08.04.1954
Efri deild: 81. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

197. mál, gin- og klaufaveiki

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. þetta, sem liggur fyrir, er um breyt. á l. nr. 28 frá 1940, um friðun hreindýra. Þegar hreindýr voru upphaflega flutt til landsins, var það gert í þeim tilgangi, að landsmenn mættu hafa af þeim nokkurt gagn. Dýrin dvöldust mest á austurhálendi landsins og á Reykjanesskaga. Nokkur fjölgun mun hafa átt sér stað framan af, en brátt munu menn hafa farið að stunda þessar dýraveiðar, og svo hafa harðindi oft og tíðum orðið dýrunum að bana. Þetta hvort tveggja varð til þess, að dýrunum fækkaði svo, að tekið var til þess ráðs að setja friðunarlög. Þá voru dýr þau fá, sem eftir voru á Reykjanesskaga, og skömmu eftir aldamót urðu þau aldauða þar. En á austurhálendinu lifðu þau áfram og fjölgaði svo, að 1940 var sett inn í friðunarlög heimild ráðherra til þess að fella eitthvað af dýrunum, tarfa, og voru síðan árlega fram til þessa 20–60 dýr, sem veidd voru á hverju ári. Nú er svo komið, að dýrunum hefur fjölgað svo ört, að þau eru áætluð að vera um 2000 að tölu, og veit það þó enginn með vissu, sem eðlilegt er. Í harðindunum leita þau nú orðið til byggða og gera þar skaða í bithögunum með krafsi sínu, og svo er hætt við því og hefur einnig skeð, að dýrin hafa fallið úr hor í harðindum. Því er frv. þetta fram komið, að ráðh. er gefin viðtækari heimild en hingað til hefur verið til þess að láta veiða dýr í samráði við sýslumenn og eftirlitsmann. Er frv. þetta samið til þess að halda fjölgun dýranna í skefjum, svo að síður komi fyrir, að þau falli úr fóðurskorti, og eins, að þau eyðileggi ekki bithaga búfjár. — N. hefur orðið sammála um frv. og leggur til, að það verði samþykkt.