05.04.1954
Efri deild: 77. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

197. mál, gin- og klaufaveiki

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er flutt vegna þess, að að góðra manna áliti hefur hreindýrum á Austurlandi fjölgað svo mjög síðustu ár, að nú er talin sérstök ástæða til ráðstafana af því tilefni.

Menn telja, að hætta geti verið á því, að á hörðum vetri kunni dýrin að falla, og þeim mun meiri hætta sem fjöldinn er meiri, sem dreifir sér á tiltölulega litla bithaga.

Menn benda enn fremur á það, að nú þegar verði bændur í nágrenni við hreindýraslóðirnar fyrir töluverðum ágangi af hreindýrunum og með vaxandi fjölda þeirra séu líkur til þess, að sá ágangur aukist. En dýrunum hefur fjölgað svo nú, að talið er, að þau séu a.m.k. ekki færri en 2000, en voru fyrir hér um bil 15 árum talin vera ekki fleiri en kringum 100.

Af öllum þessum ástæðum sýnist mönnum, að rétt sé að hagnýta dýrin á einhvern veg, og enn sem komið er hafa menn ekki séð betra ráð en að takmarkaðar veiðar væru heimilaðar, og þá er ráðgert, að settar verði reglur um það, hvernig slíkum veiðum verði fyrir komið. Sérstök leyfi yrðu þá gefin út til veiðanna og síðan í samráði við fulltrúa héraðanna kveðið á um, hver hagnast skyldi af veiðunum, og hafa menn þá helzt haft í huga, að þeir bændur, sem í nágrenni búa og helzt má ætla að verði fyrir ágengni af dýrunum, fái einhvern arð af þeim með þessum hætti í staðinn og ef til vill til viðbótar komi nokkur arður til þeirra sýslusjóða, sem hér eiga hlut að máli, en um allt þetta mundu verða settar nánari reglur.

Um þetta allt hefur verið haft náið samráð við eftirlitsmann dýranna austur þar, og það er skoðun manna, að rétt sé að fá þessa lagaheimild nú þegar, þannig að á næsta sumri væri hægt að láta hinar nýju reglur taka gildi. Þess vegna vonast ég til þess, að menn geti orðið ásáttir um að hraða afgreiðslu þessa frv. þannig, að það geti náð fram að ganga, þó að nú sé komið að þinglausnum.

Ég vildi mælast til þess, að frv. fengi að ganga til 2. umr. og hv. menntmn. þessarar d.