13.04.1954
Efri deild: 92. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

209. mál, gin- og klaufaveiki

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en ég vil nú samt segja það viðvíkjandi því, sem hv. þm. Str. (HermJ) sagði, að það er tvennt gerólíkt að flytja inn kjöt af skepnum eða lifandi skepnur. Má þá t.d. nefna smitandi kálfalát, sem ekki getur borizt með kjöti af skepnu, en getur borizt með lifandi skepnu og er einhver alhættulegasti og alskaðlegasti sjúkdómur, sem maður getur fengið í kýr sínar. Og það mætti nefna margt fleira. Þannig er samlíkingin, sem hann tók, ekki rétt.

Að öðru leyti vil ég leggja ríka áherzlu á það, að þegar farið verður að framkvæma þetta, þá sé því framfylgt að flytja það frá landi, þar sem heilbrigðiseftirlitið í landinu sjálfu er sem sterkast. Það eru til lönd, þar sem ekki hefur verið gin- og klaufaveiki, það er rétt; en það eru þar ýmsir aðrir sjúkdómar, sem sumir geta borizt með kjöti. Það þarf þess vegna að gjalda varhuga við því, að fyrst og fremst ber að flytja það frá landi, þar sem heilbrigðiseftirlit heima fyrir er sem sterkast og þess vegna þar hægt að hafa mesta tryggingu fyrir því, að ekki berist nein sýking með kjötinu. Á þetta legg ég höfuðáherzlu.

Að öðru leyti skal ég ekki láta málið til mín taka, en þetta vildi ég aðeins segja.