrum en eignarskatti á því ári, sem þeir falla til.

Ég vil svo aðeins geta þess, að sjálfur treysti ég mér ekki til að fullyrða um, að hvað miklu liði fyrirmæli þessa frv., ef staðfest verða og að lögum verða, koma þessu ágæta málefni, en hins vegar trúa forustumenn málsins því, að þeim sé hinn mesti fengur að slíkri heimild sem frv. þetta mælir fyrir um.

Ég vil taka það fram, að ríkisstj. spurðist fyrir um það hjá þeim, sem þetta mál færðu í tal við hana, hvort þeir hefðu haft um það samráð við S.Í.B.S., og upplýstu þeir, að þeir hefðu einmitt fengið sínar leiðbeiningar frá forustumönnum berklasjúklinganna, sem í þessum efnum hafa mikla reynslu.

Ég leyfði mér í hv. Nd. að mælast til þess og þó því aðeins; að engum þætti hér um varhugaverðan hlut að ræða, að málið fengi að ganga nefndarlaust í gegnum d., og d. féllst á það og jafnvel þannig, að enginn taldi ástæðu til að kveðja sér hljóðs. Ég leyfi mér að bera fram slík tilmæli einnig hér og hygg, að ef hv. dm. eru á einu máli um, að þetta frv. eigi að ná fram að ganga, mundu kannske hentugust vinnubrögð, ef hæstv. forseti telur ekki neitt því til fyrirstöðu, að afgreiða þetta á þremur fundum, sem settir yrðu hver að öðrum loknum, og ljúka málinu í dag. En ég sætti mig að sjálfsögðu við, að það fari til n., ef álit gæti komið á morgun og málinu þá orðið lokið á morgun. En sem sagt, ég leyfi mér að endurtaka það, að hv. Nd. taldi, að hér væri um það augljóst hagsmunamál góðs fyrirtækis að ræða, að það var ekki talin ástæða til þess að láta málið sæta meðferð í nefnd.